133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

aðstaða til millilandaflugs frá Akureyri.

[12:20]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Okkur í þingflokki Frjálslynda flokksins rak í rogastans þegar við heyrðum þær fréttir að tiltekið flugfélag ætlaði að hætta að stunda millilandaflug frá Akureyrarflugvelli vegna þess að aðstæður við flugvöllinn væru svo lélegar. Við vitum að millilandaflug hefur verið stundað þarna frá þessum flugvelli í nokkur ár, að vísu nokkuð stopult, en það virðist vera staðreynd að flugfélagið ætli frá að hverfa.

Við lýsum ánægju með þá breiðu samstöðu sem virðist koma fram í þessum umræðum hjá talsmönnum allra flokka, og að sjálfsögðu okkar líka, um að það beri að fara í þær umbætur sem nefndar hafa verið, þ.e. lengingu á flugbraut og bættan búnað varðandi aðflug. Við tökum að sjálfsögðu undir þetta, bíðum í ofvæni eftir nýrri samgönguáætlun og hljótum jafnframt að hvetja hæstv. samgönguráðherra og ríkisstjórnina til dáða í þessu máli.

Það er afskaplega mikilvægt að hægt sé að stunda millilandaflug frá flugvöllum úti á landi. Það er mjög mikilvægt fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni að þessir möguleikar séu fyrir hendi og að sjálfsögðu eigum við að leggja mikla áherslu á það að millilandaflug sé stundað frá flugvellinum á Akureyri og flugvellinum á Egilsstöðum ef efnahagslegar forsendur eru fyrir slíku. Það er ekki annað að heyra en að hreinlega búnaður og aðstæður komi í veg fyrir að það sé hægt ef menn telja forsvaranlegt að stunda slíkan flugrekstur frá þessum stöðum. Þessu hljótum við að verða að bæta úr, virðulegi forseti, og enn og aftur ítreka ég ánægju mína með að það virðist vera breið samstaða um það að þetta verði einmitt gert á Alþingi Íslendinga.