133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[18:07]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þingmaður erum sjálfsagt enn sammála um að fólk eigi að geta unnið hér á landi og haft góðar tekjur. Ég hef sagt það nokkrum sinnum úr ræðustól, hæstv. forseti, og á nokkrum fundum einnig, að þurfi það til til að halda uppi eðlilegri velferðarþjónustu í þessu landi, þ.e. að allir lifi nokkurn veginn mannsæmandi lifi, öryrkjar, aldraðir og lágtekjufólk, að við sem höfum hærri tekjur greiðum hærri skatta þá undirgengst ég það. Ég er þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, og hef alltaf verið það, líka meðan ég var forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins í 16 ár, að þeir sem hefðu hærri tekjurnar gætu greitt hærri skatta en þeir sem hafa lægri tekjur.

Ég vænti þess að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sé ekki ósammála mér um það sem við skipstjórnarmenn gerðum í þá veru fyrir nokkrum árum, þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp. Hvað gerðum við? Við samþykktum að sjómannaafslátturinn breyttist úr prósentutölu, sem virkaði sem hærri frádráttur fyrir þá sem höfðu hærri tekjur, yfir í fasta krónutölu. Hvað var það í reynd? Tekjujöfnun. Það var bein tekjujöfnun innan stéttarinnar þar sem tekjur skipstjórnarmanna, vélstjóra og annarra sem voru með aukahlut, lækkuðu hlutfallslega, þ.e. rauntekjur, miðað við hásetana sem höfðu lægri tekjur. Allir drógu sömu krónutölu frá tekjum sínum. Ég hef alltaf gert greinarmun á því að fólk eigi að komast af og að við eigum að veita þjónustu og því að hygla þeim sem hæstar hafa tekjurnar.