133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

merking varðskipa.

237. mál
[15:28]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Spurt er: „Hvers vegna er varðskipið Týr merkt „Coast Guard“ á báðum síðum skipsins í stað „Landhelgisgæslan“ eftir nýlegar endurbætur á skipinu í Póllandi?“

Þetta var gert í Póllandi eins og fram hefur komið en hefur nú verið afmáð af skipinu og verður væntanlega merkt bæði með íslensku og ensku heiti Landhelgisgæslunnar, eins og tíðkast víða um heim til að þau skip séu auðþekkjanleg, bæði fyrir þá sem kunna tungumál viðkomandi ríkis og einnig hinn erlenda aðila sem slík skip eiga óhjákvæmilega samskipti við.

„Verða önnur varðskip Landhelgisgæslunnar merkt á ensku í stað íslensku eins og verið hefur?“

Ef þetta verður útfært þannig að merkt verður bæði á íslensku og ensku, þá verður það væntanlega látið gilda um öll skip gæslunnar.

„Verða tæki og búnaður löggæslunnar, svo sem lögreglubílar og lögreglustöðvar, framvegis merkt á ensku en ekki íslensku?“

Það verður ekki farið að merkja lögreglubíla á ensku. Sumar lögreglustöðvar hafa nú þegar í dag heiti sitt á ensku. Ég tel líklegt að á nýjum búningum lögreglumanna muni einnig koma fram enska orðið „police“ til að það liggi ljóst fyrir hverjir eru þar á ferð.