133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:47]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu um margt. Hann nefndi sérstaklega norrænu víddina og mikilvægi þess að efla samstarf norrænu þjóðanna í Evrópusamstarfinu og ég tek undir það með honum. Nú í haust sat ég fund um norðurskautsmálefnin, nyrst í Svíþjóð, með hv. þingmanni og fleiri alþingismönnum héðan frá Íslandi. Það var mjög athyglisvert.

En því vildi ég spyrja hann þeirrar grundvallarspurningar hvort eina leiðin til að efla hina norrænu vídd í Evrópusamstarfinu til framtíðar og varanlega, þannig að rödd Norðurlandanna verði þar samstillt og há og eftir henni verði tekið og við höfum þar þau hámarksáhrif sem við getum hugsanlega haft í Evrópusamstarfinu, sé sú að Ísland og Noregur sæki um aðild að Evrópusambandinu og gerist þar fullir aðilar rétt eins og Danmörk, Finnland og Svíþjóð eru nú.

Er það ekki eina leiðin til að efla raunverulega hina norrænu rödd, efla hina norrænu vídd í Evrópusamstarfinu þannig að það skipti máli og kveði að og sé varanlegt fyrirkomulag þannig að við höfum þar hámarksáhrif? Þjóðirnar tvær sem enn þá standa utan Evrópusamstarfsins að því leyti að þær eru ekki fullir aðilar og veikja þar með verulega samstarf norrænu þjóðanna í Evrópusambandinu, þær þurfi þá að sækja um aðild innan einhverra missira eða ára, þó það sé kannski ekki spurning um mánuði og ár.