133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:05]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ræða hæstv. utanríkisráðherra er um margt athyglisverð. Segja má að slegnir séu þar sumpart nýir tónar, sem ekki hefur verið hefðbundið í ræðum forvera hennar, og ýmislegt jákvætt að mínu mati og undir það get ég tekið. Ég fagna t.d. þeirri áherslu sem í ræðunni er á málefnum kvenna, bæði í samhengi við þróunarsamvinnu og þróunaraðstoð og viðleitni til að tryggja frið og öryggi í heiminum. Ég deili algerlega þeirri skoðun með hæstv. utanríkisráðherra að vænlegasta leiðin til að ná árangri í þeim efnum er að hverfa frá þeim karllæga heimi hernaðarhyggju og vígbúnaðar sem mannkynið hefur því miður verið fangi í, þ.e. slíkrar hugmyndafræði, og horfa til borgaralegra fyrirbyggjandi aðgerða sem vænlegustu leiðarinnar til að ná fram friði og stöðugleika í heiminum. Það er búið að reyna hitt lengi. Mannkynið er búið að vera fast í viðjum hernaðarhugsunar, vígbúnaðar og valdbeitingar árþúsundum saman og gengur satt best að segja ekki mjög vel, eins og nærtækast er að sjá með því að litast um í heiminum og velta því fyrir sér hvernig í ósköpunum skuli standa á því að á öld upplýsingar og tækni í heiminum skulu heilir lands- og heimshlutar loga í ófriðarbáli.

Hinn mjúki svipur sem má segja að hæstv. utanríkisráðherra sé á vissan hátt að reyna að setja á málaflokkinn og á ræðu sína helgast hins vegar dálítið af því eða næst fram með því að sleppa að tala um ýmislegt sem er ekki jafnskemmtilegt og gefur ekki jafnmjúka mynd af hlutunum. Það er athyglisvert að hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki koma inn á málefni Íraks, ástandið í Afganistan eða deilur Ísraels og Palestínu, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Óhjákvæmilegt er að nefna aðeins Íraksmálið. Ekki er hægt annað en að halda íslenskum stjórnvöldum eða ríkisstjórninni og meiri hluta hennar á Alþingi við efnið hvað það snertir. Það mál er óuppgert. Hæstv. ríkisstjórn eða forkólfar hennar munu ekki geta þagað það mál í hel og inn í gleymskuna. Þau hrikalegu mistök sem gerð voru með því að lýsa yfir stuðningi við innrás, ólögmæta innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak verður að gera upp. Þegar menn ætla að reyna að sleppa frá málinu með því að segja að það hafi verið rétt að málum staðið í ljósi þeirra upplýsinga sem þá lágu fyrir, ja, hvar eru þá þær upplýsingar? Hvernig stendur á því að forverar núverandi hæstv. utanríkisráðherra og núverandi hæstv. forsætisráðherra, þeir Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, fara ævinlega undan í flæmingi þegar þeir eru beðnir að leggja á borðið þau gögn sem þeir segjast hafa séð og hafi byggt afstöðu sína á. Hvar eru þau? Voru þau eitthvað rýr í roðinu? Var það kannski aldrei nema eitt símtal frá ónefndum manni sem þurfti til þess að kippa Íslandi upp á vagninn?

Það dugar ekki minna en afsökunarbeiðni og stefnubreyting. Þó seint sé væri það til bóta að fyrir hönd Íslands yrði nú sagt: Það hefur komið í ljós að þarna áttu sér stað mistök. Við biðjum heimsbyggðina velvirðingar á því að hafa tekið þá afstöðu sem við tókum, hún var röng, því að þarna átti sér stað gróft brot á alþjóðalögum. Um það snýst þetta. Farið var í þetta stríð á upplognum forsendum, þær voru diktaðar upp. Þeir menn sem hafa beðist afsökunar á því eins og Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, eru menn að meiri. Hann hefur beðist á því afsökunar að hafa lagt röng gögn fyrir Sameinuðu þjóðirnar og sagt að það muni verða blettur á ferli sínum sem þar gerðist.

Hvar eru sambærilegar afsökunarbeiðnir hér? Ætlar Ísland þá að þrjóskast við jafnvel eftir að Bandaríkjamenn sjálfir eru farnir að endurskoða viðhorf sín til þessara mála?

Afganistan, hvernig er ástandið þar? Ég tel að menn ættu ekki heldur að gleyma því sem gerðist í Afganistan. Er mikill árangur af innrásinni þar? Er það að skila mönnum miklu? Er ekki NATO að sökkva þar í næstum því hliðstætt fúafen og ástandið fer versnandi dag frá degi? Verið er að biðja um aukinn mannafla þangað til þess að taka til eftir Bandaríkjamenn.

Síðan vil ég nefna ástandið í deilum Ísraela og Palestínumanna. Framferði ísraelskra stjórnvalda fer versnandi. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að á síðustu mánuðum hafa Ísraelar gert sig sekari um jafnvel enn alvarlegri brot á alþjóðalögum en áður hefur verið. Ég á þá sérstaklega við innrásina í Líbanon og vopnanotkun þar og hvernig borgaraleg skotmörk og borgaralegir innviðir samfélagsins voru sprengdir í tætlur. Síðan dregur ísraelski herinn sig til baka og skilur eftir að mati alþjóðlegra eftirlitsaðila á svæðinu allt að hundrað þúsund ósprungnar klasasprengjur. Hvað eru klasasprengjur? Það eru einhver ógeðslegustu vopn sem þróuð hafa verið í sögu slíkra vopna og er þá mikið sagt, því að þær eru sérhæfðar til þess að drepa fólk, skaða fólk, en valda ekki tjóni á mannvirkjum.

Ég hef lyft þeirri umræðu hér hvort ekki sé að koma sá tími að menn verði að fara að taka samband sitt við þetta ríki, Ísrael, til endurskoðunar. Ég spyr mig að því: Hvers vegna skyldu menn ekki ræða pólitískar og viðskiptalegar aðgerðir gagnvart Ísrael þegar gripið hefur verið til slíkra hluta gagnvart öðrum ríkjum iðulega fyrir, að því er virðist, miklu léttvægari sakir en Ísraelar bera ábyrgð á?

Hvernig var það t.d. með Líbíu? Var ekki Líbía látin sæta alþjóðlegum viðskiptalegum refsiaðgerðum um langt árabil af þeim sökum einum að Líbíumenn neituðu að framselja tvo meinta hryðjuverkamenn? Vissulega alvarlegt, en það var nú ekki stærra mál þó en það sem alþjóðasamfélaginu dugði til að réttlæta að halda heilli þjóð í viðskiptalegum refsiaðgerðum um langt árabil.

Hvað með Suður-Afríku? Það er flestra manna mál að pólitísk einangrun og viðskiptalegar refsiaðgerðir hafi átt sinn þátt í að fella ríkisstjórn kynþáttaaðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku, sem vissulega bar ábyrgð á skelfilegum hlutum. En er ekki kominn tími til að ræða það hvort ekki verði að fara að taka forustu fyrir því einhvers staðar á alþjóðavettvangi að skoða slíkar aðgerðir gagnvart Ísrael? Eða er það þá þannig að það megi bara beita slíkum aðgerðum ef viðkomandi ríki er ekki vinur Bandaríkjamanna og nýtur ekki skjóls eða stuðnings af þeim? Er það þá það þegar allt kemur til alls sem gerir það að verkum að menn ræða varla einu sinni í vestrænum stjórnmálum hugmyndir um slíkar aðgerðir gegn Ísrael?

Ég held að niðurstaðan af þessu og það er skoðun mín, frú forseti, að aðferðafræðin sem menn hafa almennt verið að beita í þessum efnum er röng, hún er röng. Það verður að færa áhersluna yfir á borgaralegar og fyrirbyggjandi aðgerðir ef ná á árangri í deilum þjóða, trúarhópa, menningarheima. Það verður að jafna og bæta lífskjör í heiminum og gefa því fólki á þeim svæðum þar sem ástandið er verst einhverja von um betri framtíð og eitthvað annað en að grípa til vopna og ofbeldis.

Norðurlöndin geta haft miklu hlutverki að gegna sem boðberar slíkrar hugmyndafræði. Hún er í raun sprottin héðan, frá Norðurlöndunum, því að það var á norrænum vettvangi sem menn fóru fyrst fyrir alvöru fyrir um tíu til fimmtán árum að ræða hugmyndafræði borgaralegra og fyrirbyggjandi friðaraðgerða, það sem stundum er kallað á sænskri tungu: „Civil och förebyggande åtgärder“.

Ég vil aðeins nefna það sem snýr að breytingum á högum okkar samfara gleðilegri brottför Bandaríkjahers af Íslandi og nefna aðeins tvennt. Það er í fyrsta lagi það sem snýr að aðgerðum okkar Íslendinga í framhaldinu og þá sakna ég þess að eitthvað sé talað um mengunarþáttinn og þá hreinsun sem ráðast þarf í og Íslendingar hafa nú með samningnum, sem vissulega má gagnrýna, tekið á sínar herðar að gera. Það hefur verið metið svo að það kunni að kosta 2–3 milljarða hið minnsta, en ekkert er vikið að því í ræðu ráðherra og ekki heldur, að ég sé, í skýrslunni. Ég spyr í öðru lagi — næst á eftir spurningu minni til ráðherra um hvort ríkisstjórnin ætli að biðjast afsökunar á stuðningi við Íraksstríðið vel að merkja, sem er formleg spurning af minni hálfu. — Verða fjárveitingar á fjárlögum næsta árs til að hefja hreinsunarstarfið eða á það bara að dankast eins og sumir hafa áhyggjur af?

Þær aðgerðir sem við Íslendingar þurfum svo að grípa til eru borgaralegs eðlis og þær hafa ekkert með einhverja hernaðar- eða vígbúnaðarhugsun að gera, enda hefur engum tekist að benda á neina sérstaka ógn sem réttlæti það að við förum að standa í slíkum æfingum, Íslendingar. Þegar menn svo draga upp hryðjuverkin og segja að þau hafi komið í staðinn og nú verði menn að vígbúast til að mæta þeim, ja, þá spyr ég á móti: Halda menn að það sé aðferðin? Halda menn að hefðbundin hernaðaruppbygging og hefðbundinn vígbúnaður sé lausn í sambandi við glímu við hryðjuverk? Ætli það nú? Ætli það sé ekki einmitt það sem eru einhver sterkustu rök sem hægt er að færa fram fyrir breyttri aðferðafræði í sambandi við öryggis- og friðarmál í heiminum, það er tilkoma skipulegrar hryðjuverkastarfsemi, vegna þess að hún er sprottin úr þeim jarðvegi sem er undirrót alls ills í heiminum. Skortur er á lýðræði, það er skortur á lífsbjörg og það er það ástand sem heilar þjóðir og heilir heimshlutar búa við að engin von er um betri framtíð. Það er ekki boðið upp á neina von. Eða hvaða von halda menn að þriðja kynslóð í flóttamannabúðum Palestínumanna eigi, þar sem þriðja kynslóðin er að alast upp við þann veruleika að vera lokuð inni í flóttamannabúðum og lifa á matarsendingum og fjárframlögum hjálparstofnana, þar sem er 100% atvinnuleysi og engin von um betri framtíð fyrr en örlar þá á einhverri lausn deilumála Ísraels og Palestínu?

Minnst er á það í ræðunni að 60 ár eru að verða liðin frá því að Ísland gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum og réttilega líka að Ísland var lengi minnsta sjálfstæða ríkið innan þeirra samtaka. Ég hef átt mér þá von lengi að Ísland minnist þeirrar stöðu sinnar og taki hlutverk sitt sem ein af forustuþjóðum smáríkja í heiminum alvarlega. Þar gæti Ísland virkilega skipt máli. Ég hef lyft þeirri hugmynd, meira að segja í bók, að Ísland bjóðist til að hýsa smáríkjastofnun Sameinuðu þjóðanna og stuðli að því að hún verði til með rausnarlegu framlagi sem gistiland þeirrar starfsemi. Það væri glæsilegt framlag af hálfu Íslands, að hér yrði byggð upp alþjóðastofnun sem gætti sérstaklega hagsmuna og réttinda smáríkja og minni mál- og menningarsvæða. Þá gæti orðið sómi að framgöngu okkar sem og sómi að því að við tækjum sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. En ég minni aftur á í sambandi við það mál að það sem mestu máli skiptir þar er ekki að lokum hvað það kostar eða með hvaða aðferðum við kunnum að komast þangað inn, heldur að fullur sómi verði að þátttöku okkar í starfinu ef við förum þangað inn. Að sú afstaða sem Ísland tekur verði okkur til sóma, að við verðum boðberar þeirrar jákvæðu stefnu í utanríkis- og alþjóðamálum sem sómi verður að, t.d. með því að vera alls staðar og ætíð boðberi lýðræðislegrar, friðsamlegrar alþjóðasamvinnu.

Hvað er það sem smáríkin eiga allt undir í heiminum? Það er að aðferðafræði valdbeitingarinnar, hnefaréttarins linni, vegna þess að smáríkin munu aldrei gæta hagsmuna sinna eða verja sig í heiminum hvorki með vopnavaldi né efnahagsvaldi. Það eru smáríkin sem eiga allt undir því að alþjóðasambandið sé lýðræðislegt og réttlátt og fari að alþjóðalögum. En stóru ríkin hafa tilhneigingu til þess að túlka þjóðarréttinn eins og þeim sýnist og virða hann stundum og stundum ekki.

Ég vil að lokum spyrja um þá nefnd sem hæstv. forsætisráðherra hefur rætt um að eigi að koma til sögunnar og móta stefnu á sviði utanríkis- og öryggismála: Stendur til að nefnd verði skipuð á næstunni með fulltrúum allra flokka, sem sannarlega er fagnaðarefni að slíkt verði endurvakið?

Að síðustu ætla ég að fagna gerð fríverslunarsamnings Íslendinga og Færeyinga og fagna því sérstaklega að nú verður stofnað embætti aðalræðismanns Íslands í Færeyjum með diplómatíska stöðu. Þá rifjast það upp fyrir mér að einhvern tíma hef ég nú sagt að eina sendiherraembættið sem ég kynni að hafa áhuga á að gegna — hef ekki verið áhugasamur um starf á þeim vettvangi í sjálfu sér sérstaklega — en einhvern tíma sagði ég að eina sendiherraembættið sem ég gæti í raun hugsað mér að sækja um væri að fá að verða fyrsti sendiherra Íslands í sjálfstæðum Færeyjum. Vonandi styttist í það að Færeyjar nái fullu sjálfstæði og að embætti aðalræðismanns Íslendinga breytist þá í sendiherraembætti, og þá kynni svo að fara að (Forseti hringir.) ég félli þá á eigin bragði og yrði að standa við orð mín og sækja um stöðuna.