133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[16:58]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það má vel vera að framsóknarmönnum þyki hæfa að gefa ræðumanni einhverja einkunn. Það er eins og gert er á málfundum. Ég veit að menn gefa einkunnir á málfundum í hinum ýmsu framsóknarfélögum.

Það er alveg ljóst að það er pólitískur ágreiningur á milli Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Framsóknarflokksins í efnahagsmálum. Það hefur legið fyrir í mörg ár. Ég þarf hins vegar ekkert að vitna til eigin orða þegar verið er að tala um mikið ójafnvægi í hagkerfinu og að það sé berskjaldað fyrir ytri áföllum. Það er búið að leggja áherslu á þetta undanfarin ár.

Ég vakti athygli hv. þingmanns á skuldastöðu þjóðarbúsins. Finnst hv. þingmanni hún allt í lagi? Það er þá meira. Ég get lesið hér aftur texta bæði núverandi seðlabankastjóra og fyrrverandi seðlabankastjóra, ég get lesið hér aftur texta alþjóðlega matsfyrirtækisins, sem allir vöruðu við því mikla ójafnvægi sem væri í íslensku efnahagslífi, vöruðu við því hversu tæpt það gæti staðið fyrir ytri áföllum. Það er því miður kannski sérstaklega Framsóknarflokkurinn sem ekki viðurkennir þetta eða sér og stingur höfðinu í sandinn hvað það varðar.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um afstöðu til íslensku bankanna þá vöruðum við við einkavæðingu bankanna á sínum tíma og að verið væri að afhenda eignir ríkisins með óeðlilegum hætti. Það er alveg rétt. Við vildum einn sterkan þjóðarbanka. Ég held að það kæmi kannski Framsóknarflokknum síst að fara að rifja það upp með hvaða hætti Búnaðarbankinn var afhentur S-hópnum á sínum tíma.

Hins vegar krefjumst við þess að (Forseti hringir.) bankamenn sem aðrir axli með eðlilegum hætti samfélagslega ábyrgð í (Forseti hringir.) þjóðfélaginu. Ég vona að bankamenn geri það líka.