133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fæðingarorlof.

323. mál
[18:44]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Björn Ingi Hrafnsson hefur beint til mín fyrirspurn í nokkrum liðum um fæðingarorlof og þakka ég honum fyrir það.

„1. Hver er skoðun ráðherra á hugmyndum um lengingu fæðingarorlofs foreldra upp í tólf mánuði?“

Lenging fæðingarorlofs kemur vel til greina í framtíðinni en ég tel eðlilegt að skoða það í samhengi við önnur félagsleg verkefni og forgangsröðun verkefna. Vil ég þar t.d. nefna greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna og uppbyggingu almennrar þjónustu við fötluð börn hér á landi. Ég vil jafnframt nefna að ekki eru nema um sex ár síðan lögin um fæðingar- og foreldraorlof voru samþykkt á Alþingi. Fljótlega eftir að lögin voru að fullu komin til framkvæmda reyndist nauðsynlegt að leggja til ýmsar breytingar. Ég nefni sérstaklega að útgjöld sjóðsins voru meiri en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Við þessu þurfti að bregðast og það hefur verið gert með ýmsu móti eins og hv. þingmönnum er kunnugt. Ég vísa þar sérstaklega til breytinga sem voru gerðar á lögunum í júní 2004 og tóku gildi 1. janúar 2005. Ég tel mikilvægast að nú verði haldið þannig á málum að fjármál sjóðsins komist í jafnvægi og við öðlumst reynslu á þeim breytingum á lögunum um sjóðinn áður en frekari skref verða stigin. Rétt er að árétta að áhrif af þeirri breytingu sem gerð hefur verið á viðmiðunartímabili launa komu fyrst að fullu fram á fyrri helmingi þessa árs.

„2. Hafa kostir þess og gallar að lengja fæðingarorlof verið kannaðir af hálfu ráðuneytisins?“

Lagt hefur verið mat á það hver kostnaður yrði af því að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Á síðasta ári var kannað hver kostnaðurinn yrði ef miðað væri við að hvort foreldri um sig öðlist rétt til fimm mánaða orlofs og sameiginlegur réttur yrði tveir mánuðir. Taldi Tryggingastofnun ríkisins að árlegur heildarkostnaður yrði þá um 7,5 milljarðar kr. sem mundi auka útgjöld Fæðingarorlofssjóðs um rúmlega 2 milljarða. Fæðingarstyrkur var þá ekki meðtalinn. Heildarúttekt eða rannsókn á ýmsum félagslegum áhrifum þess að fæðingarorlof yrði lengt hefur ekki verið gerð. Það er hins vegar ánægjulegt að geta greint frá því að unnið er að rannsókn á ýmsum þáttum varðandi nýtingu fæðingarorlofsins á vegum Jafnréttisstofu og félagsmálaráðuneytisins, auk þess sem nú er að hefjast vinna við rannsóknir á þessu sviði á grundvelli úthlutunarstyrkja úr Jafnréttissjóði þann 24. október síðastliðinn. Ég leyfi mér að fullyrða að fremur óvenjulegt er að svo vel sé fylgst með áhrifum löggjafar og ég tel að þetta sé mjög til fyrirmyndar.

„3. Hvernig telur ráðherra unnt að bregðast við vanda foreldra barna á aldrinum 9–18 mánaða, þ.e. frá því fæðingarorlofi lýkur og þar til börn komast á leikskóla?“

Það er verkefni sveitarfélaga hér á landi að sjá foreldrum fyrir dagvistunarúrræðum vegna barna. Vísa ég þar einkum í lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum, sem settar eru á grundvelli þeirra, og til laga um leikskóla. Löggjafinn hefur með því veitt sveitarfélögunum sjálfsákvörðunarrétt um hvaða leiðir þau telji best að fara miðað við aðstæður á hverjum stað.

Mér er fullljóst að mál þetta hefur verið nokkuð til umfjöllunar í samfélaginu og ekki síst sem málefni nátengt fjölskyldumálum og jafnréttismálum, eins og fyrirspyrjandi fór reyndar yfir. Hafa verið settar fram ýmsar hugmyndir í því sambandi svo sem að treysta á dagforeldrakerfið, setja á stofn vöggustofur við leikskóla, lengja fæðingarorlof og að foreldrar fái fjárstyrk til að vera lengur heima í stað þess að nýta gæsluúrræði.

Hæstv. forseti. Að mörgu er að hyggja þegar mat er lagt á hvaða leiðir sé best að fara. Atvinnuþátttaka kvenna hér á landi er með því mesta sem gerist en því miður er enn allt of langt í land að jafna launamun kynjanna. Reynslan af lengra fæðingarorlofi í nágrannalöndum okkar er almennt sú að karlmenn séu mun síður líklegir til að taka lengra fæðingarorlof en konur. Því er mikilvægt þegar þessi mál eru skoðuð að stjórnvöld tryggi að með breytingum sé ekki nein hætta á að verið sé að veikja stöðu kvenna á vinnumarkaði þegar við erum öll sammála um að nauðsynlegt sé að styrkja hana enn frekar en nú er.

Síðast en ekki síst, hæstv. forseti, vil ég upplýsa að ég hef falið sérfræðingum félagsmálaráðuneytisins, Jafnréttisstofu og Fæðingarorlofssjóðs að fara ítarlega yfir allar athugasemdir og ábendingar sem fram hafa komið varðandi framkvæmd fæðingarorlofslöggjafarinnar. Í framhaldi af því mun ég meta hvort þörf sé að gera breytingar á þeirri framkvæmd sem nú fyrst er að fást full reynsla á.