133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:28]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2006 frá 1. minni hluta fjárlaganefndar. Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.

Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar gerir 91 breytingartillögu við frumvarpið sem samtals nema 4.888,9 millj. kr. til hækkunar. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem nánar verður fjallað um þær í framsögu.

Þá gerir 1. minni hluti breytingartillögur við sundurliðun 1, tekjur A-hluta, en endurskoðuð tekjuáætlun gerir ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um liðlega 4,2 milljarða frá áætlun í frumvarpinu.

Það er álit nefndarinnar að skoða þurfi sérstaklega heilbrigðismál á milli 2. og 3. umr. fjáraukalaga. Nefndin hefur kallað eftir upplýsingum um stöðu heilbrigðis-, hjúkrunar- og öldrunarstofnana. Nauðsynlegt er að fara heildstætt yfir stöðu viðkomandi stofnana áður en kemur að 3. umr.

Þá var einnig ákveðið að fresta afgreiðslu heimildagreina sem falla undir 4. gr. fjáraukalagafrumvarpsins, eða 6. gr. fjárlaga 2006, og fara betur yfir þær heimildir í samvinnu við fjármálaráðuneytið.

Hæstv. forseti. Í þessu skjali á eftir nefndarálitinu eru skýringar við einstakar breytingartillögur sem eru 91 talsins, ég ætla ekki að fara yfir hverja og eina þeirra heldur vísa ég í það nefndarálit sem ég reifa hér og búið er að dreifa í þingsal.

Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Undir nefndarálitið rita Birkir Jón Jónsson, Einar Oddur Kristjánsson, Guðjón Ólafur Jónsson og Bjarni Benediktsson.

Hæstv. forseti. Mig langar í örfáum orðum að fara yfir helstu breytingar og þá pólitík sem endurspeglast í því fjárlagafrumvarpi sem hér hefur verið dreift við 2. umr. fjáraukalaga ársins 2006.

Ef við horfum til þeirra tillagna sem hér eru lagðar fram til breytinga á milli 1. og 2. umr. þá er lagt til að gjöldin, eins og ég sagði áður, aukist um 4,9 milljarða en tekjur um liðlega 4,2 milljarða. Samkvæmt þessu er afgangur fjárlaga ársins 2006 um 45 milljarðar kr. og breytist ekki mikið á milli 1. og 2. umr. og er þetta því með meiri afgangi sem við höfum séð á síðustu árum ef undan er skilið árið 2005 hvað þetta varðar.

Þau útgjöld sem lögð eru til á milli 1. og 2. umr. snerta að helmingi til heilbrigðismál. Það var samdóma álit nefndarmanna að skoða enn frekar málefni heilbrigðisráðuneytisins á milli 2. og 3. umr. Við höfum kallað eftir frekari upplýsingum um stöðu einstakra málaflokka innan ráðuneytisins, um stöðu einstakra stofnana, og við treystum okkur ekki til að koma með endanlegar tillögur er varða heilbrigðisráðuneytið fyrr en við 3. umr. fjáraukalaga ársins 2006.

Lagt er til að um 2 milljarðar af þeim 4 sem lagðir eru til í útgjöldum renni til heilbrigðismála. Þar ber hæst að 1 milljarður mun renna til Landspítala – háskólasjúkrahúss til að mæta uppsöfnuðum halla. Við fengum forsvarsmenn Landspítalans á fund nefndarinnar. Við áttum ágætan fund og fórum yfir málefni spítalans. Þar kom fram af hálfu forsvarsmanna hans að Landspítalinn er í eðli sínu endastöð í heilbrigðiskerfinu, tekur á móti erfiðustu tilfellunum og getur í raun og veru ekki vísað neinum frá sér eða vísað sjúklingum annað, því þar er jú, að öðrum heilbrigðisstofnunum ólöstuðum, mesta þekkingin til staðar og þar af leiðandi koma mjög mörg erfið viðfangsefni til úrlausnar á spítalanum og oft ófyrirséð.

Því er lagt til við 2. umr. að 1 milljarður renni til Landspítalans þannig að hann geti staðið undir því mikilvæga hlutverki sem hann gegnir. Mun þessi milljarður fara til þess að mæta uppsöfnuðum halla sem myndast hefur á árinu.

Það kom líka fram á fundi með forsvarsmönnum Landspítalans að það er mjög mikilvægt að spítalanum verði veitt aukið svigrúm til að geta innleitt breytt vinnubrögð á spítalanum en núverandi lagaumhverfi hamlar því miður forsvarsmönnum spítalans að gera ákveðnar breytingar á rekstri þessa stóra vinnustaðar. Ég minni á að framlög til þessa vinnustaðar eru um 30 milljarðar kr. sem eru um 8–9% af fjárlögum ársins 2007. Því er ljóst að yfirstjórn spítalans verður að hafa í höndum einhver tæki til að geta brugðist við breyttu ástandi innan stofnunarinnar eða breytt ástandi á þann veg að hægt sé að auka gæði þjónustunnar og fara betur með það mikla fjármagn sem fer til reksturs spítalans.

Hæstv. forseti. Einnig kölluðum við til forstjóra Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Hæstv. ríkisstjórn lagði til að 80 millj. yrðu settar aukalega til fjórðungssjúkrahússins á fjáraukalögum ársins 2006. Við nánari skoðun eftir fund með forstjóra stofnunarinnar var það skoðun meiri hluta nefndarinnar að auka þyrfti enn frekar framlög til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sem gegnir lykilhlutverki í þjónustu á sviði heilbrigðismála á landsbyggðinni.

Það kom í ljós á fundi með forstjóra stofnunarinnar að sjúkrahúsið hefur verið að stækka og eflast. Þar er verið að sinna fleiri verkefnum þannig að álag á Landspítala – háskólasjúkrahús hefur minnkað sem því nemur. Eftir viðræður við forsvarsmann spítalans ákvað meiri hluti nefndarinnar að auka framlög um 20 millj. til þess að minnka hallarekstur og verja öðrum 20 millj. til þess að kaupa tæki fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri en það er mjög aðkallandi og brýn þörf á því sviði hjá spítalanum sem hefur verið að reyna að auka tækjakost sinn til að geta sinnt sjúklingum sínum enn betur og veitt betri þjónustu.

Við hv. þingmenn þurfum ekkert að fara í grafgötur með hversu mikilvægu hlutverki Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sinnir í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Það er skylda okkar að hlúa vel að þeirri þjónustu til þess að spítalinn geti sinnt því lögbundna hlutverki sem honum er ætlað og geti í síauknum mæli leyst sín mál, mál sinna sjúklinga á heimavelli, þannig að ekki þurfi að senda fólk í miklum mæli á Landspítala – háskólasjúkrahús. Það er hagsmunamál fyrir landsbyggðina, það er hagsmunamál fyrir þá sjúklinga sem leita til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.

Hæstv. forseti. Jafnframt er gert ráð fyrir að verja 500 millj. af ónýttum fjárheimildum til að koma til móts við uppsafnaðan rekstrarhalla öldrunarstofnana sem staðsettar eru víða um land. Ég vil segja það í ljósi þessa að ég hef vissar áhyggjur af stöðu öldrunarstofnana í landinu. Við höfum verið að viða að okkur upplýsingum um stöðu þeirra og ljóst er að margar þeirra glíma við viðvarandi rekstrarhalla, jafnvel mörg ár aftur í tímann. Þess vegna er mjög brýnt að við förum yfir það hvað veldur. Er það vegna mikils launaskriðs innan stofnananna? Er reiknilíkanið rétt upp sett hvað það varðar, sérstaklega kannski gagnvart minni stofnunum sem hafa minni nýtingu og þar af leiðandi óhagstæðari rekstrareiningar? Við þurfum að fara betur ofan í þetta.

Staðreyndin er sú að margar af þessum öldrunarstofnunum, sérstaklega minni öldrunarstofnanir vítt og breitt um landið, eru reknar af sveitarfélögunum sjálfum. Það segir sig sjálft þegar viðkomandi stofnanir eru reknar ár eftir ár í miklum taprekstri að það hefur óhjákvæmilega mikil áhrif á stöðu viðkomandi sveitarfélaga og mun þar af leiðandi geta leitt til þess í framtíðinni að þessi sveitarfélög eigi erfiðara með að sinna sínum lögbundnu hlutverkum þar sem eigið fé þessara sveitarfélaga fer hugsanlega í það að greiða niður þennan mikla hallarekstur.

Ég tel því mjög mikilvægt að við í fjárlaganefnd förum yfir þessi mál. Það getur vel verið að það taki langan tíma að fara í heild sinni yfir öldrunarmálin almennt sem og málefni heilbrigðisráðuneytisins. Það er að minnsta kosti ómaksins vert að við nefndarmenn í fjárlaganefnd förum betur yfir þessi mikilvægu málefni, því að það eru heilbrigðismálin, hvort sem er í hinum dreifðu byggðum eða þéttbýlisstöðunum, sem skipta svo miklu máli, að það sé vel að þeim staðið og að við búum vel að öldruðu fólki. Það er kannski líka þannig sem fólk hugsar þegar það ákveður sér framtíðarbúsetu: Hvernig er heilbrigðismálum sinnt á viðkomandi stað? Þess vegna legg ég mikla áherslu á það, og veit að ég hef stuðning nefndarmanna í hv. fjárlaganefnd til þess, að fara betur ofan í málefni heilbrigðisráðuneytisins almennt.

Hæstv. forseti. Einnig var lagt til að verja fjármunum til nokkurra stofnana eftir að búið var að setja stofnanir í ákveðið reiknilíkan sem unnið hefur verið að í heilbrigðisráðuneytinu á undanförnum missirum. Eftir að ákveðnar stofnanir voru settar í það líkan kom fram mismunur á því hvort fjárheimildir væru réttar. Þar sem svo var ekki samkvæmt reiknilíkaninu er lagt til í fjáraukalögum ársins 2006 að ákveðnar heilbrigðisstofnanir verði réttar af í samræmi við það reiknilíkan sem nú hefur verið unnið að. Má nefna að Heilbrigðisstofnun Suðurlands fær tæpar 150 millj. kr. á fjáraukalögum ársins 2006, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja um 167 millj. og Heilbrigðisstofnun Austurlands um 94 millj.

Varðandi reiknilíkanið fyrir heilbrigðisstofnanir þá höfum við nefndarmenn í fjárlaganefnd lagt vinnu í að fara ofan í þetta reiknilíkan ásamt embættismönnum í heilbrigðisráðuneytinu. Við sjáum að það eru einhverjar brotalamir í því, enda er þetta reiknilíkan á því stigi að búið er að senda það út á heilbrigðisstofnanirnar og heilbrigðisráðuneytið á eftir að fá viðbrögð frá þessum stofnunum. Því var það niðurstaða milli nefndarinnar og embættismanna í heilbrigðismálaráðuneytinu að nefndin og ráðuneytið mundu aftur eiga fund eftir áramót, í febrúar/mars, til þess að fara yfir þessi málefni og þær breytingar sem hafa átt sér stað á reiknilíkani fyrir heilbrigðisstofnanir.

Þetta er mjög vandmeðfarið mál og getur haft mikil áhrif á stöðu einstakra stofnana. Því er mjög brýnt að fjárlaganefnd og þingið sé mjög vel meðvitað um þær breytingar sem verið er að leggja til í þessum efnum og það er skylda okkar að vera vel inni í þessum málum. Því var ákveðið á fundi nefndarinnar með heilbrigðisráðuneytinu að við færum sameiginlega ofan í þetta reiknilíkan í febrúar/mars 2007 því reiknilíkanið á endanlega að taka gildi 1. janúar árið 2008 og er því úrlausnarefni í fjárlagagerð fyrir árið 2008.

Hæstv. forseti. Einnig voru gerðar nokkuð miklar breytingar í heimildagreinum, m.a. um það að 87 milljarðar verði settir í heimildagrein til að styrkja gjaldeyrisstöðu Seðlabanka Íslands. Mér heyrist að það sé almennt samstaða um að það sé nauðsynlegt að Seðlabankinn hafi þau úrræði í því frjálsa markaðshagkerfi sem við höfum innleitt hér á landi, hafi úrræði til að bregðast við ef óvæntir atburðir gerast á markaði. Við vitum að búið er að gefa út svokölluð jöklabréf eða krónubréf í miklum mæli erlendis og það þarf oftar en ekki mjög lítið til þess að þau fari á mikið skrið og því mikilvægt að við höfum ákveðin úrræði til að bregðast við ef þróunin verður hröð á því sviði.

Jafnframt er gert ráð fyrir tæpum 27 milljörðum í lántöku vegna kaupa á hlut Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Það hefði ekki átt að koma neinum þingmanni á óvart. Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hefur lagt fram þá stefnumörkun að það sé æskilegt að ríkið eigi eingöngu Landsvirkjun, m.a. vegna þess að Reykjavíkurborg er nú eigandi að einum stærsta samkeppnisaðila Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur. Það gengur ekki, og ég held að menn séu sammála um það, að Reykjavíkurborg sé beggja vegna við borðið, bæði sem hluthafi í Landsvirkjun og í Orkuveitu Reykjavíkur. Það er mjög mikilvægt að við fáum skýrt eignarhald á þetta mikilvæga fyrirtæki, sem gegnir mjög mikilvægu hlutverki í atvinnulegu og byggðarlegu tilliti, því að þetta fyrirtæki hefur verið að veita fyrirtækjum og einstaklingum í landinu raforku á mjög góðum kjörum ef við berum okkur saman við þau nágrannalönd sem við berum okkur oftast saman við. (Gripið fram í.)

Með þessu er ekki verið að stíga skref í þá átt að einkavæða Landsvirkjun eins og hv. stjórnarandstæðingar halda fram — það er stefna Framsóknarflokksins í þessum efnum að Landsvirkjun eigi að vera í opinberri eigu. Við erum þvert á móti að stíga það skref að nú verður eignarhluti ríkisins 100% í þessu mikilvæga fyrirtæki, ef samningar ganga eftir.

Þess skal getið í þessari umræðu að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar í nefndinni mótmæltu þeirri málsmeðferð að við værum að veita þessa heimild. Þetta er búið að vera í umræðu innan stjórnarflokkanna. Stjórnarflokkarnir hafa tekið ákvörðun um að Landsvirkjun verði keypt af þessum tveimur sveitarfélögum. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að við ræðum þessi mál í fjárlaganefnd á milli 2. og 3. umr., ekkert sjálfsagðara en að við fáum aðgang að þeim pappírum sem snerta söluna og förum yfir þetta í fjárlaganefnd á milli 2. og 3. umr. Hér er allt uppi á borðinu, engin leyndarmál, þvert á það sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa bent á.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum ræða heildarsamhengið í þessu máli. Ég er búinn að fara yfir helstu atriðin sem við lögðum til í breytingunum og aðalatriðið í þeim tillögum sem ríkisstjórnin og meiri hluti fjárlaganefndar hafa sett fram núna er að styrkja velferðarkerfið. Það er verið að styrkja velferðarkerfið gríðarlega og mæta kröfum margra stofnana á þeim sviðum og tillögurnar endurspeglast í því.

Við 2. umr. fjáraukalaga er ekki mjög mikil breyting á afgangi fjárlaga ársins 2006. Ef við setjum þetta í samhengi þá skilar ríkissjóður á þessu ári, að öllu óbreyttu, 45 milljörðum í rekstrarafgang og ef við tökum árið 2005 bætast við samkvæmt ríkisreikningi 112 milljarðar sem ríkissjóður skilar í afgang.

Ég fullyrði að nær ekkert þeirra landa sem við berum okkur saman við getur státað af jafnmiklum árangri, tæpum 160 milljörðum í afgang á fjárlögum á árunum 2005 og 2006. Hér er um gríðarlega mikla fjármuni að ræða og það er mjög mikilvægt að við förum vel með þessa fjármuni því að þetta eru fjármunir framtíðarinnar. Í dag borgum við næstum ekki neina vexti. Við fáum meiri vaxtatekjur, íslenski ríkissjóðurinn, en við borgum í vaxtagjöld. Ég vil í þessari umræðu minna á að árið 1998 — og horfi ég nú á hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur sem er mjög umhugað um menntamál — borgaði ríkissjóður sem samsvaraði öllum fjárframlögum til menntamála í þetta. Í dag er þessi jöfnuður jákvæður. Við fáum meira í vaxtatekjur en vaxtagjöld. Þetta er gríðarlegur viðsnúningur og þessir fjármunir sem við höfum verið að ná inn í ríkissjóð á undanförnum árum munu nýtast í því að við getum lagt enn þá meiri áherslu á mennta-, velferðar- og heilbrigðismál í framtíðinni. Staða ríkissjóðs hefur nær aldrei verið eins sterk og hún er í dag.

Hæstv. forseti. Það er stefnumið ríkisstjórnarinnar að skila þessari bættu afkomu til almennings í landinu. Bæði fjárlög 2006 og 2007 bera þess merki. Við munum áfram standa vel að heilbrigðis-, mennta- og félagsmálum eins og ég sagði áðan. En við munum jafnframt skila því til almennings í formi skattalækkana, stórhækkaðra barnabóta, stórhækkaðs persónuafsláttar, sem hækkar um 14%, skattleysismörkin verða 90 þús. kr. frá og með næstu áramótum.

Þetta eru allt mikilvægir áfangar sem munu stuðla að því að á meðan við stöndum vörð um heilbrigðis- og félagsmálin heldur kaupmáttur almennings áfram að aukast. Hann hefur aukist um 60% frá árinu 1995 og með aðgerðum ríkisstjórnarinnar, m.a. með lækkun matarskattarins sem mun taka gildi á næsta ári, aukum við enn kaupmátt almennings í landinu. Það er vegna góðrar stöðu ríkissjóðs og ábyrgrar ríkisstjórnar sem hefur oftar en ekki tekið mjög erfiðar ákvarðanir, umdeildar ákvarðanir, hvort sem það var að markaðsvæða ríkisfyrirtæki eða sýna aðhald í útgjöldum á ýmsum sviðum. (Forseti hringir.) En þá hefur ekki staðið á hv. stjórnarandstöðu að koma upp í ræðustól á Alþingi og mótmæla kröftuglega ef hún hefur það á tilfinningunni að ríkisstjórnin sé að gera óvinsæla hluti.

Er það af mannvonskunni einni sem hv. ríkisstjórn hefur farið í þær aðgerðir til þess að skila ríkissjóði með þeim afgangi sem raun ber vitni? Er það af mannvonskunni einni? Nei, það þarf að vera pólitískur stöðugleiki í efnahagsstjórn landsins og hvað er það sem knýr áfram framfarir í þeim löndum sem við berum okkur saman við? (Gripið fram í.) Það er pólitískur stöðugleiki. (Gripið fram í.) Það er pólitískur stöðugleiki sem hefur einkennt íslenskt samfélag á síðustu 11 árum og sé ég að hv. þingmenn Samfylkingarinnar, sem hafa verið í stjórnarandstöðu í nokkuð mörg ár, eru farnir að ókyrrast í sætunum. Enda er það svo að þessi pólitíski stöðugleiki hefur skilað okkur einum mesta árangri í vestrænum löndum sem um getur. Hvert sem við lítum þá fullyrði ég að hvergi hafa skuldir ríkis, einnar þjóðar, lækkað eins mikið og á umræddu tímabili. Hvergi hefur kaupmáttur almennings aukist eins mikið og raun ber vitni. Það er því mjög eðlilegt að stjórnarandstaðan eigi erfitt með að fóta sig í þeirri umræðu sem hér fer fram vegna þess að við höfum náð mjög góðum árangri á sviði efnahagsmálanna.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína miklu lengri. Aðalatriðið er að við erum að afgreiða mjög ábyrg fjáraukalög fyrir árið 2006. (Gripið fram í.) Við erum að afgreiða hér við 2. umr. tillögur ríkisstjórnarinnar sem munu styrkja heilbrigðiskerfið sérstaklega. Það er mjög mikilvægt því að mikil aukning á útgjöldum hefur átt sér stað þar. Að sjálfsögðu getum við kennt einhverju launaskriði þar um, það er eðlilegt, en við erum líka að ná miklum árangri í heilbrigðisþjónustunni. Við erum með eina bestu heilbrigðisþjónustu í heiminum og langlífi Íslendinga er sem betur fer á réttri leið. Við erum að ná einum besta árangri í heiminum á þessu sviði og því er eðlilegt að kostnaður aukist að sama skapi.

Ég bið hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, eftir fund með forustumönnum Landspítalans, að taka tillit til þeirra óska að Landspítalinn m.a., sem og önnur fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu, aðrar stofnanir, geti brugðist við breyttum aðstæðum og geti verið sveigjanleg í rekstri. Því hefur verið kallað eftir því hér að við skoðum sérstaklega lög um starfsmenn hins opinbera. Það er mjög umdeilt mál. En ég hvet þingmenn til þess að fara út í þá umræðu með fordómalausum hætti, því það er mjög mikilvægt að við förum vel með þá peninga sem renna í heilbrigðiskerfið.

Að þessu sögðu vil ég þakka hv. nefndarmönnum í fjárlaganefnd fyrir mjög gott samstarf. Við höfum náð mikilli samstöðu í nefndinni, m.a. um það hverja við höfum kallað til, og kannski þess vegna ákváðum við að fresta heilbrigðismálunum fram í 3. umr. til frekari afgreiðslu í nefndinni. En samstarfið hefur heilt yfir verið mjög gott þó að sjálfsögðu greini okkur á í einstökum málum eins og eðlilegt er.