133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:53]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef tekið eftir því að eftir að hv. þm. Ellert Schram snerist heyrir hann ekki nema annað hvert orð sem ég segi. Ég minntist á Íraksmálið áðan. Ég talaði um að það væri orðin sagnfræði að tala um þær ástæður sem lágu til innrásarinnar í Írak, en eins og hv. þingmaður man var því trúað á þeim tíma að Írakar byggju yfir kjarnorkuvopnum.

Ljóst er að mikil ógnarstjórn var í Írak á þeim tíma. Það hefur verið upplýst um fjöldagrafir barna og að þjóðflokkar hafi þar verið drepnir og þar fram eftir götunum og er alveg ástæðulaust að reyna að fegra þá mynd sem ríkti í innanríkismálum Íraka á þeim tíma.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir talaði um mannöryggi áðan. Það má auðvitað líta svo á við séum að hugsa um mannöryggi þegar við veltum því fyrir okkur hvort engu skipti fyrir alþjóðasamfélagið hvort ógnarstjórn ríki í einhverju landi eða ekki. Það má kannski hlæja að því og brosa að því. En það er nú svo að við höfum af því áhyggjur og oft er talað um að alþjóðasamfélagið eigi að grípa inn í. Nú skiptir mestu máli að við Íslendingar reynum að beita áhrifum okkar til þess að friður og öryggi komist á í Írak eins og allar þjóðir heims tala um. Það er kjarni málsins. Hins vegar er ýmis önnur vá uppi í þessum heimshluta sem líka er ástæða til að ræða. En tími minn er búinn í þetta skipti.