133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:30]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, kom fram með meginviðbrögð okkar í Samfylkingunni við ræðu hæstv. utanríkisráðherra á fundinum fyrr í morgun. Ég get tekið undir málflutning hennar og Þórunnar Sveinbjarnardóttur í þessari umræðu og það sem þær hafa sagt um ýmislegt í skýrslunni og það sem þær hafa viljað bæta við hana.

Ég ætla líka að segja það, virðulegi forseti, eins og reyndar hefur komið fram hér fyrr í dag, að það er öðruvísi tónn í ræðu hæstv. utanríkisráðherra Valgerðar Sverrisdóttur en í þeim ræðum sem við höfum áður hlustað á í utanríkisumræðum á liðnum árum og það gleður mig. Það á að vera annar tónn, það á að vera munur þegar kona hefur í fyrsta sinn sest í stól utanríkisráðherra og flytur okkur boðskap sinn. Það er eðlilegt.

En áður en ég byrja á ræðu minni langar mig aðeins að víkja orðum að þeim orðaskiptum sem urðu hér áður en ég kom í ræðustól. Ungur þingmaður, bjartsýnn og fullur af trúnaðartrausti skildi ekkert í því að annar þingmaður væri að fara í fýlu yfir því að það ætti að fara að endurskoða þróunarsamvinnu af því að ráðuneytið segði að það vildi samvinnu um endurskoðun og þá er nefnilega allt gott. Það er nú bara þannig að á þeim 17 árum sem ég hef átt sæti á Alþingi, á liðnum þremur kjörtímabilum og næstum allan tímann í utanríkismálanefnd, er reynslan sú að ráðuneytið vilji ekki hafa samvinnu, hvorki um endurskoðun og gang mála né stefnumörkun. Því hefur verið mjög ábótavant en þetta vildi ég segja við unga þingmanninn án þess að slökkva of mikið bjartsýnina.

Í umræðu um utanríkismál eins og fer fram í dag eru mörg málefni undir. Um þau er tekist á og/eða bætt við umræðuna og ég hef áhuga á því að taka einn þátt sérstaklega fyrir. Utanríkismálin eru stærstu mál samtímans og umhverfismál eru stærstu mál utanríkismálanna. Þessi orð hafa aldrei átt betur við en í dag.

Fyrir mörgum árum var ég á ferð í Kanada og heimsótti indíánasvæði og kom þar inn í stórt tjald sem var eins konar sýningar- og sölutjald. Það sem vakti athygli mína og hreif mig var stórt plakat uppi á vegg með ljóði sem samið var í orðastað móður jarðar og innihald ljóðsins var á þessa lund:

Áður bjó ég með fólki mínu í sátt og það greiddi hár mitt, hlúði að líkama mínum og naut af honum og tók aldrei of mikið og ef það tók of mikið skilaði það til baka. Nú er komið nýtt fólk. Það hirðir ekki um sátt, það rífur hár mitt, tætir líkama minn, tekur meir en það þarf og skilar ekki til baka og líkami minn visnar.

Þessi viskuorð úr indíánatjaldinu höfðu gífurlega mikil áhrif á mig þarna og þau koma oft í hugann nú þegar ábyrgðarleysi samtímans blasir við.

Fyrir hönd Norðurlandaráðs sit ég sem áheyrnarfulltrúi í þingmannasamstarfi um norðurskautsmál. Ég hef haft mikinn áhuga á þeim málum sem þar eru tekin fyrir og beitt mér í þeim og sérstaklega á því ári sem ég var forseti Norðurlandaráðs, 2005. Þá valdi ég að slá mjög þá tóna um mikilvægi þess að takast á við loftslagsbreytingarnar og bera þær upplýsingar sem hafa komið fram úr hinu mikilvæga samstarfi um norðurskautið inn í Norðurlandaráð og áfram á vegum þess út á við. Samstarf norðurskautsráðsins nær eins og flestir vita til landanna frá Alaska og þar með Bandaríkjunum og Kanada í vestri austur til Rússlands og öll Norðurlöndin og sjálfstjórnarsvæðin eru þar innan borðs. Fyrirferðarmestu verkefni þingmannsamstarfsins á liðnum árum hafa verið loftslagsbreytingarnar og tengd málefni.

Það er til sóma fyrir Norðurskautsráðið, sem er samstarf utanríkisráðherranna, að hafa látið vinna þýðingarmikla skýrslu um loftslagsbreytingar á norðurslóð eða í hánorðri og aðra skýrslu um lífsskilyrði á norðurslóð fyrir u.þ.b. fjórum árum. Þessa skýrslur vöktu víðtæka athygli og skýrslan um loftslagsbreytingar sem gjarnan er nefnd ACIA-skýrslan vakti heimsathygli. Alla tíð síðan hefur verið unnið í vísindasamfélaginu á mörgum vígstöðvum með niðurstöður þeirrar skýrslu. Það þýðingarmesta sem kom fram í skýrslunni var að hitnunin á norðurslóð væri tvisvar til þrisvar sinnum hraðari eða meiri en hitnun annars staðar á hnettinum. Þetta voru óhugnanlegar upplýsingar og margir, margir vildu helst geta haldið því fram að þetta væri ekki rétt og það væri hægt að draga þessar upplýsingar í efa. Ég held að það fólk finnist ekki í dag sem leyfir sér að efast um að þær upplýsingar sem þarna komu fram eru miklar, alvarlegar og staðfesta loftslagsbreytingar um allan heim og að ástandið hér uppi í hánorðri er alvarlegra en nokkurs staðar annars staðar.

Það er líka mjög áhugavert að Evrópusambandið hefur starfað af miklum áhuga í norðurskautssamstarfinu. Fulltrúi þeirra hefur starfað mjög alvarlega í þingmannasamstarfinu og samstarf ráðherranna hefur líka orðið til þess að inn í það sem við köllum norrænu víddina, sem er áætlun Evrópusambandsins um umhverfisáætlun og aðgerðaáætlun í norður, inniheldur það sem þau kalla norðurskautsgluggann. Það hefur líka haft mikið að segja að Rússland tekur fullan þátt í starfinu um norðurskautið og ég hef leyft mér að halda því fram að samstarf Rússa með þessum þjóðum um norðurskautið hafi beinlínis orðið til þess að Rússar undirrituðu Kyoto-bókunina eftir að upplýsingarnar í ACIA-skýrslunni um hitnunina á norðurslóð voru komnar fram. Það er mín túlkun á því að þeir ákváðu skyndilega að undirrita Kyoto-bókunina.

Það eru hins vegar gífurleg vonbrigði að fram til þessa hafa Bandaríkin ekki viljað taka þátt í þingmannasamstarfinu. Það er smávonarglæta núna þar sem senator frá Alaska, Lisa Murkowski, sótti fund Kanada í mars síðastliðnum hjá norðurskautssamstarfinu og hefur lýst vilja til að vinna með en hún hefur ekki treyst sér til að koma og sækja fundi sem haldnir eru hér á norðurslóð á Evrópusvæðinu.

Það er stærsta hagsmunamál samtímans að sporna gegn loftslagsbreytingunum og það er ofboðslega alvarlegt mál að Bandaríkjamenn skuli draga lappirnar í því máli á pólitíska sviðinu og ég undirstrika á pólitíska sviðinu. Það er líka umhugsunarefni fyrir iðnríkin og öll stórveldi, eins og kom fram fyrr í umræðunni, að aðalritari Sameinuðu þjóðanna Kofi Annan skuli hafa í tvígang gert þetta mál að umtalsefni í Nairobí á fundi núna, bæði þetta að ekki skuli brugðist við og að það skorti aðgerðir til að taka á loftslagsbreytingunum á meðan þetta er að gerast í norðri og gífurlegir þurrkar í suðri, og líka að það skuli enginn veita því forustu í alþjóðasamfélaginu að taka á loftslagsmálunum. Þetta er alvarlegt.

Hins vegar bind ég mjög miklar vonir við samstarf Norðurlandanna og það er vegna þess að um þessar mundir er Rússland með formennsku í Norðurskautsráðinu. Að því loknu munu taka við þrjú tveggja ára tímabil þar sem þrjú Norðurlandanna, hvert á eftir öðru, taka við formennsku í ráðinu og ég ætlast til þess af þeim að þau verði afgerandi og það verði tekið til hendinni og reynt að taka á í alþjóðlegu samstarfi til þess að beina sjónum að þessu alvarlega ástandi og nauðsyn aðgerða.

Það er allt aðra sögu að segja af vísindasamfélaginu í Bandaríkjunum vegna þess að margar merkustu vísindaniðurstöðurnar hafa komið þaðan og bandarískir vísindamenn leiða víða rannsóknarstarf, m.a. í ACIA-skýrslunni sem ég nefndi áðan sem var leidd af Robert Correll, bandarískum vísindamanni.

Í nýrri skýrslu frá bandaríska iðnaðarráðuneytinu er því slegið föstu að orkuneysla muni aukast um 70% milli áranna 2003 og 2030, sem muni auka útstreymi um 75%. Þetta eru gífurlega alvarlegar fréttir. Þróuninni í útstreymi gróðurhúsalofttegunda hefur verið líkt við risaolíuskip á fullri ferð, að jafnvel þó að hægt væri að slá á fulla ferð aftur á bak yrði stöðvunartími mjög, mjög langur. Því er enn langt í land að við sameinumst um að setja fulla ferð aftur á bak og þess vegna svo mikilvægt að fá risaveldin með í pólitísku ákvarðanatökuna.

Þegar við lítum á afleiðingar hitnunarinnar má segja að þær felist á þremur stórum sviðum, í ís, frera og hafinu. Ísþekjan á norðurskautinu þiðnar og Grænlandsjökull þiðnar. Það er horft til tækifæranna til skemmri tíma, siglingarleiðina sem muni opnast og stytta tímann frá Tókíó til London um helming og Kanadamenn eru strax farnir að gera kröfu um að fá að ráða yfir þeirri siglingaleið meðan alþjóðleg samtök og önnur lönd vilja ekkert hlusta á það. Noregur og Rússar munu ætla sér að vinna olíu, gas og málma og það er ekkert sem stoppar neitt af því. Hins vegar getum við ef til vill sameinast um það til skemmri tíma, meðan þetta er eitthvað sem er undir, að við reynum að fyrirbyggja að farið sé með offorsi inn á þetta viðkvæma svæði. Það eru engin sérlög um norðurskautið eins og um suðurskautið en allir alþjóðasamningar um hafið gilda um norðurskautið eins og almennt um hafið. Það er enginn til að meta hvað er æskilegt eða hvað muni gerast og þess vegna eru þessi mál í farvegi sem þarf að halda utan um en það er enginn sem gerir það og enginn sem horfir lengra en til tækifæranna.

Ef við lítum á frerann er það alveg ljóst að frerinn hefur þegar þiðnað og heimkynni ísbjarna hafa þrengst mjög mikið. Dýrin á svæðinu leita lengra norður, veiðisvæði hafa flust mjög til og eyðilagst. Hús hafa skekkst og búsetuskilyrði frumbyggja hafa versnað mjög. Það er alls óþekkt hvað eða hve mikið og hvers konar gas kann að losna úr læðingi úr jörðu þegar frerinn hefur alveg þiðnað og það er gífurlega alvarlegt mál og rannsóknir á því skammt á veg komnar.

Ef við svo snúum okkur að hafinu mun ísinn bráðna út í hafið. Breytingar geta orðið á straumum, m.a. golfstraumnum, við það að svo mikið ferskvatn kemur út í hafið. Það er verið að rannsaka hvaða áhrif þetta hafi á fiskstofna, að hve miklu leyti þeir fari á flakk, og auðvitað er golfstraumurinn þarna stóra málið. Ég get ekki annað en minnt á vísindaráðstefnu sem var hér í haust um hafið. Þar voru feikimargir vísindamenn sem höfðu lagt hönd í plóg í rannsóknum um hafið og það var mikið umhugsunarefni að hlusta á það sem þeir höfðu að segja. Þar var það m.a. nefnt að það hefur áður gerst að stóru stofnarnir okkar hafi farið norður í Íshaf og norður fyrir Evrópu og það geti allt eins gerst aftur. Þetta eru allt vísbendingar enn þá og ekki staðfestar rannsóknir.

Virðulegi forseti. Ég ákvað að koma inn í þessa umræðu og reyna að fjalla svolítið ítarlega um þau mál sem Norðurlandaráð lætur sig svo miklu varða, um loftslagsbreytingarnar og aðgerðir á norðurhveli. Umræðunni hættir til að tætast talsvert til og þess vegna hef ég leyft mér að fjalla fyrst og fremst um eitt mál og hefði reyndar ætlað að taka fyrir þriðja alþjóðaár heimskautasvæðanna en til þess vinnst mér ekki tími.