133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[18:12]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Hún hefur á margan hátt verið athyglisverð, sú umræða sem hér hefur átt sér stað um fjáraukalagafrumvarpið fyrir árið 2006. Hún hefur að vísu verið nokkuð öðruvísi en oft hefur áður því að hér hefur það gerst held ég í fyrsta skipti, a.m.k. í mjög langan tíma, að Framsóknarflokkurinn hefur eiginlega séð um umræðuna fyrir hönd stjórnarflokkanna. Að vísu kom hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson rétt áðan í ræðustól og átti nokkuð nett andsvar en að öðru leyti hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki séð ástæðu til að taka þátt í umræðunni. Það verður að segjast eins og er að ákveðin deild í Framsóknarflokknum hefur séð um umræðuna, yngri kanturinn af hv. þingmönnum Framsóknarflokksins hefur séð um þessa umræðu og þar af leiðandi hefur þátttaka stjórnarflokkanna verið örlítið öðruvísi en við höfum átt að venjast.

Hér hafa verið stunduð nokkuð tíð andsvör við ræðum stjórnarandstæðinga. Má segja að andsvörin hafi öll verið nokkuð keimlík og frösum beitt jafnt og þétt í allar áttir en innihald yfirleitt verið frekar rýrt og í flestum tilfellum nokkuð utan við það efni sem hér er rætt. Oft og tíðum hafa þessir ágætu hv. þingmenn Framsóknarflokksins bjargað sér á hlaupum frasanna og farið þá vítt og breitt en, eins og ég segi, ógjarnan rætt um það efni sem hér er til umræðu.

Ég þarf ekki að bæta miklu við það sem fram hefur komið í ágætum ræðum hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar. Í fyrsta lagi gerði hv. þm. Katrín Júlíusdóttir mjög vel grein fyrir nefndaráliti okkar í stjórnarandstöðunni þannig að við það þarf engu að bæta.

Það eru hins vegar nokkrir þættir, fyrst og fremst úr ræðu hv. þm. Birkis J. Jónssonar formanns fjárlaganefndar, sem nauðsynlegt er að fara um nokkrum orðum. Ég gerði tilraun til þess í andsvari við hv. þingmann að fá málefnalega umræðu um það hvaða reglur væru viðhafðar þegar t.d. svokallaðir halar væru klipptir af stofnunum, þ.e. hvort farið væri eftir einhverri reglu. Við höfum nefnilega séð það í minni hluta fjárlaganefndar að þar er engin regla við lýði. Það hefur ekki dugað að við höfum bent á þetta og ekki hefur heldur dugað að Ríkisendurskoðun hefur ár eftir ár farið yfir þessi mál. Það kom mér sannarlega á óvart að hv. formaður fjárlaganefndar virðist ekki hafa áttað sig á málflutningi Ríkisendurskoðunar. Nú hefur hv. þingmaður setið í fjárlaganefnd, ef ég man rétt, í á fjórða ár. (EOK: Það er rétt.) Það er staðfest hér af varaformanni nefndarinnar. Þess vegna kemur mér mjög á óvart eftir alla þá umræðu sem átt hefur sér stað, bæði í þingsal þegar margoft hefur verið farið yfir álit Ríkisendurskoðunar og á fundum í fjárlaganefnd þegar Ríkisendurskoðun sjálf hefur farið yfir sinn málflutning, að hv. þingmaður skuli ekki hafa áttað sig á því hvað þessi gagnrýni gengur út á.

Það er t.d. mjög skýrt þegar farið er yfir fjárreiðulögin og þessar athugasemdir Ríkisendurskoðunar að þegar talað er um halla einstakra stofnana og tekið á því máli liggur alveg ljóst fyrir að í fjáraukalögum hvers árs á eingöngu að taka á þeim halla sem myndast hefur á því ári sem fjallað er um hverju sinni en ekki fjölda ára aftur í tímann. Það á heima í fjárlögum næsta árs og í því þegar farið er yfir grunn stofnunarinnar og komist að því hvernig stendur á þessum hala og hvað þarf að lagfæra þannig að reksturinn á næsta ári sé settur á réttan grunn. Því miður virðist mér af málflutningi hv. þingmanns þessi þekking alls ekki hafa komist til skila. Það verður því miður augljóslega að fara yfir þetta oftar.

Reglan er sem sagt engin. Við sjáum í þessu frumvarpi að þrátt fyrir að ekki sé einu sinni farið að fjárreiðulögum gagnvart því þegar menn taka á halanum heldur er í tillögunum farið nokkur ár aftur í tímann gagnvart nokkrum stofnunum er ekki heldur samræmi í því hvað gert er gagnvart stofnunum. Eins og hv. þingmaður fór nokkuð ítarlega eða a.m.k. oft yfir í ræðu sinni er sérstaklega tekið á heilbrigðisstofnunum þrátt fyrir að meiri hlutinn telji eðlilegt, og ég held að ég geti út af fyrir sig verið sammála meiri hlutanum um það, að fara þurfi nánar yfir það fyrir 3. umr. hvernig menn taka á þeim vanda. Þá höfum við líka fleiri stofnanir og ég ætla ekki að fara að tína þær allar upp, heldur taka einn hóp sem dæmi. Hv. þingmaður talaði um reiknilíkan í sambandi við heilbrigðisstofnanir sem verið væri að þróa. Við höfum séð reiknilíkan gagnvart t.d. framhaldsskólunum í landinu, gagnvart háskólanum út af fyrir sig líka, en hvorugt þessara reiknilíkana hefur verið notað til þess að komast að raunkostnaði við rekstur stofnananna eða við það að veita þá þjónustu sem gert er ráð fyrir að stofnanirnar veiti.

Við höfum m.a. séð á reiknilíkönum framhaldsskólanna leiðréttingar á þeim til að reyna að ná betur utan um vandann. Það hefur samt ekki orðið til þess að leysa vanda skólanna sem m.a. hefur myndast vegna skekkju í reiknilíkaninu. Það hefur verið talin ástæða til að leiðrétta reiknilíkanið til að koma til móts við þessa skekkju en það hefur ekki dugað til þess að unnið yrði á uppsöfnuðum vanda. Nei, skólarnir eru látnir sitja uppi með hann áfram þrátt fyrir að þeir hafi haft rekstur sinn í jafnvægi til fjölda ára. Það er ekki verðlaunað á nokkurn hátt, heldur er haldið áfram að hegna stofnununum með hinum gamla uppsafnaða vanda sem í raun er búið að viðurkenna að hafi verið feill í reiknilíkaninu. Samt er ekkert gert til að bæta stöðu þeirra. Þetta er dæmi um það hvernig að þessum málum er staðið, því er nú verr og miður. Það er ekki unnið eftir neinum reglum, heldur virðist það vera algerlega tilviljunarkennt hvað er gert hverju sinni.

Það meira að segja kemur fyrir, og ef ég man rétt er það í inngangi núna að fjáraukalagafrumvarpinu, að fjármálaráðuneytið segi að reglan sé sú gagnvart stofnunum sem bættur er uppsafnaður halli að þær þurfi að hafa sýnt jafnvægi í rekstri í nokkur ár. Þessi regla nær hins vegar ekki yfir allt sviðið, heldur gagnvart einstökum ráðuneytum. Það er athyglisvert að það eru, því er verr og miður, æðioft sömu ráðuneytin sem ár eftir ár eru með stofnanir sínar í svipuðum vanda. Og af því að hv. þm. Birkir J. Jónsson tók sérstakt dæmi í ræðu sinni sem var Háskólinn á Akureyri er athyglisvert hvað samræmið er ótrúlega lítið á milli hluta. Í fjáraukalagafrumvarpinu núna er tillaga um 60 millj. kr. til handa skólanum. Hins vegar ef t.d. fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár er skoðað hefur þessi tala sem er fundin út sameiginlega af skólanum og ráðuneytinu og talin full nauðsyn á að setja inn ekki færst yfir á næsta ár inn í grunninn fyrir stofnunina. Síðan væri auðvitað hægt að hafa töluvert mál um það hvernig farið er með hið undarlega húsaleigumál við Háskólann á Akureyri, hið merka hús Borgir, þar sem ríkisstjórnin ber svo sannarlega alla ábyrgð á því að sú leið hafi verið farin við það að byggja þetta hús og þeim samningum sem gerðir voru um leiguna fyrir húsið. Ábyrgðin er að sjálfsögðu öll hjá ríkisstjórninni. Þrátt fyrir það þarf Háskólinn á Akureyri að bera hluta af leigunni í gegnum rannsóknarfé þannig að rannsóknarféð sem á auðvitað að nýtast til rannsókna skerðist sem því nemur. Þessi vinnubrögð eru fyrir neðan allar hellur. Ég veit vel að fjöldi hv. þingmanna í ríkisstjórnarmeirihlutanum hefur allan fyrirvara á þeirri leið sem þarna var farin. Því miður er það samt þannig eins og mörg dæmi hafa verið nefnd um að ráðherravaldið er svo sterkt að þrátt fyrir — sem ég trúi — fullan vilja einstakra hv. þingmanna komast þeir ekki áfram með mál eins og þessi.

Við höfum áður fjallað um mál sem tengjast þessu ráðherraræði. Hv. þm. Birkir J. Jónsson fjallaði m.a. um eitt af þeim málum í ræðu sinni, samninginn sem gerður var við Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ varðandi hlut þeirra í Landsvirkjun. Nú er held ég efnislega töluverður meiri hluti fyrir því á Alþingi að það sé eðlilegt að ríkið kaupi þessa hluti af sveitarfélögunum. Vinnubrögðin eru forkastanleg, m.a. er núna komið með málið í gegnum fjáraukalagafrumvarpið án þess að samningurinn hafi fengið nokkra efnislega meðhöndlun, án þess að hann hafi svo mikið sem verið sýndur í fjárlaganefnd. Ekki nóg með það, heldur er þetta ekki einstakt dæmi. Við höfum annað nýlegt dæmi um nákvæmlega sömu vinnubrögð þar sem samningurinn um tónlistarhúsið í Reykjavík er meðhöndlaður á sama hátt. Og það þrátt fyrir að í báðum þessum tilfellum hafi komið frá hæstv. fjármálaráðherra loforð um að samningarnir yrðu a.m.k. sýndir í fjárlaganefnd. Það var ekkert gert í þeim efnum, ekki nokkur skapaður hlutur. Það er grafalvarlegt hvernig með þessa hluti er farið.

Frú forseti. Ég sagði að ekki væri ástæða til að hafa hér langt mál varðandi áherslur okkar í þessu vegna þess að það er búið að gera það mjög vel hér. Aðeins örstutt varðandi hinn hefðbundna kafla í ræðu hv. þm. Birkis J. Jónssonar sem er um efnahagsástandið og hvað allt sé gott hér og best í heimi og hvernig verið er að hækka allt sem hækka þarf, vaxtabætur, barnabætur, persónuafslátt, allt er verið að hækka og alltaf verið að bæta hlut þeirra hópa sem þessir hlutir koma mest við. En viðmiðið er alltaf valið eins, þ.e. það er ekki byrjað að bera saman við þann tíma þegar skerðingar hófust á þessum þáttum, nei, ekki aldeilis, það er farið í mesta lagi eitt ár aftur í tímann, kannski tvö ef það hentar, og sagt: Við erum alltaf að bæta í, við erum alltaf að gera þetta betra og betra. Samt sýnir allur samanburður og sannar hvað gert hefur verið, þ.e. að búið er að skerða meira en verið er að bæta. Þetta er alkunna. Það er búið að gera þetta til fjölda ára.

Jafnframt er hann sérstaklega skemmtilegur, þátturinn í ræðu hv. þingmanns sem er líklega einnig að verða fastur liður, varðandi hókus pókus aðferðina sem notuð var í sumar, þ.e. þegar ríkisstjórnin tilkynnti seinkun framkvæmda víða á landsbyggðinni. Að vísu hafa margir hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar sagt að í raun og veru hafi það ekki verið nein seinkun af því að það var hvort eð er ekki alveg undirbúið og þetta breytti svo sem engu. Hv. þingmaður kemur hér engu að síður heilagur í framan og fullyrðir að þessi aðferð hafi bara snúið gjörsamlega við þeim vanda sem við var að etja og nú sé verðbólgan að hverfa og það væri allt þessu að þakka. Ég trúi því að ábyggilega verði farið vítt og breitt um heiminn með þá mögnuðu aðferð sem hefur svona gífurleg áhrif. Þrátt fyrir að seðlabankastjóri hafi verið með ýmsar efasemdir heyrði ég að hv. þingmaður hafði engar efasemdir í málinu, þakkaði hinum pólitíska stöðugleika hvað menn hefðu náð góðum tökum á þessu. Hv. þingmaður passar sig að sjálfsögðu á því að fjalla ekkert um það af hverju hafi þurft að lækka verðbólguna. Það hlýtur að vera vegna þess að verðbólgan hefur hækkað eitthvað, og það skyldi þó ekki vera að aðvörunarorð sem hér voru viðhöfð fyrir ári um það í hvað stefndi hafi verið rétt. Hefði ekki verið vænlegra að grípa strax til aðgerða þannig að verðbólgan hækkaði aldrei? Skuldarar sitja enn þá uppi með þennan verðbólguskatt, sem við getum kallað svo, sem þetta orsakaði.

Frú forseti. Það var annar hv. þingmaður Framsóknarflokksins sem kom með merkt innlegg í umræðuna. Það var hv. þm. Björn Ingi Hrafnsson sem sakaði stjórnarandstöðuna að því er mér heyrðist í heild sinni um að vera bara með formalisma í allri sinni umræðu. Og hver var þessi formalismi? Jú, það voru áherslur okkar um það að farið væri eftir fjárreiðulögunum. Þetta þótti hv. þingmanni afskaplega ómerkileg umræða, að fara þyrfti eftir fjárreiðulögum. Nei, það væri bara formalismi sem engu máli skipti, það væri ekkert sem þyrfti að standa í. Það sem máli skipti væri það að hér streymdu peningar þvers og kruss. Vinnubrögð skiptu sem sagt engu máli. Þetta þótti mér afar merkilegt innlegg.

Frú forseti. Ég ætla að standa við það að hafa þessa ræðu ekki mjög langa, og enda aðeins á því að segja að því miður eigum við enn þá allt of langt í land til að geta sagt að við sýnum fjárreiðum ríkisins nægilega virðingu.