133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:05]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt að tilgangur þessa snarpa og skemmtilega umræðuforms í þinginu væri að þingmenn gætu skipst á skoðunum og svarað spurningum hver annars. Hv. þm. Jón Bjarnason leyfir sér í tvígang að koma upp í ræðupúlt Alþingis án þess að svara spurningum hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar.

Hæstv. forseti. Við erum við 2. umr. um fjáraukalög ársins 2006, aðalumræðu þessara fjáraukalaga. Hér hefur engin tillaga komið fram frá stjórnarandstöðunni við fjáraukalagafrumvarpið. Það er algert ábyrgðarleysi hvernig stjórnarandstaðan umgengst fjáraukalög ársins 2006. Ef við setjum þetta í ákveðið samhengi þá er það rétt sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hefur sagt hér og ég vorkenni öðrum stjórnarandstöðuflokkum að þurfa að eiga samneyti við þingflokk Vinstri grænna. Sá flokkur er á móti og hefur verið á móti nær öllum framförum í íslensku samfélagi á síðustu árum.

Þeir hafa verið á móti markaðsvæðingu bankanna. Þeir hafa verið á móti stóriðjustefnunni og öflugri uppbyggingu á Austurlandi. Þeir hafa verið á móti sjávarútvegsstefnunni. En hvað segja alþjóðleg matsfyrirtæki um þann árangur sem íslensk stjórnvöld hafa náð á umliðnum árum? Jú, þau rekja árangurinn til þessara þriggja atriða. Vinstri grænir hafa verið á móti þessu öllu. Þeir koma svo upp með ábyrgðarlaust tal um að auka eigi framlög til menntamála, heilbrigðismála og félagsmála en leggja ekki fram neina trúverðuga stefnu í atvinnumálum. Þau ummæli sem höfð voru eftir hv. þm. Ögmundi Jónassyni um íslensku bankana um daginn eru óábyrg, rétt eins og ummæli margra Vinstri grænna um Kárahnjúkavirkjun, sem kölluðu á hundruð milljarða kr. í skaðabætur. Þessi flokkur er mjög óábyrgur í sínu tali.