133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fjarskiptasjóður.

122. mál
[14:03]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Einkavæðing og sala Símans voru náttúrlega mistök enda sýndu skoðanakannanir að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar var andvígur því. Samkeppnishæfni atvinnulífs og búsetu hér á landi felst í að hafa aðgang að fullkomnustu tækni, m.a. í fjarskiptum og símaþjónustu. Hér er verið að ræða um Fjarskiptasjóð og hvernig honum verði beitt.

Það er mjög eðlilegt að þau sveitarfélög og héruð sem vita að þau muni falla utan við samkeppnissvæðið vilji ráðast í framkvæmdir á eigin vegum. Spurningin er: Fáum við það greitt, fáum við það styrkt úr Fjarskiptasjóði? Það er spurningin sem hæstv. ráðherra á að svara. Það er alveg út í hött að halda að á grundvelli samkeppni og markaðsbúskapar verði hægt að leggja fullkomið fjarskiptakerfi um Vestfirði, um Norðurland, um Norðausturland, það vitum við. (Forseti hringir.) Þess vegna er þessi spurning sem sveitarfélögin spyrja: (Forseti hringir.) Fáum við það bætt ef við ráðumst í þessi verkefni?