133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:28]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er nú stærra mál en svo að einungis hafi verið svarað einhverjum þremur spurningum játandi um afnot af íslensku landsvæði og lofthelgi. Ísland lýsti yfir pólitískum stuðningi við þessar aðgerðir. Ísland var sett á listann yfir ríkin sem studdu aðgerðirnar. Ísland studdi þar með aðgerð sem fól í sér gróft brot á alþjóðalögum og hefur leitt til ómældra hörmunga, eins og varað var við.

Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, fyrrverandi hæstv. ráðherrar, báru ábyrgð á kúvendingu á stefnu Íslands á einum sólarhring bak við tjöldin því fram að því, þangað til tveimur dögum fyrir að nafn Íslands birtist á listanum, hafði utanríkisráðherra sagt að stefna Íslands væri: Meiri tími fyrir vopnaeftirlitið og ný ályktun í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þessari stefnu var kúvent. Þing og þjóð stóð allt í einu frammi fyrir því að þessir tveir menn höfðu misnotað nafn Íslands með þessum hætti. Það er ljótur blettur á stjórnmálasögu okkar og þátttöku í alþjóðasamstarfi. Þó seint sé eiga menn að biðjast afsökunar á því. Eða hvað? Finnst mönnum gaman að þetta standi svona þegar til dæmis breska læknatímaritið The Lancet á grundvelli alþjóðlegra viðurkenndra aðferða metur það svo að um 650.000 óbreyttir borgarar hafi látið lífið í Írak af völdum stríðsins? Sömu aðferðir og sömu aðilar hafa með stuðningi alþjóðasamfélagsins reynt að meta til dæmis mannfallið í Darfúr. Með sömu aðferðafræði er útkoman þessi fyrir Írak. (Gripið fram í.) Spurningin snýst um að Ísland, þó seint sé, geri mönnum það ljóst að við ætlum ekki að bera ábyrgð á þessu. Það er það sem við viljum fá hér fram, þ.e. formlega afsökunarbeiðni og stefnubreytingu sem verði gerð heyrinkunn á alþjóðavettvangi. Þó við eigum ekki beina aðild sem ríki að aðgerðunum í Írak núna þá skiptir það engu máli því það má nota sem rök og fjarvistarsönnun í mjög mörgum öðrum tilvikum. (Forseti hringir.) Þetta er grundvallarmál. Þetta er prinsippmál. (Forseti hringir.) Þetta er spurning um að menn hafi sjálfsvirðingu í alþjóðlegum samskiptum.