133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:47]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal svo sannarlega taka undir það með ráðherranum að vonandi kemur betri tíð með blóm í haga í Írak en hún er því miður ekki handan við hornið. Við Íslendingar höfum ekki gert mikið til að tryggja að svo verði.

Auðvitað vilja menn í Írak sem annars staðar lýðræði og frelsi. Ætli við Íslendingar mundum ekki afþakka pent það lýðræði og frelsi sem verið er að innleiða þarna með hervaldi og drápum á óbreyttum borgurum? 650 þúsund manns, óbreyttir borgarar, eru talin hafa fallið frá því að stríðið hófst, frá því að við leyfðum þessu stríði að hefjast. Svei mér þá, það er sama hvaðan kúlan kemur, hvort hún kemur frá hermdarverkamönnum eða einhverjum sem eru undir einhverju sem á að heita löggiltur her, það er nákvæmlega sama. Það eru 650 þúsund manns fallin og þessu verður að linna.