133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[16:03]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar maður situr í virðulegri nefnd eins og fjárlaganefnd skyldi maður ætla að slík nefnd fari að fjárreiðulögum. Þess vegna þurfum við að ræða það og það er það sem við erum að ræða hér undir þessum lið, um fjáraukalög.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kallar eftir breytingartillögum frá Samfylkingunni. Ég get eiginlega ekki orða bundist yfir þeirri kröfu hv. þingmanns (Gripið fram í.) vegna þess að þau fjárlög sem núna liggja fyrir eru fjárlög ríkisstjórnarinnar. Þetta eru ekki fjárlög Samfylkingarinnar. (Gripið fram í.) Fjárlög Samfylkingarinnar hefðu frá upphafi litið allt öðruvísi út. Samfylkingin hefur (Gripið fram í.) aldrei komið með breytingartillögur við fjáraukalagafrumvarp vegna þess að þessi fjáraukalög eru viðbót ríkisstjórnarinnar við sitt eigið fjárlagafrumvarp. Það er frumvarp sem við hefðum frá grunni gert og haft með allt öðrum hætti en staðreyndin er í dag. En það er fráleitt að krefjast þess að við förum að elta uppi tillögur ríkisstjórnarinnar, eina og eina og segja hvort við séum þeim meðmælt eða mótmælt þegar við erum á heildina litið ekki hlynnt stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum eða við stjórn ríkisfjármála og þá hvorki útgjöldum né tekjum í einu og öllu. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Við skulum horfa á afleiðingar efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Hverjar eru afleiðingarnar? Þær eru að við búum (Gripið fram í.) við hæstu verðbólgu (Gripið fram í.) sem við höfum séð árum saman. Við erum með hæstu vexti í heimi, (Gripið fram í.) við erum með viðskiptahalla sem hefur aldrei verið svona hár og er sá hæsti innan OECD-ríkjanna og það væri forvitnilegt að sjá hvort það er ekki heimsmet líka. Ríkisstjórnin er því að slá hvert heimsmetið á fætur öðru í mistökum við stjórn efnahagsmála. (Gripið fram í.)