133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[18:04]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég veit rétt, miðað við þær upplýsingar sem hafa verið gefnar, eiga eftir að koma fram viðamiklar tillögur að því er varðar heilbrigðismál og öldrunarmál við afgreiðslu þessara mála. Ég held ég geymi mér, hæstv. forseti, að taka afstöðu til málsins í heild sinni þar til við höfum skoðað málatilbúnað ríkisstjórnarflokkanna í heild. Vafalaust munum við í stjórnarandstöðunni reyna að móta sameiginlega afstöðu til þeirra tillagna. Sumar eiga rétt á sér og vonandi stendur lagfæringin á fjáraukalagafrumvarpinu til bóta. Að minnsta kosti eru menn að taka inn tillögur sem við lögðum til í fyrrahaust, sem stjórnarliðar felldu og gera að sínum núna. Ég reikna ekki með að við verðum á móti þeim, hæstv. forseti.