133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:33]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er eðlilegt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi áhyggjur af því hvað það kosti hafi orðið mengun á hersvæðinu á Suðurnesjum. Það var ríkisstjórn hans, sem hann sat í, sem samdi um að Bandaríkjamenn skyldu lausir allra mála að þessu leyti svo að hann ber á því pólitíska ábyrgð. Ég bið hann þó ekki um að biðjast afsökunar á því að hafa setið í þeirri ríkisstjórn þótt full ástæða væri til, eins og hún stóð sig.

Annars stóð ég ekki upp til að ræða það og heldur ekki til að endurtaka það sem ég sagði áður um Írak. Auðvitað hljótum við Íslendingar að stuðla að því að friður komist á eftir okkar litlu getu, þar eins og annars staðar. Ég tek undir þau orð sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að því leyti. Það hefur ævinlega verið grundvallaratriði fyrir Íslendinga að finna friðsamlega lausn á málum. Við viljum lýðræðislega lausn á málum og berjumst hvarvetna fyrir friði. Það er grundvöllur í okkar pólitísku afstöðu á alþjóðavettvangi og af þeim sökum höfum við unnið okkur traust.

Auðvitað lýsir sú ákvörðun að við gefum kost á okkur í öryggisráðið þeirri skoðun okkar að við, þótt smáir séum, getum staðið undir þeirri ábyrgð. Hv. þingmaður talaði um að smáþjóðasetur yrði sett á fót hér á Íslandi. Ætli þau séu ekki 96, smáríkin í Sameinuðu þjóðunum, 10 milljóna manna og minni. Þetta yrði myndarlegt setur fyrir allar þessar þjóðir. Ég vil endilega taka undir þessar hugmyndir og vinna að því ef hægt er.