133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:49]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og segja að ég styð breyttar áherslur Íslensku friðargæslunnar og að ásýnd hennar verði milduð. Með því er hægt að ná breiðari samstöðu um þá starfsemi. Einnig stingur í stúf að herlaus þjóð taki að sér verkefni sem krefjast vopnaburðar. Við eigum einfaldlega að forðast það eins og heitan eldinn. Við eigum að nýta reynslu okkar og þekkingu á öðrum sviðum, svo sem að styðja verkefni á sviði stjórnunar, heilbrigðis og björgunar. Það stendur okkur miklu nær en eitthvert vopnaglamur.

Ég vil einnig nota tækifærið og fagna fríverslunarsamningi við Færeyinga. Ég tel jafnframt mjög nauðsynlegt að við náum svipuðum samningum við okkar næstu nágranna í vestri, Grænlendinga. Grænland er svo sannarlega land tækifæranna, ríkt af náttúruauðlindum og þar eru einnig gríðarleg tækifæri á sviði ferðamennsku sem við gætum eflaust komið þeim til hjálpar við að nýta sér.

Við í Frjálslynda flokknum erum alfarið andvíg því að Ísland sé í þessu framboðsbrölti til að taka að sér sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Afstaða okkar í Frjálslynda flokknum markast af því að verkefni ráðsins eru m.a. að rannsaka deilur þjóða á milli og ástand sem getur leitt til stríðsátaka. Ráðið á einnig að leita sátta og finna lausn deilumála. Öryggisráðið á m.a. að skera úr um hvort heimilt sé að beita þjóðir heimsins þvingunum, hvort stríðsátök séu réttlætanleg. Ég tel einfaldlega, og er sannfærður um það, að slík verkefni henti ekki íslenskum stjórnvöldum.

Með réttu má einfaldlega efast um íslensk stjórnvöld hafi á að skipa sérfræðingum á sviði hernaðar- og alþjóðamála til þess að geta metið hvort réttlætanlegt sé að fara með ófriði á hendur öðrum þjóðum. Mér finnst það bara ekki vera við hæfi að íslensk stjórnvöld vasist í slíkum málum.

Þeir sem eru á móti hvalveiðum, sem við í Frjálslynda flokknum erum alls ekki, sjá kannski ljósan punkt í hvalveiðunum ef þær koma í veg fyrir að við fáum sæti í öryggisráðinu. Það mun spara okkur ómældar fjárhæðir. Það kostar mikla fjármuni að fara þangað inn og við höfum ekki sérþekkingu til að taka okkur þau verkefni fyrir hendur. Við höfum brennt okkur á því að vera fús og viljug. Við studdum árásina á Írak. Sú ákvörðun Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks er vissulega smánarblettur sem þeir hafa sett á íslensku þjóðina. Ríkisstjórnin virðist því miður ekki vera reiðubúin til þess að brjóta odd af oflæti sínu og einfaldlega biðja íslensku þjóðina, og íröksku þjóðina enn fremur, afsökunar á framferði sínu. Hvað hefur ríkisstjórnin gert í stað þess? Hún hefur lyft mönnunum upp sem stóðu að þessu, veitt þeim há embætti, svo sem Davíð Oddssyni sem er nú orðinn seðlabankastjóri, ég tala nú ekki um Halldór Ásgrímsson sem er kominn í eitt æðsta embætti Norðurlandanna. Hann er settur þar þó að hann hafi vissulega gert afdrifaríkustu mistök í utanríkissögu íslensku þjóðarinnar. Ríkisstjórnin lyfti honum þangað upp. Mér er það bara algjörlega óskiljanlegt, ég átta mig ekki á því hvers vegna við lyftum honum þar upp, manni sem setti Ísland á lista yfir stríðsfúsar þjóðir.

Fámenn þjóð á að sníða utanríkisþjónustunni stakk eftir vexti, velja sér verkefni sem henta og einbeita sér að brýnustu hagsmunamálum þjóðarinnar.

Á umliðnum árum hefur stundum verið erfitt að átta sig á vexti íslensku utanríkisþjónustunnar vegna þess að vöxturinn hefur komið í einhverjum rykkjum og kippum. Heilu kippurnar af sendiherrum, tylftir, hafa komið og maður áttar sig ekki á þörfinni. Ekki hefur verið gefinn nokkur rökstuðningur fyrir því hvers vegna hinir og þessir fengu embætti sendiherra, heldur hafa þetta verið pólitískar mannaráðningar, því miður. Það sem er kannski verst við þessar pólitísku ráðningar er að þær rýra trúverðugleika mikilvægis utanríkisþjónustu landsins. Það ættu hæstv. ráðherrar að hafa í huga áður en þeir fara af stað með næstu kippu, sem vonandi verður ekki, heldur að menn rökstyðji þessar embættisveitingar sínar með rökum og greinargerðum.

Við hljótum að ætla að ná árangri á þessu sviði og þá skiptir miklu máli að við höfum velmenntuðu fólki á að skipa. Við ættum að einbeita okkur að því og velja okkur verkefni sem skipta máli. Þá vil ég minnast á að ég hef vissar efasemdir um fjölda sendiráða úti um allan heim. Það er skoðun mín að við ættum að einbeita okkur miklu meira að þeim stöðum sem skipta máli, t.d. Brussel sem er að verða höfuðborg Evrópu, og ekki nóg með það heldur fáum við þaðan regluverk á færibandi, frá höfuðstöðvunum í Brussel. Það skiptir mjög miklu máli að vakta það sem kemur þaðan þannig að við fáum kannski ekki regluverk fyrir milljónaþjóðir, sem kemur hingað og á að gilda um starfsemi sem er ekki sambærileg við starfsemi í milljónaþjóðfélögum. Ég get nefnt sem dæmi að rútubílstjórar hér þurfa að hlíta reglum sem eiga við á hraðbrautum í Evrópu, þar þurfa kannski að vera takmarkanir en ekki á Íslandi. Þó að rútubílstjórar starfi lengi á hverjum degi er aksturinn sjaldnast meiri en fimm tímar. Við yfirfærum oft ýmsar reglur og tökum þær upp án þess að fara gagnrýnið yfir þær. Ég er sannfærður um að hægt er að hafa áhrif þar svo við þurfum ekki að yfirtaka reglur sem eiga ekkert við í íslensku samfélagi.

Frú forseti. Í ræðu sinni segir hæstv. utanríkisráðherra að stjórnvöld leggi sérstaka áherslu á þá þætti utanríkismála sem snúa að nýtingu auðlinda hafsins. En þegar maður les ræðuna og hlýðir á hæstv. ráðherra kemur í ljós að svo virðist alls ekki vera. Það kemur ekki fram í ræðunni. Það segi ég vegna þess að hæstv. ráðherra vitnar í skýrslu sem birtist í erlendu tímariti og hún vekur máls á henni algjörlega gagnrýnislaust. Innihald skýrslunnar kveður á um að ef framvinda fiskveiða og umhverfismála verður með sama hætti og verið hefur á undanförnum árum muni allir fiskstofnar heimsins hverfa árið 2048. Það er alveg með ólíkindum að ráðherra fiskveiðiþjóðar skuli gleypa þá skýrslu án þess að fara gagnrýnið yfir hana, að hún skuli gera hana að umtalsefni á hinu Alþingi. Út af fyrir sig hlýtur að vera grunsamlegt þegar menn birta eitt svona ártal, að árið 2048 muni allir fiskstofnar heimsins hverfa. Það eina sem vantaði þarna var dagsetningin, hvaða dag það gerðist, t.d. 1. desember. Það sjá allir sem skoða þetta með gagnrýnum huga að svona spár eru mjög vafasamar.

Einnig er umhugsunarefni að fjölmiðlar landsins, fjölmiðlar fiskveiðiþjóðar, skuli birta slíka frétt svo gagnrýnislaust sem raun ber vitni, á forsíðu Morgunblaðsins. Ég verð að segja að ég hef reynt að koma rökstuddri gagnrýni að, birti hana m.a. á heimasíðu minni fyrir rétt um hálfum mánuði og benti á að skýrslan er tóm vitleysa. Það hefur einhvern veginn ekki náðst inn í umræðuna og þess vegna situr hæstv. ráðherra á ráðherrabekk og kynnir skýrslu sem inniheldur tóma dellu.

Óhætt er að fullyrða að gögnin sem þessi skýrsla byggir á og ráðherra vitnar til er hinn ólíkindalegasti samtíningur. Meðal annars eru tíndar til breytingar á lífríki kóralrifja og ósasvæða og síðan fjöldi köfunarferða ferðalanga á ákveðnum friðuðum hafsvæðum. Það verður síðan einhver spádómur um framtíðarveiðar á t.d. Íslandsmiðum eða í Barentshafi. Þetta notar hæstv. ráðherra sem gagn í skýrslu sína. Mér finnst það alveg stórundarlegt.

Það eina sem hæstv. utanríkisráðherra hefur sér til varnar í því að taka þessa vitleysisspá til umræðu er að fræðimennirnir sem komu að þeirri vinnu hafa í gegnum árin haft mjög náin tengsl við íslensk stjórnvöld. Einn þeirra sem minnst er á að hafi komið að skýrslunni var hér síðasta haust, á 40 ára afmæli Hafró, þar sem hann kynnti eina athugunina, eflaust jafnáreiðanlega, á stöðu nær allra fiskstofna heims, a.m.k. fjölmargra. Sömuleiðis var hér fræðimaður sem hefur haft náin tengsl við skýrsluhöfund þar sem hann skrifaði greinargerð fyrir stjórnvöld þar sem gerð var úttekt á Hafró eftir að hún hafði tapað mörg hundruð þúsund tonnum úr fiskabókhaldi sínu um síðustu aldamót. Þá hafði Hafró eitthvað flaskað á því að reyna að geyma fiskinn í hafinu og síðan tapaðist hann úr bókhaldinu. Og hvað gerðist? Jú, sóttur var vísindamaður með tengsl við þá skýrsluhöfunda sem vitnað er til og bar hann lof á starfshætti Hafró og sagði að þetta væri aukinn veiðanleiki.

Auðvitað er það ekki aukinn veiðanleiki sem þar var á ferðum, heldur eitthvað allt annað. Þessar líffræðikenningar sem er unnið eftir og hefur verið gert síðustu 20 árin, og íslensk stjórnvöld hafa rekið fiskveiðistjórn byggða á henni, hafa einfaldlega sýnt það að sú tilraun hefur ekki skilað nokkrum árangri, enda veiðum við helmingi minna núna en við gerðum áður en sú tilraun var gerð, þ.e. íslenska kvótakerfið. Það er nefnilega ástæðan fyrir því að íslensk stjórnvöld taka svona spá fegins hendi. Ef eitthvað er verra, t.d. vond spá úti í heimi, er það réttlæting fyrir að halda áfram sömu vitleysunni og verið hefur undanfarin ár í stjórn fiskveiða hér þótt sú tilraun hafi orðið sjávarbyggðum landsins mjög dýrkeypt. Þá grípa menn svona spá.

Vert er að stjórnvöld velti þessu fyrir sér vegna þess að umræddir vísindamenn fá m.a. styrki til að stunda þessar háðu rannsóknir, með í rauninni fyrir fram gefinni niðurstöðu um ofveiði og um að hætta þurfi veiðum. Þeir fá styrki frá alþjóðasamtökum, m.a. PEW þar sem markmið þeirra samtaka er að leggja allar fiskveiðar af. Ég er sannfærður um að íslensk stjórnvöld hitta einmitt þessi samtök og jafnvel sömu vísindamenn fyrir á ný þegar skýrslur koma um nauðsyn þess að banna botnvörpuveiðar sem hafa verið stundaðar í yfir 100 ár. Þá eru það sömu styrkir og jafnvel sömu vísindamenn og sömu stofnanir sem hafa yfir að ráða gríðarlegum fjármunum, jafnvel meiri fjármunum en nemur upphæð íslenskra fjárlaga, yfir 360 milljörðum króna, sem þeir hafa úr að spila til að styrkja rannsóknir þar sem niðurstaðan er gefin fyrir fram, þ.e. að í raun eigi að koma í veg fyrir fiskveiðar.

Ekki leggja t.d. stjórnvöld áherslu á að draga fram árangur Færeyinga eða skoða kerfi þeirra með gagnrýnum hætti. Nei, það er ekki gert, heldur er þessi leið farin.

Ég sé að tíma mínum er lokið en ætla að koma að einu í lokin. Mér finnst að íslenska utanríkisráðuneytið og íslensk stjórnvöld ættu að beita sér í meira mæli gegn geislavirkni í hafinu og veita næstu nágrönnum okkar sem starfrækja kjarnorkuver meira aðhald en gert er vegna þess að (Forseti hringir.) ljóst er að Bretar ætla að fara meira út í að knýja (Forseti hringir.) land sitt með kjarnorku. Ég vil nota tækifærið og benda hæstv. ráðherra á það.