133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Keflavíkur.

[15:53]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt í þessu sambandi að átta sig á því að hlutverk Landhelgisgæslunnar í þeirri breyttu mynd sem við stöndum frammi fyrir í dag verður meira og mikilvægara en við höfum séð fram að þessu. Það er ljóst að Landhelgisgæslan kemur til með að taka að sér fleiri og stærri verkefni en til þessa og það er líka ljóst að þingmenn og stjórnvöld verða að bregðast við því með margvíslegum hætti. Ríkisstjórnin hefur gert það á mörgum sviðum og hæstv. dómsmálaráðherra hefur haft forgöngu um það að lagaumhverfi Landhelgisgæslunnar hefur verið breytt. Við gengum frá því núna á síðasta vori að samþykkja ný lög um Gæsluna sem munu skapa henni möguleika á því að takast á við nýtt og aukið hlutverk. Líka hefur verið gerður reki að því að leysa úr brýnni þörf fyrir nýjan og aukinn tækjakost og það er mikilvægt að þingmenn standi saman í því að fylgja því eftir.

Varðandi staðsetningu starfsemi Gæslunnar, annaðhvort að öllu leyti eða hluta, finnst mér lykilatriðið að tekið verði tillit til þeirra þarfa sem Gæslan hefur í því sambandi, hvernig hún getur á sem hagkvæmastan og skynsamlegastan hátt rækt hlutverk sitt við þessar nýju og breyttu aðstæður. Ég get tekið undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað og sagt það nauðsynlegt að skoða kosti suður með sjó í því sambandi. Ég er hins vegar ekki tilbúinn til þess að taka afdráttarlaust afstöðu til þess, heldur verðum við að sjálfsögðu að taka tillit til þeirra verkefna sem um er að ræða og velja þá hagkvæmustu kosti og skynsamlegustu miðað við verkefnið sem þarf að sinna.