133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:31]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rangt hjá þingmanninum að ég hafi ekki talað hér um framtíðarstefnu. Ég talaði þvert á móti mjög mikið um framtíðarstefnu, ég talaði um að við ættum að fylgja að málum þeirri stefnu á alþjóðavettvangi sem er undir yfirskriftinni mannöryggi. Það er auðvitað mikilvægt innlegg í okkar umræðu að við gætum að því sem nýjast er á alþjóðavettvangi í þessum efnum.

Ég veit að hv. þingmaður hefði gjarnan viljað að ég héldi einhvern veginn allt öðruvísi ræðu en ég verð bara að hryggja hann með því að það var þetta sem mér lá á hjarta í dag. Ég get svo haldið aðrar ræður og hef haldið hérna margar ræður um varnarmál og ég get líka haldið hérna ræður um Evrópusambandið. Það gefast önnur tækifæri í þessum ræðustól. Þó að ég kjósi að tala um mannöryggi verður þingmaðurinn að sætta sig við það að þetta er áherslumál mitt núna en ekki einhver önnur sem hann vildi svo gjarnan hafa.

Ég skal tala um Evrópusambandið. Það er engin launug á því að ég er þeirrar skoðunar að við eigum að sækja um aðild, hefja það ferli, sjá hvað út úr því kemur og hvort við náum viðeigandi samningum. Það er engin launung á því, ég hef margsagt það.

Varðandi varnarmálin sagði ég það líka í umræðum hér um varnarsamninginn síðast að við ætluðum ekki að taka pólitíska ábyrgð á einhverjum leynisamningi um varnarviðbúnað hér á landi sem tveir menn í ríkisstjórninni og kannski einhverjir fleiri vita um. Við tókum ekki pólitíska ábyrgð á þeim gerningi og við áskiljum okkur auðvitað fullan rétt til þess að taka þau mál til endurskoðunar þegar hér verður skipt um ríkisstjórn, að sjálfsögðu.