133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:11]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég minnist þess að fyrir ári, þegar utanríkismál voru hér til umræðu, hafði hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sérstakt orð á því að menn ættu ekki að rifja upp atburði kalda stríðsins og það sem gerðist á þeim tíma. Hún taldi að menn ættu að vera mjög í nútíðinni.

Nú tók ég eftir því að hv. þingmaður veittist að Bandaríkjamönnum vegna stríðsins í Víetnam og væntanlega þá líka vegna þess að Vesturveldin stóðu á móti yfirgangi Sovétríkjanna og fylgiríkja þeirra.

Maður getur hins vegar spurt sig nú eins og komið er hvort það fólk sem helst hefur staðið í varnarstöðu fyrir Sovétríkin og þær hugsjónir sem þau stóðu fyrir eigi ekki að biðjast afsökunar á framkomu sinni. Hv. þingmaður veifaði hér bók framan í hæstv. utanríkisráðherra. Ég á í fórum mínum bók sem fjallar um það hvernig Jóhannes Páll páfi, Margrét Thatcher og Reagan áttu með staðfestu sinni og ákveðni í því að standa fast gegn Sovétríkjunum mestan þátt í hruni Sovétríkjanna sem enginn getur harmað.

Ég stóð upp, herra forseti, aðeins til að vekja athygli á því að það er eins og hv. þingmaður hafi enn þann dag í dag mikla samúð með Sovétríkjunum og þeim hugmyndaheimi sem hrundi með þeim. Víetnam-stríðið er dæmi um það.

Ég hygg að ef við förum um þau ríki Austur-Evrópu og víða annars staðar þar sem kommúnisminn var við völd hljótum við í dag viðurkenna að þeir sem stóðu gegn þessu ógnarveldi höfðu rétt fyrir sér.