133. löggjafarþing — 27. fundur,  15. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[12:42]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar í þessu sambandi er algerlega fráleitur. Hér á að fara út í tugmilljarða eignatilfærslur án þess að nokkur gögn liggi málinu til grundvallar og þingmönnum er ætlað að taka afstöðu til og greiða atkvæði um slíka hluti aftur og aftur í síðasta hluta þessa fjáraukalagafrumvarps á forsendum sem ég fullyrði ósköp einfaldlega að séu ekki boðlegar. Það er ekki í samræmi við góðar þinghefðir og venjur eða ábyrga ákvarðanatöku á Alþingi að ætla mönnum að bera ábyrgð á tugmilljarða kr. skuldbindingum eða ábyrgðum sem lagðar eru á herðar ríkissjóðs með þessum hætti. Það er alveg ljóst að sameining Landsvirkjunar, Rariks og Orkubús Vestfjarða í einn einokunarrisa á sviði orkumála er liður í einkavæðingarundirbúningi ríkisstjórnarinnar. Það liggur fyrir. Fyrir því standa m.a. yfirlýsingar fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra. Því erum við algerlega andvíg í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og við greiðum því atkvæði gegn þessari heimild.