133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:55]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til þess að tæpa á nokkrum atriðum helstum hér í þessari umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál, haustskýrslu hæstv. ráðherra. Tíminn gefur varla tilefni til annars en að ræða fá atriði þó að í raun sé margt undir, og kannski allt, eins og kemur fram hér í ræðum hv. þingmanna. Við erum í raun farin að tala um innanríkismálin þegar við erum að tala um alþjóðamálin af því að kannski eru þetta allt sömu málin þegar allt kemur til alls.

Hæstv. ráðherra gerði í upphafi ræðu sinnar að umtalsefni loftslagsbreytingarnar sem eru að verða. Ég ætla ekki að gera þær að aðalmáli minnar ræðu en vek athygli hv. þingmanna á því að fyrr í dag sagði Kofi Annan, fráfarandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, á fundinum sem nú stendur yfir í Naíróbí í Keníu um loftslagsmálin að það væri honum mikið áhyggjuefni að enginn í alþjóðasamfélaginu hefði tekið forustu um þetta mikilvæga mál, af mörgum talið mikilvægasta mál samtímans og þessarar aldar sem nú er nýhafin. Ég leyfi mér að vitna í frétt af ræðu fráfarandi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, með leyfi forseta:

„Það verður sífellt greinilegra að það mun kosta minna á endanum að draga úr útblæstri núna en það að þurfa að mæta afleiðingum þess síðar,“ sagði Kofi Annan við þetta tækifæri.

Þetta eru orð í tíma töluð. Oft er sagt að smáríki hafi ekki mikla vigt á vettvangi alþjóðamálanna. Ég hef reyndar alltaf verið því ósammála, og er því ósammála. Ég tel að einmitt í þessum málum, málum sem varða allt mannkyn, hvort sem við erum að tala um loftslagsbreytingar, fátækt, mannréttindi, baráttuna fyrir mannréttindum og baráttuna gegn fátækt geti Ísland lagt jafnmikið ef ekki meira til málanna en margur annar. Það ætti að vera metnaðarmál okkar að ganga þar fram með góðu fordæmi, sérstaklega í loftslagsmálunum, nú um stundir. Þó að það sé góðra gjalda vert að halda ráðstefnu um hugsanlega opnun siglingaleiða í Norður-Íshafi — sem vafalaust verður ef hlýnunin heldur áfram sem fram horfir og auðvitað þurfum við að búa okkur undir þær breytingar eins og allar aðrar breytingar sem gætu orðið — verður að fara að líta dagsins ljós heildarstefna stjórnvalda um það hvernig eigi að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Ég ætla að láta þetta nægja um loftslagsmálin, herra forseti.

Hæstv. ráðherra gerir hér að umræðuefni samninginn sem gerður var á haustdögum við Bandaríkjastjórn um áframhaldandi varnarsamstarf þjóðanna tveggja þar sem Bandaríkjastjórn tók að sér varnir landsins, eins og hún hefur gert í rúmlega 50 ár. Eins og fram hefur komið er um þennan samning lítið vitað nema þau einstöku atriði sem gerð hafa verið opinber í fjölmiðlum og svo auðvitað á fundi hv. utanríkismálanefndar þó að það verði að segjast eins og er að þar er yfirleitt sagt frá hlutunum þegar þeir eru um garð gengnir. Svokallað samráð hefur frekar öfugsnúna merkingu.

Það virðist hins vegar vera þannig með hæstv. ríkisstjórn … Ég geri mér grein fyrir því að aðrir ráðherrar en Valgerður Sverrisdóttir hafa setið í ráðuneyti utanríkismála á síðustu missirum og árum. Þeir hafa reyndar verið svo margir að maður er hættur að hafa tölu á þeim. En hvað um það. (Gripið fram í.) Já, svo kom Davíð Oddsson, svo kom Geir Haarde, svo kom Valgerður Sverrisdóttir og væntanlega verður nýr ráðherra kominn í vor. Þetta eru þó nokkur umskipti. En það breytir því ekki að í næstum einn og hálfan áratug hafði ríkisstjórnin tóm til þess að búa sig undir það sem verða vildi og það sem allir vissu að yrði. En ríkisstjórnin er kannski svolítið eins og þjóðin er, eins og landinn er, það kemur henni alltaf jafnmikið á óvart á hverju hausti þegar það frystir og fer að snjóa og menn eru ekki komnir með vetrardekkin undir. Að því leyti til má virða ríkisstjórninni það til vorkunnar að hún endurspeglar kannski ákveðið fyrirhyggjuleysi sem því miður einkennir ýmislegt í fari okkar Íslendinga.

Hins vegar hafði verið mjög mikið rætt um þessi mál á hinu háa Alþingi og hefur verið á undanförnum árum, m.a. lögð fram þingmál af hálfu Samfylkingarinnar um það hvernig standa ætti að mótun stefnu um öryggismál, að meta varnarþörf landsins, að meta hvaða hættur steðja í raun að okkur í upphafi nýrrar aldar. Það var ekki gert þrátt fyrir tillögu okkar og virðist aldrei hafa í raun einu sinni komið til greina hjá hæstv. ríkisstjórn að taka upp slík vinnubrögð.

Nú á að gera það og það er vel. Hins vegar er tilkynnt um að einhvers konar samráð eigi að vera um framhaldið, m.a. um, eins og sagði í ræðu hæstv. ráðherra, með leyfi forseta, endurskoðun sem „kallar á yfirvegaða og vandaða umræðu um hvernig best megi sinna öryggis- og varnarþörf landsins. Þetta mál er mikilvægara en svo að afgreiða megi með flimtri eða innantómu pólitísku karpi,“ hef ég orðrétt upp úr ræðu hæstv. utanríkisráðherra. Þetta eru sannarlega orð í tíma töluð en heldur seint á ferðinni miðað við í hvaða stöðu við erum í þessum málum.

En gott og vel, þessari ríkisstjórn hefur látið annað betur en að taka ráðum eða hugmyndum stjórnarandstöðunnar opnum örmum og gera eitthvað með það. Kannski er hún þess vegna komin út í það horn sem hún er komin í í öryggismálum landsins og kannski urðu þess vegna samningarnir við Bandaríkjastjórn það klúður sem þeir eru frá upphafi til enda, herra forseti. En nú ætla menn að gera yfirbót og því ber að vissu leyti að fagna með einhverjum hætti.

Hæstv. ráðherra talaði um að allir stjórnmálaflokkar ættu að taka þátt í stefnumótun og því fræðasamfélagi sem þyrfti hér að koma á fót. Mig fýsir að vita hvað hæstv. ráðherra hyggist gera til þess að koma á fót slíku fræðasamfélagi. Í tillögu Samfylkingarinnar um þessi mál var lagt til að við mundum setja á fót einhvers konar friðar- og öryggisstofnun. Ég sé fyrir mér að það gæti verið rannsóknastofnun um friðar- og öryggismál, sjálfstæð stofnun með ríkisframlagi og tengslum við háskólana í landinu og jafnvel erlenda háskóla. Með þeim hætti gætum við viðað að okkur upplýsingum og þekkingu og unnið úr og búið hér til raunverulegan grundvöll til að standa á í friðar- og öryggismálum. Það væri gott að vita hvort hæstv. ráðherra hefur eitthvað slíkt á prjónunum eða eitthvað meira um það að segja en fram kom í máli hennar áðan.

Eins og nokkuð hefur verið rætt hér í dag var í ræðunni ekki mikið minnst á stöðuna í Írak. Maður trúir því varla að hæstv. utanríkisráðherra á Íslandi, fulltrúi stjórnvalda sem studdu innrásina í Írak, komi hér upp og nefni landið ekki á nafn. Eins og allir vita ríkir mikil óöld í Írak. Það er talað um að landið sé á barmi borgarastyrjaldar. Ég tel reyndar að þar ríki borgarastyrjöld. Þar hafa mörg hundruð þúsund manns látið lífið á síðustu tæpum fjórum árum og sér ekki fyrir endann á óöldinni og stjórnleysinu sem þar ríkir.

En enn er það svo að ríkisstjórn Íslands telur enga ástæðu til að draga til baka stuðning sinn við þetta stríð eða með einhverjum hætti biðjast afsökunar á því að hafa stutt þetta feigðarflan. Þetta er að verða eins og á 8. áratugnum, heimsbyggðin gervöll var hætt að styðja stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Víetnam. Eftir stóðu hverjir? Jú, ríkisstjórn Íslands á þeim tíma og líklega ritstjóri Morgunblaðsins.

Hér ætlar þetta að verða eins. Þegar Bandaríkjamenn sjálfir, bæði stjórnvöld og almenningur þar í landi, hafa séð í gegnum blekkingarnar og falsanirnar sem voru bornar á borð fyrir fólk til að fá stuðning við þessa innrás sem enginn grundvöllur var fyrir sitja enn uppi á Íslandi menn sem styðja það með ráðum og dáð en telja sig þó ekki bera neina siðferðilega ábyrgð í málinu. Þetta er næstum því óskiljanlegt, hæstv. forseti.

Í fullri vinsemd og virðingu ætla ég að ráðleggja hæstv. utanríkisráðherra að kynna sér rannsóknir t.d. bandarískra rannsóknarblaðamanna um hvernig það atvikaðist innan bandaríska stjórnkerfisins að farið var í innrásina í Írak. Þeir hafa skrifað um það bækur og hér er ein sem heitir Hubris sem þýðir hroki eða ofdramb. (Gripið fram í.) Hæstv. forseti. Ég er að reyna að upplýsa ráðherrann. Hroki eða ofdramb, bók um það hvernig staðið var að því að ráðast inn í Írak.

Ég velti fyrir mér þegar allt þetta liggur fyrir hvers vegna íslenskir ráðamenn sjá ekki að sér. Hvað veldur því að menn standa hér enn í ræðustóli Alþingis haustið 2006 og verja ákvörðun, líklega tveggja hæstv. ráðherra, um það að styðja þetta stríð? Fyrir hvað stendur þetta fólk í pólitík, herra forseti? Hvaða hagsmuni er hér verið að verja? Hvers vegna sjá menn ekki að sér, biðjast afsökunar og horfast í augu við mistök sín?

En væntanlega mun það ekki gerast í tíð þessarar ríkisstjórnar og væntanlega verður það hlutverk næstu ríkisstjórnar að reyna að viðra út í ráðuneyti utanríkismála og reyna að koma utanríkisstefnu Íslands aftur á réttan kjöl hvað þetta varðar.

Að öðru, hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra hefur sett af stað endurskoðun á lögum um Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Það er vel. Það er líka mál sem við jafnaðarmenn höfum margoft mælt fyrir á hinu háa Alþingi, þingsályktunartillaga um stefnumótun í þróunarsamvinnu. Ég sé ekki betur en að hæstv. utanríkisráðherra taki þar upp mjög veigamikil atriði sem við höfum lagt áherslu á og talað fyrir, árum saman vil ég segja, með áherslu á kjör kvenna og barna í fátækustu löndum heims og áherslu á að endurskoða þurfi lögin sem eru 25 ára gömul og svara alls ekki kalli samtímans um það hvernig best sé að vinna saman að því að útrýma fátækt í heiminum. Það er gott.

Þessu þurfa líka að fylgja skýr markmið um það hvert við viljum fara í þessum efnum. Hæstv. ráðherra hefur ekki talað um þau beinum orðum og ég velti fyrir mér hvort endurskoðun laganna eigi einungis að vera einhvers konar lagatæknileg endurskoðum með tilliti til tvíhliða aðstoðar eða fjölhliða, eða fjölþjóða eins og það er orðað, eða hvort hér eigi að fara í skýra markmiðssetningu í þróunarsamvinnu.

Hæstv. forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum. Ég þarf greinilega að koma aftur upp til að ljúka máli mínu (Forseti hringir.) hér í dag.