133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[20:03]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú ekki oft sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar óska eftir því að ég eða aðrir stjórnarþingmenn tali hér lengur. En það er vel, hæstv. forseti, að þingmaðurinn hlýði á. Það er vel og væri nær að aðrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar tækju þennan hv. þingmann sér til eftirbreytni.

Hins vegar er ljóst af ummælum hv. þingmanns sem sagði að ég hefði farið inn í einhvern ímyndunarheim, að það er stjórnarandstaðan sem býr í ímynduðum veruleika og heldur að hlutirnir gerist einhvern veginn af sjálfu sér og er í afneitun um að það eru aðgerðir stjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar á Alþingi sem hafa leitt til þessa góðæris sem hér hefur ríkt í efnahagslífi á undanförnum tólf árum.

Hæstv. forseti. Þjóðin á rétt á því að fá að vita hvernig hin meinta sameinaða stjórnarandstaða ætlar að skipa málum sínum fari svo ólíklega að hún komist í meiri hluta hér á þingi og myndi ríkisstjórn á næsta kjörtímabili. Þess vegna er sjálfsagt, hæstv. forseti, að upplýsa þjóðina um það hvaða menn koma til með að skipa hvaða ráðherrastóla eftir kosningar. Það er nauðsynlegt fyrir þjóðina og fyrir almenning að fá að vita hvaða holskeflu og hörmungar hún á yfir sér verði þessi hörmung að veruleika.