133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:09]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að fræða mig um í hverju fjáraukalög ársins 2006 eru fólgin. Hins vegar er mjög athyglisvert að stjórnarandstaðan hefur engar tillögur lagt fram til úrbóta á stöðu einstakra stofnana á árinu 2006. Ætla hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að sannfæra mig eða almenning í landinu um að málum sé þannig fyrir komið að ýmis óhjákvæmileg atvik á árinu hafi leitt til þess að við þurfum að bregðast við stöðu einstakra stofnana? Heldur hv. stjórnarandstaða að hún geti komið fram og gagnrýnt og gagnrýnt, með yfirboð í öllum málaflokkum, án þess að setja neitt niður á blað um málið? Það er svo óábyrgt sem mest getur verið.

Ég held að við verðum að fagna þeirri yfirlýsingu hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að hann vilji efla íslenskt fjármálalíf, fjármálakerfi og bankana. Öðruvísi mér áður brá. Hvað lagði ríkisstjórnin til á sínum tíma til þess að bæta starfsumhverfi þessara fyrirtækja? Jú, að lækka tekjuskatt þessara fyrirtækja. Vinstri grænir voru algerlega á móti því og trúlega væri málum þannig komið að þessi fyrirtæki væru farin úr landi, eins og mér finnst stundum skína í gegn hjá hv. þingmönnum þess flokks að þeim fyndist allt eins gott, að þessir stóru bankar borguðu ekki tugi milljarða inn í íslenskt samfélag og hagkerfi.

Ég minni á, hæstv. forseti, að við erum að afgreiða fjárlög ársins 2005 og 2006 með 160 milljarða í afgang. Íslenskur ríkissjóður er að verða nær skuldlaus og þannig getum við bætt hag almennings í landinu. Við getum stutt við mennta-, heilbrigðis- og félagsstofnanir í samfélaginu. Það gerum við ekki nema við fáum innkomu í ríkissjóð og auknar tekjur en Vinstri grænir hafa engar tillögur í því samhengi.