133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:19]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég leyfi mér að efast um að útrásin fari mikið í gegnum utanríkisþjónustuna eða sendiráð Íslands. Ég þekki það. (Gripið fram í: Hvað með Viðskiptaráðið?) Ég hef spurt menn sem hafa staðið að útrásinni og hún fer minnst í gegnum sendiráð Íslands. Ég held að það sé réttlæting á þeirri starfsemi. En látum það gott heita í bili.

Mig langar að spyrja hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur hvort henni finnist ekki undarlegt með vöxtinn í utanríkisþjónustunni, þegar hann kemur svona í kippum, kannski 10 eða 12 sendiherrar í einu á færibandi. Hvort það veki ekki upp einhverjar spurningar um hvort rétt sé staðið að þeim málum. Hvort slík þjónusta eigi ekki að vaxa og að færð séu einhver rök fyrir vextinum í stað þess að hann komi í svona kippum, kannski 10, 12 eða jafnvel 20 sendiherrar á örfáum árum.

Ef maður fer yfir þetta sér maður að mikið af þessum stöðuveitingum eru það sem maður kallar pólitískar stöðuveitingar. Það er náttúrlega vafasamt þegar litið er á mikilvægi utanríkisþjónustunnar. Það er í rauninni verið að gjaldfella þessi mikilvægu störf með því að gera þau að pólitískum bitlingum.