133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:01]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var að leggja áherslu á að við Íslendingar værum í fararbroddi og ættum að vera í fararbroddi þeirra þjóða sem leggja áherslu á vistvæna nýtingu á fiskstofnum eins og við höfum gert og ég þakka hæstv. utanríkisráðherra frumkvæði hennar í þeim efnum.

Ég vitnaði m.a. til þeirrar skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem var gerð opinber í gær og skýrt er frá í Morgunblaðinu þar sem togveiðar eru gagnrýndar. Þar er talað um tímabundið bann við botnvörpuveiðum á úthöfunum. Þar segir að rúmur helmingur neðansjávarfjalla og kóralvistkerfa í heiminum sé á alþjóðlegum hafsvæðum og að botnvörpuveiðar hafi valdið þar miklum skaða. Ég tel að við Íslendingar eigum að vera vakandi á þessu sviði og beita okkur fyrir því að þjóðir heims standi skynsamlega að fiskveiðum sínum um leið og við hljótum að leggja áherslu á að við högum okkar veiðum þannig að ekki sé sú vá fyrir dyrum á Íslandsmiðum sem lýst er annars staðar.