133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:37]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að fá þessar fréttir af þróun mála varðandi Svalbarðamálið. Ég hef sagt það hér áður að ég telji að þetta sé kannski stærsta utanríkismál okkar Íslendinga nú um stundir, þ.e. af þeim málum sem horfa beint við okkur ef svo má segja og snerta hagsmuni okkar varðandi auðlindanýtingu og annað þess háttar. Þetta er að sjálfsögðu mjög erfitt og flókið mál og afskaplega viðkvæmt mál. Norðmenn hafa haldið þarna ákveðinni stöðu og hafa haft spil á hendi sem þeir hafa notað af miklum klókindum og mikilli framsýni um áratugaskeið. Núna eru hins vegar vísbendingar um að mikill áhugi sé að vakna hjá öðrum þjóðum á þessu svæði vegna þess að þarna eru mjög miklar auðlindir. Spánverjar hafa sótt fast að Norðmönnum varðandi fiskveiðiauðlindirnar og það er mál í gangi núna fyrir hæstarétti Noregs þar sem spænsk útgerð hefur stefnt norsku ríkisstjórninni vegna deilna um réttindi til að veiða á Svalbarðasvæðinu. Það eru mjög sterkar vísbendingar um að þarna sé bæði olía og gas og það er bara spurning um tíma, virðulegi forseti, hvenær þjóðir fara að seilast eftir þeim auðæfum. Þá gæti fljótt farið að skerast í odda og þess vegna skapast spennt ástand.

Ég minni á að enn er ólokið samningaviðræðum milli Rússa og Norðmanna um hið svokallaða gráa svæði í Barentshafi, það er deila sem aldrei hefur náð að leysast. Menn hafa bara ýtt henni á undan sér með málamiðlunum um margra ára skeið og engin lausn er í sjónmáli. Hins vegar getur skapast þarna viðsjárvert ástand, sérstaklega ef þarna fara að finnast miklar auðlindir sem þjóðirnar fara að sækjast eftir.

Að lokum vil ég sjálfsögðu segja það, virðulegi forseti, að ég hlýt náttúrlega að fagna allri viðleitni íslenskra stjórnvalda til þess að koma hrjáðum íbúum Palestínu til aðstoðar.