133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:07]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að setja hlutina í ákveðið samhengi og þó að við séum að ræða hér um fjáraukalög ársins 2006 verðum við líka að horfa til þeirra fjárlaga sem eru fram undan á næsta ári. Þar munu barnabætur hækka um 25% sem munu sérstaklega skila sér til lágtekju- og millitekjufólks, skattleysismörk munu hækka um 14%, fara upp í 90 þús. kr., og grunnlífeyrir mun hækka um 15 þús. kr. sem kemur sérstaklega til góða eldri borgurum og öryrkjum.

Ég ætla hins vegar ekkert að draga úr því að það má betur gera í málefnum eldri borgara og öryrkja og við erum sífellt að vinna í þeim málefnum. Ég vil benda á það að á kjördæmisþingi framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi sem haldið var fyrir nokkru síðan var afgreidd stjórnmálaályktun sem kvað á um það að aðaláherslan yrði sett á að stórhækka skattleysismörkin í framtíðinni því að það er mjög mikilvægt að koma til móts við þessa hópa.