133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:29]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo að við víkjum umræðunni aðeins nær efni dagsins var margt athyglisvert í ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, einkum um fortíðina.

Það fór hins vegar minna fyrir umfjöllun um framtíðarstefnu Íslands á sviði utanríkismála. Ég saknaði þess svolítið að heyra ekki af hálfu formanns Samfylkingarinnar framtíðarsýn þess flokks varðandi stöðu okkar í utanríkis- og varnarmálum, varnarmálunum sérstaklega, þegar tekið er tillit til þess að Samfylkingin hefur verið mjög gagnrýnin á málsmeðferð ríkisstjórnarinnar í sambandi við varnarsamning og þau mál að undanförnu. Það hefði verið kjörið tækifæri fyrir hv. formann Samfylkingarinnar að nota þetta tækifæri til að lýsa því hvaða valkosti Samfylkingin býður upp á á móti.

Eins vakti það (Gripið fram í.) athygli mína að í þeirri ræðu kom ekki fram sú stefna sem hefur á undanförnum árum verið þungamiðja í stefnu Samfylkingarinnar hvað varðar utanríkismál, að það væri eitthvert brýnasta hagsmunamál okkar að ganga til aðildarsamninga við Evrópusambandið. Ég veitti því athygli að þá umfjöllun var ekki að finna í þessari ræðu sem gefur mér tilefni til að spyrja hv. þingmann hvort um sé að ræða einhverja stefnubreytingu af hálfu Samfylkingarinnar eða hvort Samfylkingin álíti að það mál, hugsanleg aðild að Evrópusambandinu eða aðildarumsókn, sé ekki á dagskrá núna á þessum kosningavetri.