133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:55]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hvort sem það var lágur rómur þingmannsins eða slæm heyrn af minni hálfu fór það nú svo að ég gat ekki merkt að Íraksmálið sem slíkt eða stefnumörkun, stefnumótun eða stefnubreyting í þeim málum væri á dagskrá, hvorki hjá honum né enn frekar hjá ráðherra. Ég ætla nú ekki að eyða mínum fyrstu mínútum eða klukkutímum á Alþingi í það að fara að skattyrðast við minn gamla vin, hv. þm. Halldór Blöndal.

Kjarni málsins er sá að ég vek athygli á Íraksmálinu vegna þess að það er auðvitað þungamiðja allra utanríkismála. Það væri fróðlegt fyrir okkur í þinginu og fyrir þjóðina að heyra hvort einhverjar stefnubreytingar hafi átt sér stað, hugarfarsbreytingar af hálfu ráðamanna ríkisstjórnarinnar að því er varðar þann harmleik sem þar á sér stað.

Ef ákvörðunin á sínum tíma var tekin á röngum forsendum eða vegna ónógra upplýsinga þá liggja væntanlega þær upplýsingar og röksemdir fyrir núna sem ættu að hjálpa hæstv. ríkisstjórn til að taka ákvörðun um að biðjast afsökunar á því sem hún tók afstöðu til á sínum tíma.