133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:08]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega fagnaðarefni að Framsóknarflokkurinn sé að ranka við sér, en það sem verra er er það að hann hefur haft nærri 12 ár til að gera eitthvað í þessum málum. Yfir þetta 12 ára tímabil hefur staða þessara hópa versnað svo um munar og misskiptingin í þessu landi er orðin svo veruleg að venjulegu fólki blöskrar.

Þess vegna er ekki boðlegt að Framsóknarflokkurinn og fulltrúar hans á hv. Alþingi komi hér upp alltaf haustið fyrir kosningar og haldi þessar ræður um það hversu mikilvægt sé að gera betur við ákveðna hópa með samúðarfullum svip. Það eru aðgerðir sem skipta máli, en ekki bara talað orð í næstum því 12 ár. Við hljótum að krefjast þess að fara að sjá einhverjar raunverulegar aðgerðir. Miðað við yfirlýsingar hv. þingmanns geri ég ráð fyrir því að á milli 2. og 3. umr. sjáum við sennilega einhverjar leiðréttingar (Forseti hringir.) til þessara hópa í þeim frumvörpum sem til umræðu eru.