133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[16:02]
Hlusta

Björn Ingi Hrafnsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vildi svo til að ég hlýddi á ræðu hv. þingmanns og tel mig hafa tekið ágætlega eftir. Hún var efnislega samhljóða mörgu af því sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur sagt í framsögu minni hluta fjárlaganefndar á síðustu árum. Ég þekki það ágætlega vegna þess að ég starfaði hér sem þingfréttamaður og man vel eftir þeirri miklu áherslu sem hann lagði á þetta mál. Ég tel að þetta sé í rauninni einkenni á formalisma og engu öðru.

Það sem ég nefndi í ræðu minni var að í einni og sömu ræðunni eru þingmenn Samfylkingarinnar annars vegar að tala fyrir auknum ríkisútgjöldum og hins vegar að aðhalds sé gætt. Það er dæmigert fyrir málflutning Samfylkingarinnar, í fyrsta lagi að koma ekki með breytingartillögur í 2. umr. í málinu, sem er þó aðalumræðan bæði þegar rædd eru fjárlög og fjáraukalög.

Í öðru lagi er megináherslan alltaf lögð á formsatriði. Samfylkingin er hvorki með eða á móti tilteknum málum og hún hefði viljað fara aðra leið. Aðferðafræðin er ekki rétt, formið er ekki rétt, ekki rétt staðið að ákvörðuninni, en það er aldrei hægt að fá það upp úr Samfylkingunni hvort hún er með tilteknu máli eða á móti. Þess vegna tekst þingmönnum Samfylkingarinnar í einu og sama málinu að tala fyrir auknum ríkisútgjöldum en gagnrýna þau um leið.