133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:04]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þetta svar. Það er alveg ljóst að í skýrslu Ríkisendurskoðunar varðandi stöðu hjúkrunarheimila kemur fram sú vangavelta hvers vegna ekki hafi verið gerðir sérstakir samningar við þá sem reka hjúkrunarheimili. Það kemur fram hjá Ríkisendurskoðun að það er talið munu vera dýrara fyrir ríkið að gera samninga við einstakar hjúkrunarstofnanir en ekki. Það er vont mál.

Ég tel eðlilegt að heilbrigðisráðuneytið geri samning við þá aðila sem reka hjúkrunarheimili fyrir aldraða til þess að það komi alveg skýrt fram hvaða þjónustu eigi að veita svo að það gerist ekki eins og menn hafa orðið varir við að þjónustan er mismunandi, jafnvel aðilar í einkageiranum sem hafa eiginlega gert viðskiptasamning hafa ekki einu sinni staðið við gerða samninga.

Fyrst og fremst er nauðsynlegt að daggjaldagrunnur hjúkrunarheimila sé (Forseti hringir.) sýnilegur og þess eðlis að hann sé ekki sífellt vandamál sem bankar upp á ár eftir ár.