133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:07]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi, varðandi bankana, er óeðlilegt að menn draga inn ummæli eða eitthvað sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur skrifað á heimasíðu sinni og hefur ekki síðan þá getað rætt það í þinginu. En það er ljóst sem kemur fram í hans máli og ég skal líka árétta það, að það er af og frá að við viljum að bankarnir fari úr landi. Síður en svo. Við viljum efla þessar stofnanir. En þær verða líka að vinna á heilbrigðum grundvelli alveg eins og aðrar stofnanir. Það skal bara vera alveg klárt. Vöxtur íslensks fjármálakerfis og tekjumöguleikar af því eru í sjálfu sér gott mál.

Varðandi hitt atriðið hjá hv. þingmanni þá virði ég það að hann er nýr í starfi sem formaður fjárlaganefndar. En ég að tel mikilvægt að hann átti sig á því hvert er almennt hlutverk fjáraukalaga. Ég hef lagt fram tillögur um að fjáraukalagafrumvarp verði unnið oftar á árinu þannig að Alþingi samþykki útgjöldin áður en þau eru reidd af hendi. Með þessu frumvarpi er Alþingi að samþykkja það sem búið er að ákveða og greiða út nú þegar. Hefur hv. þingmaður gert sér grein fyrir því? (BJJ: Já.) Já, það er gott. Það er hlutverk fjáraukalaga sem slíkra.

Hins vegar vinnum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eins og aðrir í minni hlutanum. Við viljum vinna ábyrg fjárlög, sem skortir mikið á hjá meiri hlutanum og þar með töldum hv. þm. Birki J. Jónssyni, því að fjárlögin voru á þeirra ábyrgð. Það er miður. En það er samt ekki afsökun fyrir því að hv. þingmaður átti sig ekki á því til hvers (Forseti hringir.) fjáraukalög eru.