133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:25]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég heyri að við getum verið sammála á ýmsum sviðum í þessum mikilvæga málaflokki sem varðar utanríkismál. Það kom mér svo sem ekki á óvart að hann og fleiri hafa saknað einhverra þátta úr þessari ræðu minni sem ég flutti áðan og telja að ég hafi átt að koma inn á mál sem varða Írak til dæmis. Það má svo sem alveg velta því fyrir sér hvort ástæða hefði verið til að vera með einhvern kafla í ræðunni um Írak.

Eins og ég hef sagt opinberlega eftir að ég fékk þetta mikilvæga embætti þá er það nú bara þannig að við höfum enga aðkomu að þeim málum í dag sem varða Írak. Það má hafa mörg orð um ástandið og sorglegt er að vita til þess hversu margir óbreyttir borgarar hafa látið lífið. Við getum velt því fyrir okkur hvort sú lýðræðisþróun sem þó allir eru að vonast til að muni eiga sér stað í þessu landi náist einhvern tímann.

En hv. þingmaður var að tala um að stjórnvöld ættu að biðjast afsökunar á því sem þarna átti sér stað og þeim stuðningi sem fólst í því að þremur spurningum var svarað játandi af hálfu fyrrverandi ráðamanna hér. Þessar spurningar voru í fyrsta lagi hvort leyfð yrðu afnot af Keflavíkurflugvelli. Önnur spurningin var hvort leyft yrði flug um íslenskt flugstjórnarsvæði. Þriðja spurningin var hvort við tækjum þátt í uppbyggingunni í Írak eftir að Saddam Hussein hefði misst völdin og verið hrakinn frá völdum. Þetta er málið í hnotskurn. Ég veit ekki alveg á hverju ætti að biðjast afsökunar nákvæmlega í dag (Forseti hringir.) vegna þess að spurningarnar sem svarað var játandi á þessari stundu voru bara þessar þrjár. Vissulega má segja að það þýði stuðning. Það hefur alla vega verið túlkað þannig.