133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:39]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þegar ég las ræðu hæstv. utanríkisráðherra í gær hnaut ég strax um það sem ekki var sagt og það er ansi margt í þessari skýrslu sem ekki er sagt og ekki er minnst á einu orði. Ég varð að lesa hana þrisvar, virðulegi forseti, til að trúa mínum eigin augum og ég varð að lesa hana aftur áðan til að leita enn staðfestingar á því hvort það gæti virkilega verið að hæstv. utanríkisráðherra Íslands kæmi fyrir Alþingi og flytti ræðu án þess að minnast einu orði á mesta hneyksli í utanríkismálum Íslands frá upphafi, sem er stuðningur ríkisstjórnarinnar við hina ólöglegu innrás í Írak. Ég trúði því ekki fyrr en ég tók á að hæstv. utanríkisráðherra ætlaði að láta það algerlega ógert að minnast á þennan skelfilega verknað. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég fylltist depurð en líka reiði þegar hæstv. utanríkisráðherra fór í andsvörum áðan að tala um lista hinna viljugu þjóða og talaði eins og íslensk stjórnvöld bæru ekki lengur neina ábyrgð á því að við Íslendingar værum á þessum lista vegna þess að þessi listi væri ekki til. Hvers konar röksemdafærsla er þetta eiginlega? Þetta er ekki boðlegt.

Hundruð þúsunda manna liggja í valnum. Fleiri hundruð þúsunda búa nú við örkuml. Landið logar í borgarastyrjöld. Það ríkir alger óöld í Írak. Þessi innrás hefur farið svo gersamlega úr böndunum að það eru allir farnir að viðurkenna það nema einstakir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands. Í raun og veru hafa allir spádómar um það hvernig þetta mundi fara áður en innrásin hófst orðið að veruleika og þetta hefur í rauninni farið miklu verr en nokkur gat ímyndað sér. Samt leyfa ráðherrar, sem settu Ísland á listann yfir hinar svokölluðu viljugu þjóðir að þjóðinni forspurðri, sér að koma ræðustól og tala hér blákalt eins og þetta hafi bara verið eitthvert smámál. Þetta er ekkert smámál, þetta er grafalvarlegt mál. Við Íslendingar berum ábyrgð á þessu. Við vorum settir á þennan lista sem notaður var til að réttlæta þessa ólöglegu, skelfilegu innrás í fullvalda ríki og við berum ábyrgð á því. Mér finnst alveg með ólíkindum að ríkisstjórnin skuli ekki geta viðurkennt þessi mistök, að hún skuli ekki geta beðið þjóðina afsökunar á þessum mistökum og lýst því yfir á alþjóðavettvangi að þetta hafi verið mistök sem hún harmi.

Það eru svo ótal margar sannanir fyrir því, og við þurfum ekkert að segja núna og getum heldur ekki sagt að auðvelt sé að vera vitur eftir á, því að við sáum það fyrir áður en innrásin hófst að menn væru að hrófla við púðurtunnu. Ástandið í Írak var mjög viðkvæmt. Ég er ekki draga neitt úr því að þar hafi verið harðstjórn. Að sjálfsögðu var þar harðstjórn, ógeðsleg harðstjórn, að sjálfsögðu voru brotin þar mannréttindi og að sjálfsögðu var fólk þar tekið af lífi án dóms og laga og fangelsað. (Gripið fram í: Og fjöldamorð.) Og fjöldamorð líka, það er alveg rétt. En við getum ekki losað okkur við slíkt með því að greiða það verð sem greitt hefur verið fyrir innrásina í Írak, við getum ekki leyft okkur það. Það voru mjög margar vísbendingar um að Saddam Hussein sæti í völtum sessi þegar þessi innrás hófst. Það voru líka mjög margar vísbendingar um að þau meintu gereyðingarvopn sem talað var um að væru til í Írak væru ekki til, að þær ásakanir sem haldið var á lofti gegn Írak væru allar byggðar á sandi.

Því miður var það svo að ákveðnir stjórnmálamenn, bæði í Bandaríkjunum, sem réðu þar ferðinni, og líka á Íslandi, vildu ekki hlusta á þessar staðreyndir. Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum vildu þeir ekki hlusta. En afleiðingarnar af innrásinni í þetta land hafa verið svo skelfilegar og eiga eftir að verða svo skelfilegar að það sem greitt hefur verið fyrir til að losna við Saddam Hussein og undirsáta hans í Írak er allt of dýru verði keypt, og við vissum það fyrir. Við vissum það fyrir að þetta mundi sennilega fara svona, að landið mundi loga í borgarastyrjöld og þetta færi allt á versta veg.

Virðulegi forseti. Það er annað í þessari skýrslu og ræðu hæstv. utanríkisráðherra sem ekkert er minnst á og það er að sjálfsögðu ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég hefði gjarnan viljað fá að sjá einhverjar hugleiðingar frá utanríkisráðherra Íslands um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og þá er ég að tala um ástandið í Ísrael, Palestínu og Líbanon. Þar hafa gerst mjög alvarlegir atburðir á þessu ári, innrás í Líbanon, stöðug átök milli Palestínumanna og Ísraelsmanna og þetta er að sjálfsögðu ástand sem kemur okkur Íslendingum við. Þetta er ástand sem er ógnun við jafnvægi og stöðugleika í heiminum. Þarna er ástand og aðstæður sem hugsanlega munu verða neistinn að næstu stórstyrjöld í heiminum. Það er ekkert flóknara en það. Og ég vísa því á bug að það sé gagnrýni vert, eins og kom fram hjá hv. þm. Birni Inga Hrafnssyni áðan, og röng leið að neita að hitta sendiherra Ísraels til að mótmæla framferði Ísraelsmanna í Palestínu. Það er ekki röng leið, það er útilokunarleið sem beitt er gegn stjórnvöldum sem taka ekki í raun lengur neinum rökum í málflutningi. Þessari aðferð var m.a. beitt með mjög góðum árangri gegn Suður-Afríku á sínum tíma. Það er fyllilega tímabært að farið sé að beita þessari aðferð gegn Ísrael, því að það sýnir sig að Ísraelsmenn vilja ekki hlusta á nein rök og halda bara áfram. Aðgerðir þeirra gegn Palestínumönnum eru ólöglegar. Hernámið í Palestínu er ólöglegt, múrinn skelfilegi, sem ég hef séð með eigin augum í Palestínu, er ólöglegur samkvæmt alþjóðalögum og aðgerðir Ísraelsmanna gegn Palestínumönnum eru engan veginn í samræmi við tilefnið, ef það er yfirleitt nokkurt tilefni. Jafnvel þótt Palestínumenn skjóti einhverjum eldflaugum inn á ísraelskt svæði er ekki hægt að réttlæta það að því sé svarað til baka með stórskotaliði, skriðdrekum og orrustuþotum. Það er ekki hægt að réttlæta það með árásum á íbúðahverfi Palestínumanna. Það verður að segjast eins og er. Þótt stríð sé viðbjóðslegt hljóta menn samt sem áður að setja mörkin einhvers staðar í þeim efnum.

Annað, virðulegi forseti, sem hæstv. utanríkisráðherra minnist hvergi á er Svalbarðamálið. Í fyrri ræðum utanríkisráðherra sem fluttar hafa verið á hinu háa Alþingi hafa utanríkisráðherrar upplýst þingið um hvernig þau mál standa en hæstv. núverandi utanríkisráðherra virðist ekki sjá neina ástæðu til að minnast á það einu orði. Hér er um að ræða mjög mikilvægt hagsmunamál okkar Íslendinga gagnvart nýtingarrétti og hugsanlegri aðkomu að nýtingu náttúruauðlinda í Íshafinu. Á þetta er ekki minnst einu einasta orði. Við fengum að heyra það frá hæstv. þáverandi utanríkisráðherra, Geir H. Haarde, í fyrra að málin væru í skoðun og að verið væri að vinna að lögfræðiáliti varðandi þessi mál með það hugsanlega í huga að stefna Norðmönnum fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag. Ég vil nota tækifærið, virðulegi forseti, til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvernig þessi mál standa núna, hvort ekki sé komin einhver niðurstaða í málin eftir að ríkisstjórnin er búin að vera að skoða þau í þó nokkuð mörg ár. Það hlýtur að vera komin einhver niðurstaða í þau og þingið hlýtur að eiga heimtingu á því að fá svör við þeirri spurningu hvernig þessi mál standa.

Virðulegi forseti. Fyrst farið er að tala um Svalbarða og Norðurhöf, sem eru náttúrlega svæði sem skipta okkur Íslendinga mjög miklu máli, þá verður að viðurkennast að hæstv. utanríkisráðherra kom aðeins inn á þau mál í ræðu sinni, ræddi m.a. um siglingar í Norðurhöfum. Það er alveg ljóst að siglingar um Norður-Íshafið eiga eftir að aukast mjög mikið á næstu áratugum. Það var haldin ráðstefna á Akureyri í ágúst síðastliðnum, Ísland í þjóðleið – Siglingar á Norðurslóðum og tækifæri Íslands, og í kjölfar þeirrar ráðstefnu var gefið út lítið greinasafn sem er fyrir margra hluta sakir afskaplega áhugavert. Þar kemur m.a. fram að olíuflutningar um Norður-Atlantshaf og hafsvæðið umhverfis Ísland munu aukast stórlega á næstu árum. Gísli Viggósson, forstöðumaður rannsókna- og þróunarsviðs Siglingastofnunar Íslands, benti m.a. á norska skýrslu þar sem segir að heildarmagn olíuflutninga með skipum frá norðvestanverðu Rússlandi, þ.e. Múrmansksvæðinu, sé áætlað um 80 millj. tonna árið 2015. Talað er um að 60% af því eða hvorki meira né minna en 48 milljónir tonna verði flutt vestur um haf til Bandaríkjanna og Kanada. Það þýðir, ef við erum að tala um 100 þúsund tonna olíuskip, að 500 fulllestuð skip munu sigla um íslensku lögsöguna á hverju ári aðra leiðina. Síðan þurfa þau að sigla til baka og þá sigla þau væntanlega með kjölfestu um borð.

Hér er á ferðinni stórmál og við Íslendingar hljótum að þurfa að líta á þessi mál mjög heildstætt, þ.e. málefni okkar varðandi Svalbarðasvæðið, sem skiptir mjög miklu máli, og málefni okkar varðandi siglingar um Norðurhöf. Við hljótum að líta á öryggismálin, við hljótum að líta á samskipti við aðrar þjóðir. Norðmenn hafa gefið til kynna að þeir hafi hugsanlega áhuga á að eiga við okkur einhvers konar samstarf í þessum efnum og ég hygg að hagsmunir okkar og Norðmanna fari mjög saman hvað þetta varðar. Því tel ég mjög mikilvægt að við náum lendingu í Svalbarðamálinu, náum einhverri sátt um það eða niðurstöðu því það mál snýr einkum og sér í lagi að Norðmönnum. Thorbjörn Jagland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs og fyrrverandi formaður norska verkamannaflokksins og núna forseti norska Stórþingsins, var hér á Íslandi á dögunum. Hann hitti þá m.a. okkur formenn þingflokkanna og við áttum við hann afskaplega áhugaverðar umræður. Ég beindi þó til hans þeirri spurningu og þeim athugasemdum hvort við gætum ekki einmitt átt nánara samstarf, þ.e. við Íslendingar og Norðmenn, í þessum efnum.

Thorbjörn Jagland tók mjög jákvætt í þetta og ég hygg að hann hafi kannski farið heim til baka til Noregs með fleiri hugmyndir í kollinum varðandi þessi efni en hann hafði þegar hann kom hingað. Ég vona að íslensk stjórnvöld leiti leiða til að ná einmitt eins konar samkomulagi eða samvinnu við Norðmenn í þessum efnum því að hér fara saman mjög miklir hagsmunir, í raun og veru sameiginlegir hagsmunir okkar Íslendinga og Norðmanna varðandi þessa hluti.

Olíuvinnsla í Barentshafi er að fara á fullt skrið. Sennilega mun olíuvinnsla og gasvinnsla einnig hefjast við Svalbarða áður en langt um líður og það er alveg ljóst að flutningar og annað varðandi þá starfsemi mun fara fram í gegnum íslenska lögsögu því að stærstu markaðirnir fyrir þessar afurðir er sannarlega í Norður-Ameríku, Mið-Ameríku og jafnvel Suður-Ameríku. Hér er því á ferðinni mjög stórt og mikilvægt mál.

Tími minn er senn á þrotum, virðulegi forseti. Það eru miklu fleiri atriði sem ég hefði viljað minnast á og ræða um, þ.e. atriði sem hæstv. utanríkisráðherra talar um í ræðu sinni og eru virkilega þess virði að vera rædd í þessum ræðustól. Til að mynda hefði ég viljað ræða nánar brotthvarf Bandaríkjahers og ég hefði viljað nota tækifærið hér til að beina því að utanríkisráðherra hvort ekki sé rétt að íslensk stjórnvöld íhugi betur stöðu þeirra sem störfuðu á Keflavíkurflugvelli á sínum tíma. 600 manns misstu vinnuna þegar Bandaríkjaher hvarf af landi brott og mér finnst íslensk stjórnvöld, ríkisstjórnin, engan veginn hafa staðið sig í því að aðstoða þetta fólk og fylgja því eftir og sjá til þess að það þyrfti ekki að bera skarðan hlut frá borði. Ég hef staðfestan grun um að mjög margir þeirra sem unnu á Keflavíkurflugvelli — þótt þeir hafi fengið ný störf eftir að hafa hætt á vellinum þar sem þeir unnu mjög gott og mikilvægt starf, ekki bara sem starfsmenn Bandaríkjahers heldur líka sem starfsmenn okkar Íslendinga, við að vinna að vörnum og öryggi landsins — hafi í raun og veru borið skarðan hlut frá borði, þ.e. að þau störf sem þeir fengu í staðinn séu ekki jafngóð, jafntrygg og líklega ekki jafn vel borguð og störfin sem þeir höfðu áður. Það hefði verið ánægjulegt ef íslensk stjórnvöld hefðu haft manndóm í sér til að fylgja þessu ágæta fólki betur eftir. Nóg um það, virðulegi forseti.

Tími minn er á þrotum og ég hlýt því að ljúka ræðu minni með ósk um að verða settur aftur á mælendaskrá því að enn eru hvergi útrædd hér í dag utanríkismál Íslands.