133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[19:19]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má þakka fyrir nokkuð skýra framsetningu hjá hv. þingmanni í ræðu sinni sem er kannski ólíkt því sem hægt er að segja um fjármálaráðherraefni stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Jón Bjarnason. Ef ég skildi hv. þingmann rétt heyrðist mér hann bæði vera að vara við þenslu í íslensku efnahagslífi en samtímis að hvetja til aukinna fjárútláta á fjáraukalögunum. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann styðji tillögu 1. minni hluta fjárlaganefndar um aukin útgjöld eins og þeim er lýst í þingskjali og breytingartillögum nefndarinnar.

Það liggur fyrir og kom fram hjá hv. þingmanni og hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrr í dag að Vinstri grænir eru á móti stóriðjuframkvæmdunum á Austurlandi. Þeir hafa verið á móti skattalækkunum, ég held að þeir hafi meira og minna verið á móti flestum skattalækkunum sem lagðar hafa verið til á hinu háa Alþingi og auðvitað voru þeir á móti sölu bankanna.

Nú ber hins vegar svo við, hæstv. forseti, að þingflokksformaður Vinstri grænna, hv. þm. Ögmundur Jónasson, hefur lagt það til að bankarnir verði beinlínis reknir úr landi og lítil eftirsjá sé í þeim, þrátt fyrir að þeir skili milljarðatugum í ríkissjóð og til íslensks samfélags á hverju einasta ári. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála þeim tillögum viðskiptaráðherraefnis stjórnarandstöðunnar. Telur hv. þingmaður að þetta muni auka tiltrú erlendra aðila á íslenskum fjármálamarkaði eða viðskiptalífi?