133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:23]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem upp af því að hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir beindi orðum sínum til mín í ræðu sinni áðan vegna umræðunnar um stefnumótun og þróunarsamvinnu. Ég átti því miður ekki kost á því að sitja fund utanríkismálanefndar í gær og þurfti að kalla inn varamann, en ég fékk gögnin sem þingmenn fengu á þeim nefndarfundi og þakka fyrir þau.

Ég vildi hins vegar benda á það í ræðu minni að ég hef haft forustu um það í Samfylkingunni að leggja fram tillögu til þingsályktunar um nýja stefnumótunarvinnu í þróunarsamvinnu og endurskoðun á henni sem m.a. tekur til þess að endurskoða lögin, taka meira tillit til frjálsra félagasamtaka og samvinnu við þau og þar fram eftir götunum, vegna þess að við vitum öll að lögin eru úr sér gengin og í raun og veru ekki nýtileg, 25 ára gömul.

Þessi tillaga hefur verið lögð fram með flutningsmönnum úr öllum flokkum á hinu háa Alþingi oftar en einu sinni þannig að hugmyndirnar eru ekki nýjar af nálinni. Þær hafa hins vegar ekki fengið brautargengi í hv. utanríkismálanefnd. Þegar ég tala um samráð felst það náttúrlega líka í því að stundum sé hlustað á það sem aðrir hafa fram að færa og jafnvel tekið til greina, að ég tali nú ekki um að það sé stundum tekið og samþykkt. En það er kannski til of mikils ætlast af meiri hlutanum að fara að breyta um starfsaðferðir hvað það varðar.

Þessar hugmyndir hafa verið á ferðinni hér árum saman. Ég er mjög glöð, innilega glöð yfir því að hæstv. utanríkisráðherra skuli taka þær upp með þessum hætti og gera þær að sínum og kemst vonandi til þess að hrinda þeim í framkvæmd eða a.m.k. ýta þeim úr vör fyrir næstu kosningar.