133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Keflavíkur.

[15:58]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, sem og þeim þingmönnum sem hér lögðu orð í belg. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra skuli hafa með faglegum hætti lýst þeim möguleikum að Suðurnesin taki að verulegu leyti, hugsanlega, við starfsemi Landhelgisgæslunnar. Ég vara jafnframt við því að lagt verði í fjárfestingar og stofnkostnað á Reykjavíkurflugvelli vegna þeirrar stækkunar sem augljós hefur orðið hjá Landhelgisgæslunni. Vegna þessarar stækkunar, eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra, þarf að stækka skrifstofuhúsnæðið og skýli fyrir flugkostinn. Ég teldi óskynsamlegt að leggja út í slíka fjárfestingu núna, ekki síst í ljósi þess að aðstaða er til staðar, eins og ég nefndi áðan, í skýli 831 á Keflavíkurflugvelli. Þetta er glæsilegt skýli sem ekki einungis getur tekið við hinum vaxandi flugkosti Landhelgisgæslunnar, heldur er þar mjög góð aðstaða fyrir skrifstofuhald Landhelgisgæslunnar. Þess vegna hvet ég til þess að sá kostur verði skoðaður nú þegar.

Ég vek líka athygli á því að 800–900 manns misstu snögglega atvinnu sína á Suðurnesjum og ég gæti ímyndað mér að annars staðar hefði heyrst hljóð úr horni. Það hefur gengið nokkuð átakalítið fyrir sig hvað Suðurnesin varðar, þaðan hefur ekki heyrst neitt ramakvein. Ég tel hins vegar að hæstv. ríkisstjórnin sem og þingheimur hafi ákveðnar skyldur gagnvart samfélaginu þarna vegna þeirra ótrúlega stóru breytinga sem hafa orðið og af því að fyrir því eru fagleg rök að færa strax Landhelgisgæsluna til Suðurnesja teldi (Forseti hringir.) ég það hyggilegt og faglegt, að ég tali nú ekki um skynsamlegt.