133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:54]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson fer vítt um og kemur síst að málefninu. Eitt vil ég þó spyrja hv. þingmann um.

Síðasta föstudag var á örfáum mínútum afgreitt í fjáraukalagaumræðu 5 milljarða kr. hækkun, heimild fyrir ríkisábyrgð á lántöku Landsvirkjunar vegna uppgjörs ófyrirséðs kostnaðar aðalverktaka Kárahnjúkavirkjunar. Aftur kemur Kárahnjúkavirkjun og henni er þá laumað inn. Um kostnað við hana er umræðan nánast engin. Ég spurði: Hvað er verið að tala um? Hvaða gögn eru á bak við að veita 5 milljarða kr. í aukna heimild til að greiða viðaukakostnað við Kárahnjúkavirkjun? Engar upplýsingar, bara trúarbrögð. Auðvitað er stóriðjustefna Framsóknarflokksins ljós. Ég veit það. Virkjanir alls staðar og álver alls staðar. Álver í hvern fjörð, þau orð voru einhvern tímann lögð í munn hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra.

En rökin fyrir þessum 5 milljörðum kr. Getur hv. þingmaður svarað: Er þetta nóg? Er þetta nóg fyrir Landsvirkjun vegna Kárahnjúkavirkjunar?