133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:14]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér fjáraukalögin og mér fannst rétt áðan koma fram ákaflega merkileg yfirlýsing frá formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, því hann sagði eitthvað á þá leið að hann saknaði — eða ég gat ekki skilið það öðruvísi — tillagna frá stjórnarandstöðunni (Gripið fram í.) sem væri hægt að taka til efnislegrar afgreiðslu og taka afstöðu til. Ég held ég vilji í upphafi máls míns, hæstv. forseti, beina einni spurningu til hv. þingmanns, formanns fjárlaganefndar, sem hann getur þá svarað á eftir. Hún er þessi: Stendur til að samþykkja eitthvað sem við í stjórnarandstöðu leggjum fram við afgreiðslu fjárlaga? Stendur það til? Hefur orðið stefnubreyting í meiri hluta fjárlaganefndar, ríkisstjórnarmeirihlutanum, að því er varðar afgreiðslu fjárlaga?

Ég segi þetta að gefnu tilefni, hæstv. forseti, vegna þess að reynslan á undanförnum árum er sú að tillögur stjórnarandstöðunnar til breytinga á fjárlögum — og skal ég fara betur yfir það í ræðu minni á eftir um einstök atriði — hafa varla þótt svaraverðar af forustumönnum í fjárlaganefnd, formönnum fjárlaganefndar, hingað til. Ég vona að orðin sé breyting með nýjum formanni að því er þetta varðar og fagna því að hann skuli sakna þess að við skulum ekki hafa komið fram með tillögur í fjáraukanum.

Kannski er rétt að rekja það, hæstv. forseti, að það kann nú að vera vegna þess að stjórnarandstaðan á undaförnum árum hefur lagt sig fram um að vera með breytingartillögurnar í fjárlögunum sjálfum við afgreiðslu fjárlaga hvers árs og lagt til breytingar til að reyna að ná þar fram lagfæringum. Yfir það hefur svolítið verið farið í umræðunni og ég mun að sjálfsögðu gera það á eftir, hæstv. forseti, að víkja að atriðum í þá veru.

Hæstv. forseti. Það er nokkurn veginn orðin viðtekin venja við afgreiðslu á fjáraukalögum að taka ýmis útgjöld inn í fjáraukalögin sem eftir góðri stjórnsýslu ættu að vera í fjárlögum næsta árs, vegna þess að margt sem nú er tekið inn í fjáraukann var fyrirsjáanlegt við afgreiðslu fjárlaga þessa árs í desember síðastliðnum. Eins og venja er hjá ríkisstjórninni og ég gat um áðan hefur það verið vinnuregla síðustu 15 ár, a.m.k. af þeim sem ég hef fylgst nokkuð vel með í pólitík þó að ég hafi ekki verið á þingi allan þann tíma, að fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins, sem flutt hafa tillögur ríkisstjórnarinnar, hafa nánast gefið út um það dagskipun að tillögur stjórnarandstöðunnar skyldu felldar og þannig hefur reyndin verið. Ég held að orða megi þetta þannig, hæstv. forseti, að algjört ráðherraræði sé varðandi afgreiðslu fjárlaga. Það eru ákaflega fáar tillögur sem mig rekur minni til að stjórnarandstaðan hafi komið hér í gegn af þeim tillögum sem hún hefur flutt inn í þingsali, hvort sem það hafa verið flokkar stjórnarandstöðunnar sameiginlega eða einstakir stjórnarandstöðuflokkar.

Við í stjórnarandstöðunni bentum á marga þætti fjárlaga fyrir þetta ár, árið 2006, við afgreiðslu þeirra sem ekki gætu dugað til þess rekstrar sem vilji var til að veita af hendi ríkisins, þ.e. þess rekstrar sem landsmenn vænta og ríkið vildi veita og reyndar var að stefnt, bæði með orðum hæstv. fjármálaráðherra þegar mælt var fyrir fjárlögunum og eins í samþykktum fjárlögum ársins.

Í nefndaráliti 2. minni hluta segir svo, með leyfi forseta, um lausung í umgengni við fjárreiður ríkisins, og leyfi ég mér að vitna í nefndarálitið:

„Í fjáraukalögum fyrir árið 2006 birtist enn og aftur sú lausung sem ríkisstjórnin hefur tamið sér í umgengni við lög um fjárreiður ríkisins. Lögð eru til útgjöld sem ekki eiga heima í fjáraukalögum samkvæmt fjárreiðulögum. Í lögum um fjárreiður ríkisins er skýrt kveðið á um tilgang fjáraukalaga. Þar segir í 44. gr.: „Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.“ Í frumvarpinu nú eru fjölmargir liðir sem alls ekki falla undir þessa grein fjárreiðulaganna og ættu betur heima í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007 sem nú liggur fyrir Alþingi. Því miður er það svo að í fjáraukalagafrumvörpum undangenginna ára og nú í ár eru verkefni sem ekki ættu að vera þar. Sem dæmi má nefna að í nokkrum tilfellum er verið að bæta uppsafnaðan rekstrarvanda hjá stofnunum ríkisins sem með réttu ættu að koma inn á fjárlög næsta árs ef rétt væri að málum staðið. Er það afar tilviljanakennt hvaða stofnanir fá slíkar leiðréttingar á fjáraukalögum á hverjum tíma. Þetta vinnulag verður að laga svo að það sama gildi fyrir allar stofnanir ríkisins og einnig svo að hægt sé að taka heildstætt á málum stofnana sem búa við viðvarandi rekstrarvanda. Fulltrúar stjórnarflokkanna í fjárlaganefnd hafa samþykkt þessar tillögur ríkisstjórnarinnar inn til 2. umr. sem sýnir að enn ætla þeir að samþykkja þessi slælegu vinnubrögð og þessa kæruleysislegu umgengni við lög um fjárreiður ríkisins. 2. minni hluti gagnrýnir þessi vinnubrögð harðlega eins og undangengin ár.“

Þetta var tilvitnun í nefndarálit stjórnarandstöðunnar við 2. umr. um fjáraukalögin.

Hæstv. forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að ég skyldi taka nokkur dæmi um mál sem við hefðum flutt um ákveðnar tillögur, t.d. fyrir þetta fjárlagaár. Vona ég að hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem hér hafa spurt um ákveðnar tillögur frá stjórnarandstöðunni átti sig á því að þær hafa verið fluttar.

Í fyrsta lagi vil ég minna á að við fjárlögin á síðasta hausti, í desember, flutti stjórnarandstaðan tillögu um að veita þyrfti 100 millj. kr. í viðbót til að tryggja eðlilegan rekstur Háskólans á Akureyri fyrir þetta rekstrarár. Sú tillaga var felld af stjórnarþingmönnum og nánast hent gaman að og jafnvel gert grín að tillögu okkar í stjórnarandstöðunni að því er varðaði vanda Háskólans á Akureyri.

Hvað gerðist svo núna í fjáraukanum, hæstv. forseti? Og taktu nú vel eftir, hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson. Núna leggur fjárlaganefndarmeirihlutinn til 60 millj. kr. til að taka á sama vanda og stjórnarandstaðan benti á við afgreiðslu fjárlaga á síðasta hausti, og dugar þó varla til í fjáraukanum, hv. þingmaður. Menn munu örugglega þurfa að taka á hluta af þeim vanda sem út af stendur í fjárlögum næsta árs og vonandi verður það gert, hv. þingmaður, vegna þess að þannig á að vinna fjárlögin. Við eigum ekki að skilja eftir mál sem við vitum að þarf að leysa og rekstrarvandi í stofnunum er ekki leystur nema með tvenns konar hætti. Annaðhvort fá þær aukin fjárframlög til rekstrar síns eða að skera þarf niður og draga úr þjónustunni. Ég hygg því miður að Háskólinn á Akureyri sé þegar farinn að draga úr þjónustu sinni miðað við það sem eðlilegt gæti talist og horfði til framtíðar og uppbyggingar þess skóla.

Ég spyr þess vegna tvo hv. þingmenn úr Framsóknarflokknum, hv. formann fjárlaganefndar, Birki Jón Jónsson, (Gripið fram í: Einn sjötta af þingflokknum.) já, og Guðjón Ólaf Jónsson sem hér eru staddir (Gripið fram í: Kannski allur …) hvort það væri ekki ráð að þeir litu bara í spegil og gerðu grín að sjálfum sér vegna tillagna og afgreiðslu á síðasta þingi þegar verið var að tala um Háskólann á Akureyri. Þeir geta alla vega ekki gert grín að stjórnarandstöðunni. Við fluttum tillögu um þennan vanda og vildum gjarnan taka á honum en stjórnarliðar felldu hana allir sem einn. Svo tala menn um óábyrga stjórnarandstöðu.

Á ég að taka eitt annað atriði fyrir ykkur, hv. þingmenn? (Gripið fram í.) Skoðum framhaldsskólana. Stjórnarandstaðan lagði til á síðasta hausti að framhaldsskólar fengju viðbótarfjárveitingu upp á 250 millj. kr. Þá tillögu felldi ríkisstjórnarmeirihlutinn.

Hvað gerist svo núna í fjáraukanum, hæstv. forseti? Nú leggur stjórnarmeirihlutinn til hækkun í fjáraukalögunum upp á nákvæmlega sömu upphæð, hæstv. forseti, 250 milljónir. Tillaga menntamálaráðuneytisins var 240 milljónir og meiri hlutinn í fjárlaganefnd hafði vit á að hækka hana um 10 milljónir, vegna þess að auðvitað sá hann að tillaga okkar frá síðasta hausti var rétt og dugar varla til miðað við breytingar sem orðið hafa á milli ára.

Það liggur því fyrir, hæstv. forseti, að vanáætlað var á síðasta hausti vegna framhaldsskólanna.

Í nefndaráliti okkar lýsum við undrun okkar á þessum síendurteknu vanáætlunum ríkisstjórnarinnar. Einnig má benda á, hæstv. forseti, að menntamálaráðuneytið virðist vanáætla nemendafjölda í framhaldsskólum. Ráðuneytið hlýtur því að byggja á einhverjum röngum upplýsingum þegar svona tillögur koma fram, ekki í fyrsta sinn en fer vonandi væntanlega að verða í síðasta sinn.

Ég segi því enn og aftur, hæstv. forseti, ég held að stjórnarliðar ættu að fara og horfa í spegil og gera grín að sjálfum sér, horfa á hvernig þeir afgreiddu tillögur stjórnarandstöðunnar í desember síðastliðnum en eru svo að koma með þær inn í fjáraukann á þessu ári til að fá þær afgreiddar og koma svo hér æðandi upp í pontu til að tala um hvað stjórnarandstaðan sé óábyrg. Hvílíkt tal. Ég tek undir orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar fyrr í dag, þetta er eins og málfundur í Framsóknarflokknum. (Gripið fram í: Hefurðu setið marga fundi þar?) Ég hef setið fundi þar, já, fyrir mörgum árum, málfund já. Það vill svo til, hv. þingmaður. Sú kennslustund dugði mér.

Hæstv. forseti. Nú er í fjárauka verið í lok ársins að skuldsetja ríkissjóð með lántöku og ábyrgðum fyrir yfir 100 milljarða kr. Ef nauðsyn ber til að afgreiða 87 milljarða kr. lántöku með hraði handa Seðlabankanum í fjáraukalögum vaknar sú spurning hvort sú staða sem nú á að bregðast við með þeim hætti hafi ekki verið fyrirséð og hvort ástandið sé svo ótryggt að slík stórmál megi ekki bíða fjárlaga sem væntanlega verða afgreidd héðan innan eins mánaðar fyrir næsta ár, hæstv. forseti. Það er von að við spyrjum því að þetta erindi kom tiltölulega óvænt til fjárlaganefndar þó að vel kunni að vera að ríkisstjórnin hafi verið búin að tala um þetta vandamál í einhvern tíma innan sinna raða. Það virðist samt vera svo að nauðsynlegt sé að afgreiða þetta í fjáraukalögum. Ekki er nú fyrirhyggjan mikil, hæstv. forseti.

Samningurinn um kaup ríkisins á Landsvirkjun hefur ekki borist inn í þingsali eða inn í fjárlaganefnd, sem ætti þó að vera forsenda þess að við værum yfirleitt að tala um heimild til þess að fjármagna kaup eins og gert er ráð fyrir í tillögum meiri hluta. Við ættum í raun og veru að vera búin að taka afstöðu til þess og meiri hlutinn að vera búinn að afgreiða tillöguna eða samninginn þannig að fyrir lægi að kominn væri á samþykktur samningur um kaup ríkisins á Landsvirkjun, því að við eigum að afgreiða fjárlög með tilliti til þeirra forsendna sem fyrir eru en ekki öfugt, það á ekki að byrja á að afgreiða stofnunina en tala svo síðar um samninginn sem á að afgreiða út frá. Þetta er ekki í lagi og ég veit ekki hvað hæstv. forseti vill gera í því þegar eðlilegum reglum í meðferð þingmála við afgreiðslu fjárlaganna er ekki fylgt.

Hæstv. forseti. Það er svo kannski önnur ella, eins og sagt er, hvort þau kaup sem hér eru að fara fram á Rarik og Orkubúi Vestfjarða og að þau verði síðan sameinuð Landsvirkjun verði til að efla þau markmið sem sett voru í raforkulögum um að efla samkeppni á raforkumarkaði. Það hefur mikið verið rætt um raforkulögin, hvað þeim fylgdi á sínum tíma og hvernig þau hafa komið út. Ég leyfi mér að segja að það hafi ekki verið til hagsbóta fyrir marga landsmenn heldur til kostnaðarauka fyrir marga og þar hefur, að því er ég best veit, hæstv. forseti, verið vegið mjög að hinum dreifðu byggðum. Þetta er algerlega í andstöðu við þá stefnu sem við höfum samþykkt í byggðamálum þar sem við höfum alltaf viljað efla landsbyggðina, standa vörð um að landsbyggðin héldi velli og fólk byggi þar við sömu kjör eða svipuð kjör og annars staðar á landinu.

Ég hef miklar efasemdir um það sem nú er verið að gera varðandi Rarik og Orkubú Vestfjarða í sameiningu við Landsvirkjun, hæstv. forseti, að samkeppni í raforkusölu aukist með þessum ráðstöfunum, ég leyfi mér að efast um það. En það er kannski ekki mál sem við tökum langa umræðu um við afgreiðslu fjáraukalaganna. En markmiðið var að auka samkeppni á raforkumarkaði og ég minnist þess að í svörum Valgerðar Sverrisdóttur, þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, var greint frá því að kostnaður vegna raforkulaganna og annarra atriða sem þar fylgdu yrði í mesta lagi 1–2,5% að því er hefði áhrif á verðmyndun á raforkumarkaði. En þessu geta menn auðvitað flett upp í þingtíðindum og skoðað hvort ekki er rétt með farið af minni hendi.

Ég er reyndar með nokkrar útskriftir af ræðum hæstv. ráðherra Valgerðar Sverrisdóttur og get upplýst þetta beint, hæstv. forseti. Í ræðu sem flutt var á 62. fundi 27. janúar 2005 stendur, með leyfi forseta:

„Fyrst vitnað var í orð orkumálastjóra, að hann hafi talað um að hækkunin yrði 1%–2,5%, þá hefur hann að öllum líkindum verið að tala um þá hækkun sem gæti orðið vegna kerfisbreytingarinnar að jafnaði.“

Það er þá hér með upplýst og þarf ekki að rífast mikið um það á eftir, hæstv. forseti.

Nú er það svo að raforkuverð hér á landi eða raforkusala er að mestu leyti háð því að langmest er selt til álfyrirtækja. Yfir 80% af raforkunni fer til álfyrirtækja núna eða á næstunni. Álverðið myndar þann grunn sem gefur okkur raforkuverðið inn í álsamninga, heimsmarkaðsverð á áli, þannig að við höfum svo sem ekki tryggingu fyrir því að álverðið haldist í þeim hæðum sem það er í dag og þar af leiðandi raforkuverð fyrir raforku sem við teljum til áliðnaðarins. Það hefur löngum verið sagt að þó að menn vilji gjarnan fjárfesta í atvinnuvegum þá sé kannski ekki skynsamlegt að setja öll eggin í sömu körfu og það held ég að eigi alveg jafnt við í þessu eins og öðru, hæstv. forseti.

Það er oft fróðlegt að líta yfir farinn veg við afgreiðslu fjáraukalaga og ég kíkti í þær upplýsingar sem lágu fyrir um afgreiðslu fjáraukalaga við 2. umr. á undanförnum árum. Þá kom í ljós, eftir því sem ég komst næst, að við 2. umr. fjárlaganna 2004 fórum við 3,4% fram úr fjárlögum þess árs. Við 2. umr. fjáraukalaga 2005 stefndum við í 6,4% viðbót við fjárlög þess árs. Eins og fjáraukinn lítur út núna, en eins og komið hefur fram í ræðum fjárlaganefndar á eftir að fjalla um heilbrigðiskerfið að hluta til og öldrunarstofnanir og væntanlega eiga eftir að koma inn einhverjar hækkanir á milli 2. og 3. umr., þá stefnir í 6% umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs.

Ég hef rakið í a.m.k. tveimur dæmum að við í stjórnarandstöðunni töldum að það lægju fyrir upplýsingar um kostnað sem eðlilegt væri að taka inn í fjárlögin og fjárlagaafgreiðslu þessa árs en ekki láta þann kostnað fara yfir í fjáraukalögin eins og reyndin hefur verið orðin á og eins og ég hef vikið að í máli mínu t.d. varðandi framhaldsskóla og Háskólann á Akureyri. Það má taka fleiri dæmi og reyndar hafa fleiri dæmi verið tekin í dag. Ég held að það hafi verið hv. þm. Jón Bjarnason sem vék að fleiri atriðum í þá veru varðandi tillögur sem við fluttum á síðastliðnu hausti við fjárlögin sem við erum núna að fjalla um í fjáraukanum. Það liggur því fyrir, hæstv. forseti, að þetta á sjálfsagt eftir að hækka eitthvað með tilliti til þess að hvorki heilbrigðismálin né öldrunarmálin eru fullkláruð hér.

Almennt er stefnt að því, miðað við það vinnulag sem menn hafa reynt að setja sér og miðað við úttektir Ríkisendurskoðunar á fjárlögum ársins, að halda sér innan 4% skekkjumarka í stofnunum og ráðuneytum á rekstrargrunni varðandi eyðslu eða þá að menn eigi eftir fjármuni sem séu á því bili. Það er sú stýring sem menn vilja a.m.k. reyna að halda sig inni á þannig að fjáraukalögin eru ekki innan þeirra viðmiðunarmarka, innan þeirrar tölu sem ég hef hér rakið. Það er auðvitað umhugsunarefni, hæstv. forseti, að við skulum ekki reyna að setja okkur þau mörk og þá komum við kannski að því að víkja að fjárlagagerð næsta árs eða reyna þó a.m.k. að halda okkur innan þess að breytileikinn í fjáraukalögunum sé ekki umfram 4% sem er sú vinnuregla sem menn hafa verið að reyna að miða við. En til þess þurfum við að vanda betur verkin, hæstv. forseti, og við þurfum að taka raunverulega á þeim dæmum sem við sjáum að út af standa, fara yfir hvað það er og reyna að lagfæra fjárveitingar í þá veru sem við teljum skynsamlegt eða að stjórnvöld verða að beita tillögum til að stofnanir og ráðuneyti skeri eitthvað niður til að reyna að halda sig innan fjárlagarammans.

Það hlýtur að vera hlutverk okkar, hæstv. forseti, að reyna eins og við höfum þekkingu til að halda okkur innan fyrirmæla fjárreiðulaganna og bæta fjárlagagerðina. Ég tel að fjárlaganefndin verði að ganga á undan með góðu fordæmi í því að leitast við að lagfæra fjárlagagerðina og draga úr því sem við sjáum að ekki muni standast til næsta árs og muni þá einfaldlega lenda inni í fjáraukalögunum eins og reyndin hefur verið og hefur verið vakið máls á í dag, hæstv. forseti.

Ef við skoðum tillögur sem eru í fjáraukanum þá er ýmislegt þar sem vekur nokkra furðu og er ástæða til að vekja athygli á. Við getum t.d. litið á landbúnaðarráðuneytið þar sem koma breytingar núna í fjáraukanum upp á 550 millj. kr., hæstv. forseti, á tiltölulega fáum liðum í landbúnaðarráðuneytinu. Á Veiðimálastofnun, sem reyndar flestallir töldu að hefði verið vitað að væri í rekstri sem ekki stæðist á þessu ári, er lögð til 60 millj. kr. viðbótarfjárveiting í fjáraukalögum. Ef þær tekjur sem Veiðimálastofnun hefur frá ríkinu eru skoðaðar þá eiga þær að vera upp á 51,4 millj. og viðbótin átti að vera sértekjur. Varðandi Veiðimálastofnun erum við því að leggja til 60 millj. núna sem er meira en 100% aukning, hæstv. forseti, nú í fjáraukanum.

Ef við skoðum Landbúnaðarstofnun þá er þar verið að auka við um 162 milljarða í fjáraukanum og mér sýnist að það sé eitthvað nálægt 30% aukning miðað við þær 520 millj. sem voru í fjárlagafrumvarpi. Síðan er bygging reiðhallar upp á 330 millj. en ég held að sá liður hafi í fjárlagafrumvarpinu verið tæpar 50 millj., 47 millj. ef ég man rétt, sú upphæð er þá sjöfölduð í fjáraukanum. Ég spyr mig, hæstv. forseti, hvort menn í landbúnaðarráðuneytinu hafi ekki haft neinar hugmyndir um hvert þeir vildu stefna í þessum málum og þess vegna komi þetta svona út að við séum að taka þetta inn í fjáraukann með þessum hætti.

Hæstv. forseti. Ég held að láti ég umfjöllun minni lokið að sinni — og þó. Ætli það sé ekki eitt atriði sem rétt væri að vekja athygli á. Það er ekki beinlínis í fjárlögum eða fjáraukalögum en fyrir þinginu liggur frumvarp sem varðar verulega fjármál heimilanna og er rétt að vekja hér athygli á. Það er frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum nr. 94/1996, um staðgreiðsluskatt, fjármagnstekjur o.s.frv. Í 4. gr. þess er lagt til að verði veruleg breyting á 65. gr. laganna og þar standi 18 ár í stað 16 ár. Hvaða áhrif hefur þetta á tekjur fólks og ráðstöfunartekjur á heimilum? Þá kem ég aftur að byggðastefnunni sem var samþykkt samhljóða á síðastliðnu vori af okkur þingmönnum með þeirri áherslu að efla menntun, sérstaklega á landsbyggðinni.

Í 4. gr. þess frumvarps segir, með leyfi forseta:

„Í 65. gr. tekjuskattslaga er að finna heimild til lækkunar á tekjuskattsstofni. Samkvæmt 4. tölul. 65. gr. skal skattstjóri taka til greina umsókn manns um lækkun á tekjuskattsstofni ef hann hefur haft veruleg útgjöld af menntun barna sinna 16 ára og eldri. Í samræmi við breytingu á aldursmarki barnabóta er hér lagt til að aldursmarki ívilnunar vegna menntunarkostnaðar barna verði breytt úr 16 árum í 18 ár.“

Hvað skyldi þetta þýða fyrir fjölskyldur á landsbyggðinni sem þurfa að kosta börn sín til menntunar? Hvaða áhrif skyldi þetta nú hafa?

Í afar merkilegri samantekt sem við þingmenn Norðvesturkjördæmis og menntamálaráðherra fengum varðandi kostnað fólks í Vesturbyggð við að senda börn sín í framhaldsskóla var sýnt fram á að kostnaður við að senda barn til framhaldsskólanáms af því svæði til Akureyrar væri 614 þúsund á ári, til Ísafjarðar 612 þúsund á ári, til Laugarvatns 400 þús. kr. á ári, til Reykjavíkur 1.068 þús. á ári. Þar inn í var húsaleiga ásamt ferðakostnaði en fyrst og fremst húsaleiga sem lyfti þeim kostnaði upp.

Á móti þessu hafa foreldrar á landsbyggðinni fengið vegna barna á framhaldsskólaaldri 92 þús. kr. á önn í kostnað, þ.e. um 180 þús. kr. á ári. Ég vek athygli á þessu, hæstv. forseti, vegna þess að mér finnst þessi tillaga ganga á skjön við stefnu okkar í byggðamálum. Við samþykktum samhljóða að efla menntun á landsbyggðinni. Þetta er algjörlega á skjön við það. Þótt hér sé væntanlega svarað, sem var kominn tími til, beiðni fólks úr Vesturbyggð um að fá framhaldsdeild heima í héraði fyrir þá sem þar búa þá þarf fjöldi ungmenna utan af landi að sækja framhaldsskóla annað en í heimabyggð.

Ég átta mig bara ekki á því, hæstv. forseti, með tilliti til þess kostnaðar sem fylgir því að senda barn í skóla milli landshluta hvers vegna lagt er til í stjórnarfrumvarpi að frádráttur í skattalögum vegna námskostnaðar verði felldur niður. Ég fæ ekkert samhengi í þann tillöguflutning með tilliti til byggðaáætlunar og þess sem þar var samþykkt um að leggja áherslu á menntun á landsbyggðinni, og þess máls sem hér var flutt. Það lýtur að því að minnka útgjöld ríkisins og ég taldi því eðlilegt að vekja athygli á þessu við fjáraukalagaumræðuna. Ég mun taka lengri og skarpari umræðu um þetta atriði, hæstv. forseti, í umfjöllun um fjárlög og afgreiðslu laga sem tengjast fjárlögum.

Ég hef ekki vikið mikið að skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Það væri náttúrlega tilefni til að halda langan fyrirlestur um hana, forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í skattamálum undanfarin ár. Eins og allir landsmenn vita var það sett í forgang, algjöran forgang á undan öllu öðru, að afnema hátekjuskatt. Það var byrjað á því. (Gripið fram í: Nei.) Því var kippt út þannig að nú er hátekjuskattur ekki lengur við lýði. (EOK: Gott, húrra.) (GÓJ: Leyfa fólki að vinna.) Síðan tala menn um aukna misskiptingu í þjóðfélaginu og misskiptingu tekna. Ég hef heyrt stjórnarandstöðuþingmenn og ég held einn stjórnarþingmann, hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, lýsa undrun sinni á því hvað menn væru að taka sér í laun. Er það ekki rétt? (EOK: Jú, alveg hárrétt.) Á sama tíma setur ríkisstjórnin í forgang að létta sköttum af þessu fólki. (Gripið fram í: Og lægst launuðum.) Það er rangt. Skattbyrði þeirra lægst launuðu hefur hækkað hlutfallslega. (EOK: Nei.) Það er nefnilega svoleiðis því miður. Margir hafa sýnt fram á það. Ég veit að hv. stjórnarþingmenn sem hér eru munu mótmæla því hástöfum að málið sé þannig vaxið en það er einfaldlega staðreynd.

Ég hef áður gagnrýnt þá skattastefnu ríkisstjórnarinnar að fara í flata prósentulækkun í stað þess að létta skattbyrði fólks með því að velja hækkun persónuafsláttar. Ríkisstjórnin varð hins vegar við þeirri kröfu ASÍ síðasta sumar að breyta skattastefnu sinni um næstu áramót og færa annað prósentið úr flötu lækkuninni yfir í persónuafslátt. Það er auðvitað gott skref þótt lítið sé. Skattleysismörkin munu væntanlega vegna þess fara eitthvað yfir 90 þús. kr. Guð láti gott á vita með þau skref í átt að því að lagfæra stöðu fólks með lægri tekjur og slakari afkomu. Ekki leggjumst við gegn því í stjórnarandstöðunni en vissulega hefðu skrefin mátt vera stærri í átt að því að jafna kjör fólks í þjóðfélaginu. Ég endurtek það í lok ræðu minnar, hæstv. forseti, að ég taldi ástæðulaust að afnema hátekjuskattinn að öllu leyti. Það mátti vel lækka þá prósentu og hugsanlega hækka viðmiðunarmörkin en það var ástæðulaust að stíga þetta skref.