133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:24]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér heyrist á andsvari hv. þingflokksformanns Framsóknarflokksins, Hjálmars Árnasonar, að hann hafi ekki lesið ræðu utanríkisráðherrans síns, hann hafi bara ekki einfaldlega ekki lesið ræðuna. Í ræðunni segir ekkert um Mannréttindaskrifstofuna. Það var ég sem leiddi hana hér fram og taldi ráðherranum til tekna að hún hefði þó sett 4 millj., ætlar víst að gera á þessu ári, í Mannréttindaskrifstofuna. Ráðherra segir það ekkert í ræðu sinni. Hún var ekkert að hampa því. Það er ég sem tíunda það hér.

Það er greinilegt að hv. þingflokksformaður hefur ekki lesið þá ræðu, stefnumótunarræðu, sem ráðherra hans flytur hér. En látum vera þótt hann gefi sér ekki tíma til þess.

Varðandi álversframkvæmdirnar er það eins og ég gat um hér áðan að ef fram heldur sem horfir, ef menn halda áfram með stækkunina í Straumsvík, Helguvík, með álver fyrir norðan, stefnum við einfaldlega fram úr þeim heimildum sem við höfum. Fyrir utan Kárahnjúkavirkjun og Grundartanga. Þetta verða menn horfast í augu við.

Álversframkvæmdir og stóriðjan við Kárahnjúka voru ekki samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti ábyrgðir vegna lána og lagði mat á það hvort ábyrgðirnar vegna lánanna mundu hugsanlega falla á Reykvíkinga. Matið var að það væri ekki líklegt til að gerast. Á grundvelli þess samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur, með níu atkvæðum gegn fimm, að veita þessar ábyrgðir.