133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:30]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka skýrslu utanríkisráðherra, þetta er fyrsta skýrsla hennar í þessu embætti og hún ber vissulega vott um breytingar sem fylgja, eðlilega, mannabreytingum á slíkum stöðum. Það verður að segjast eins og er og taka undir með þeim sem hér hafa talað á undan mér að skýrslan er jákvæð að mörgu leyti og áferðarfalleg við fyrstu sýn.

Ég verð þó, þó að ég ætli ekki að gera það að aðalumfjöllunarefni mínu hér, að minnast aðeins á tóninn sem þar er að finna varðandi loftslagsbreytingarnar. Ég tek undir það sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði um þau efni, mér hugnast ekki sú tilhlökkun sem skín þar í gegn að hlýnandi loftslag muni vera svolítið spennandi fyrir okkur Íslendinga vegna þess að nýjar siglingaleiðir muni opnast fyrir norðan okkur. Eitt er víst, virðulegur forseti, ef svo verður og þegar til þess kemur munu margar aðrar breytingar fylgja og það verður að taka myndarlega á hér í mengunarvörnum þegar olíuskipin stóru fara að fara fyrir norðan okkur. En það var ekki mikið um þetta fjallað í skýrslunni og ég ætla að snúa mér að öðrum efnum í henni.

Eins og ég sagði er skýrslan með nokkuð mýkra yfirbragði en oft hefur verið. Hún er full fyrirheita um breyttar áherslur og stefnumótun í brýnum málaflokkum, svo sem þróunaraðstoð, svokallaðri friðargæslu og mannréttindamálum. Það hins vegar hversu djúpt er á aðgerðum og fjárveitingum í þeim efnum og einnig vekur það sem ekki er nefnt á nafn í skýrslunni ákveðnar grunsemdir.

Það er mikið rætt um grænþvott þessa dagana. Í þessari skýrslu, virðulegi forseti, horfum við á hvítþvott þar sem þögn um óþægilegar staðreyndir og fögur fyrirheit þjóna þeim markmiðum einum að fegra ímynd Íslands á alþjóðavettvangi í tilefni af framboði Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Og svo sannarlega veitir ekki af. Núverandi ríkisstjórn setti smánarblett á heiður vopnlausrar þjóðar þegar hún skipaði sér í hóp hinna staðföstu ríkja og studdi innrásina í Írak, blett sem erfitt verður fyrir þessa sömu ríkisstjórn, þrátt fyrir nýjan utanríkisráðherra, að þvo af nema með því að biðja Íraka og alþjóðasamfélagið afsökunar. Innrásin í Írak og ástandið þar er hvergi nefnt í skýrslu ráðherrans eins og hér hefur ítrekað verið bent á í dag og þá er heldur ekki nefnd á nafn yfirvofandi stefnubreyting bandarískra stjórnvalda í málefnum Íraks vegna afsagnar Donalds Rumsfelds og með sigri demókrata í kosningunum vestra á dögunum. Þögnin um þennan þekkta hornstein í utanríkisstefnu Íslendinga, þ.e. þjónkunina við bandarískt hervald, er hrópandi í þessari skýrslu ráðherrans.

Kosningar til öryggisráðsins eiga ekki að fara fram fyrr en á árinu 2008 og nú leita menn eftir stuðningi víða um heim. Stuðningur fékkst í vikunni frá stjórnvöldum í Ísrael og þá er komið að öðru atriði sem hvergi er minnst á í ræðu utanríkisráðherra, þ.e. ástandið í Palestínu og áralangt og gegndarlaust ofbeldi Ísraelsmanna þar gegn óbreyttum borgurum sem hefur leitt til þess að innviðir samfélagsins eru að hruni komnir og brostnir.

Hæstv. utanríkisráðherra boðar í ræðu sinni endurskoðun laga um þróunaraðstoð, að sett verði lög um svokallaða friðargæslu og að friðargæslunni verði settar siðareglur. Einnig hyggst ráðherrann móta heildstæða stefnu í mannréttindamálum á alþjóðavettvangi. Ég sakna þess helst að ráðherrann minntist ekki í þessu sambandi á inntak ræðu sinnar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í haust þar sem aðaláherslan var einmitt á þróunarmál enda skiptir miklu máli að Ísland hljóti stuðning í stórum hópi þeirra ríkja eigi nokkur von að vera um sæti í öryggisráðinu. Á þingi Sameinuðu þjóðanna sagði ráðherrann m.a. að Ísland vildi axla ábyrgð í þróunarmálum og að við stefndum að því eftir árið 2009 að ná markmiði Sameinuðu þjóðanna um að iðnríkin verðu 0,7% af þjóðartekjum sínum til þróunarhjálpar.

Um þetta atriði í ræðu ráðherrans sagði í leiðara Morgunblaðsins 28. september sl., með leyfi forseta:

„Með framboði sínu til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, kosningabaráttunni, opnun vefsíðu o.s.frv. hefur Ísland beint kastljósinu sem aldrei fyrr að því hvernig það stendur að þróunarmálum. Það þýðir að fleiri en áður vita að við höfum góð áform, en þeir vita líka að eins og er stendur eitt ríkasta land í heimi flestum öðrum þróuðum ríkjum að baki í stuðningi við hin fátæku þróunarlönd. Það verður eftir því tekið, hvort við stöndum við stóru orðin.“

Virðulegur forseti. Það mun koma í hlut nýrrar ríkisstjórnar að standa við stóru orðin ráðherrans á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og uppfylla skyldur, 35 ára gamlar samþykktir Alþingis og 36 gömul markmið hinna Sameinuðu þjóða. Það er vissulega tilhlökkunarefni, ekki vegna framboðs til öryggisráðsins eða atkvæðaveiða á þeim vettvangi heldur málefnisins vegna, að takast á við það verkefni. En það veltur á því hvort hér verður skipt um ríkisstjórn í næstu kosningum.

Það er þó fleira í þessu máli varðandi þróunaraðstoðina, virðulegur forseti, sem vert er að staldra við. Í skýrslu sinni segir hæstv. ráðherra réttilega að samstaða hafi ríkt um þróunaraðstoðina sem slíka. Hins vegar hefur ekki ríkt samstaða um þessar nánasarlegu fjárveitingar til þróunaraðstoðar og svik við samþykktir Sameinuðu þjóðanna sem ég nefndi áðan. Það hefur heldur ekki ríkt samstaða um að ekki hafi verið staðið við áætlun Alþingis frá 1985 um að ná þessu marki þá á sjö árum, þ.e. á árinu 1992.

Virðulegur forseti. Það ríkir alls engin samstaða um þær bókhaldskúnstir ríkisstjórnarinnar að færa framlög til svokallaðrar friðargæslu á þróunaraðstoð. Í ræðu ráðherrans kom því miður skýrt fram að til stendur að flækja svokallaða friðargæslu enn frekar í hernaðarnet NATO með aukinni samvinnu þar um án þess að nýjar áherslur ráðherrans, sem vert er að fagna, um að konur komi þar til frekari starfa, breyti neinu þar um.

Í umræðum um boðaðar lagabreytingar vegna þróunaraðstoðar og svokallaðrar friðargæslu munu væntanlega koma fram ólík viðhorf og áherslur, til að mynda okkar, vinstri grænna, og ríkisstjórnarflokkanna. Þá mun verða tekist á um þá hugmyndafræði sem að baki býr, annars vegar vopnaða friðargæslu undir stjórn hernaðarbandalagsins NATO og hins vegar eiginlega þróunaraðstoð, borgaralega aðstoð við fólk í neyð og aðstoð til sjálfshjálpar. Það er tími til kominn að um þau mál verði fjallað á Alþingi og þess vegna fagna ég sérstaklega áformum ráðherrans um að endurskoða lög um þróunaraðstoð og setja lög um starfsemi þessarar svokölluðu friðargæslu.

Virðulegur forseti. Á árinu 2005 var fjöldi þess fólks sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna á samkvæmt skilgreiningu að sinna orðinn 19,2 milljónir manna víðs vegar um heiminn. Árið 2004 var fjöldinn 17 milljónir þannig að hlutfallsleg aukning á milli ára var 13%. Ástæður þessarar aukningar voru aðallega fólk sem var vegalaust innan síns fæðingarlands og einnig ríkisfangslaust fólk, fólk sem er mjög illa statt. Því nefni ég það, virðulegur forseti, að á þennan stóra hóp jarðarbúa í mikilli neyð, hóp sem er í rauninni stærri en þessar tæpar 20 milljónir manna — heildarfjöldi fólks sem hefur flosnað upp frá heimilum sínum víða um heim er áætlaður yfir 40 milljónir manna, um 0,6% af íbúafjölda jarðar — er ekki minnst í skýrslu ráðherrans. Sakna ég þess. Hver skyldi skýringin vera? Skyldi hún vera sú að við getum ekki talist góð fyrirmynd á þessu sviði? Getur ástæðan verið sú að við höfum í vaxandi mæli skellt hurðum okkar í lás þegar heimilislaust og ríkisfangslaust fólk knýr hér dyra og vísað því á guð og gaddinn, og þar með ábyrgð okkar á þessum vanda?

Vissulega hafa Íslendingar af og til tekið við sérvöldum hópum flóttamanna. En það er dapurlegt að frá því að við tókum við fyrsta hópnum 1956 hygg ég að við höfum ekki tekið við fleirum en kannski 500 manns allt í allt. Ég hef lagt fram fyrirspurn til skriflegs svars til dómsmálaráðherra um það hver hafi orðið afdrif hælisleitenda hér á undanförnum árum. Því miður, þó að ég viti auðvitað ekki svarið því að það hefur ekki borist enn, sem eðlilegt er, tel ég víst að engin 13% aukning hafi orðið á þessum fjölda hjá okkur á milli ára enda þótt vegalausum flóttamönnum fjölgi um það í heiminum.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur lýst því yfir að hún hyggist leggja áherslu á konur í friðargæslu og þróunaraðstoð og þar með hverfa frá hinum karllægu og hernaðarlegu gildum. Er það vel. Ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2000, nr. 1325, um konur, frið og öryggi, er grundvallarályktun þar sem staðfest er að konur hafi vissulega hlutverki að gegna, hvort heldur er við að fyrirbyggja átök og stríð, í friðarumleitunum, í friðargæslu raunverulegri og ekki síst í uppbyggingu að átökum loknum. Tíföldun framlags til UNIFEM hefur verið starfi samtakanna mikils virði, vakið athygli og verið góð fyrirmynd fyrir önnur ríki. Það er hins vegar nöturlegt, virðulegur forseti, að á sama tíma skulum við bera ábyrgð á því að í Írak þjást konur og börn vegna eyðileggingar á vatnsveitum, rafveitum, vegasambandi og skolplögnum. Það er ljóst að stríðið hefur ekki frelsað konur í Írak.

Ég nefni þetta sérstaklega hér sem ég sagði um flóttamennina áðan vegna þess að vandi flóttamanna er vandi kvenna. 80% af öllum flóttamönnum í heiminum í dag eru konur og börn. Ef Íslendingar ætla sér að standa undir nafni í því að styðja við konur í heiminum í sínu starfi í þróunarhjálp er einfaldlega ekki hægt að láta eins og flóttamannavandinn sé ekki til.

Ég nefndi í upphafi að víða í ræðu ráðherrans er að finna góð áform og vissulega mýkri ásýnd en oft áður. Það er hins vegar ljóst að við þurfum að gera betur í mörgum málaflokkum ef við ætlum okkur að vera fyrirmynd í stríðshrjáðum heimi. Framboð til öryggisráðsins hefur beint kastljósinu að íslensku samfélagi og utanríkisstefnu íslenskra stjórnvalda og því hvernig við förum fram á alþjóðavettvangi. Það verður spurt um afstöðuna í öllum málum, stórum og smáum. Það verður líka spurt um Írak, það verður spurt um Palestínu, það verður spurt um flóttamenn og það verður spurt um hælisleitendur.