133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

merking varðskipa.

237. mál
[15:31]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Einhverju sinni var ég á ferð í Tævan þar sem merkingar eru fyrst og fremst á mandarín, tungumáli sem útlenski gesturinn ég og ferðafélagar mínir skildu lítið í. Mikið óskaplega vorum við hins vegar ánægð þegar við sáum undirmerkingar á ensku þannig að við gátum aðeins komist áfram. Ég tel að þetta mál snúist að nokkru leyti um það og umræðu um það hvernig við erum komin inn í alþjóðlegt samfélag. Við þurfum líka að velta í þessu samhengi upp landhelgisgæsluhlutverki lögreglu. Ef ég man rétt er bæði á Seyðisfirði sem og á Keflavíkurflugvelli lögreglustöð merkt á íslensku en líka með ensku. Hvers vegna? Vegna þess að þeim er ætlað að þjóna Íslendingum fyrst og fremst en líka þeim erlendu gestum sem hér kunna að vera á ferð. Undirstaðan er, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, auðvitað sú að íslenska er þjóðtunga okkar og á að vera það. Hún hlýtur alltaf að vera hornsteinninn en við þurfum líka að hafa í huga að við erum í alþjóðlegu samfélagi.