133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:39]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem upp aftur í þessari umræðu í rauninni bara til að klára ræðu mína sem ég náði ekki alveg að ljúka við á þeim tíma sem til var skammtaður fyrr í dag. Maður lendir í ýmsu um ævina, hæstv. forseti, en þegar gamli tíminn mætir, holdi klæddur, og sakar mann um að vera liðsmann Moskvu eða Ho Chi Minh þykist ég vita að sú sem hér stendur hefur flest heyrt, en það segir kannski meira um aðra en mig. Nóg um það.

Hæstv. forseti. Mig langaði til að víkja að öryggisráðinu og því sem hæstv. utanríkisráðherra sagði um það í ræðu sinni og hefur verið rætt hér nánar í dag. Hæstv. ráðherra segir, og ég er henni fyllilega sammála um það, að enda þótt Ísland flokkist sem smáríki á alþjóðlegum mælikvarða eigum við fullt erindi inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og í raun er það hlutverk okkar sem fullvalda og sjálfstæðs ríkis að axla þá ábyrgð. Ef til kemur hugsa ég að það gæti orðið bæði snúið og jafnvel erfitt verkefni á köflum, þannig eru viðfangsefni öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, en ef við erum ekki tilbúin til þess að axla þau og kljást við þau á þeim vettvangi, hvers vegna ættum við þá að ætlast til þess að fulltrúar annarra ríkja geri það og þá í raun fyrir okkar hönd með óbeinum hætti?

Eins og allir vita hafa stórríkin eða stórveldin fimm sem sigruðu í seinni heimsstyrjöldinni haft neitunarvald í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í 60 ár og það setur mark sitt á starf ráðsins. Auðvitað hafa verið í gangi miklar samningaviðræður og undirbúningur að því að reyna að breyta starfsemi ráðsins með einhverjum hætti og mér er fullkunnugt um afstöðu íslenskra stjórnvalda í þeim efnum. Það sem mig langaði til að tengja þetta við er hlutverk öryggisráðsins sem á að standa vörð um alþjóðalög og þjóðarétt og að þau lög og sá réttur sé virtur af aðildarríkjunum og í raun af öllum ríkjum heims. Þá verð ég, hæstv. forseti, að koma aftur að umræðuefni mínu fyrr í dag sem er stuðningur íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak, af því að með þeim stuðningi voru stjórnvöld í raun að taka fram fyrir hendurnar á öryggisráðinu. Það er spurning hvort menn hafi íhugað það mál í því samhengi og í samhengi við framboð okkar til öryggisráðsins. Við hljótum að hafa, sem ríki sem býður sig fram til starfa á vettvangi öryggisráðsins, fulla trú á því að þar eigi að taka ákvarðanir um stríð og frið í raun og veru og að það sé réttur vettvangur til þess en ekki að fylgja einu landi eða einu stórveldi eða einu ríki umfram önnur í vægast sagt vafasamri stefnu sinni um svokölluð forvarnastríð eða einhvers konar stríð gegn hryðjuverkum.

Mig langaði bara til að koma þessu á framfæri við umræðuna í dag af því að við verðum auðvitað spurð um þetta eins og bent hefur verið á, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur bent hér á að við verðum auðvitað spurð um þetta í framboðinu. Við verðum spurð um öryggismálin, um Palestínu, um hvalveiðar, um umhverfismálin og þar fram eftir götunum. Að sjálfsögðu verður það þannig. Þó ekki væri til annars en að fá íslensk stjórnvöld, hver sem þau eru, til þess að standa fyrir máli sínu gagnvart öðrum ríkjum, verður þessi ferð til góðs, hvernig sem hún síðan fer.

Annað sem ég vildi víkja að í lokin er heimsókn sendiherra Ísraels sem hingað kom í vikunni og hitti ráðamenn á Íslandi. Við í Samfylkingunni ákváðum að verða við beiðni sendiherrans um að hitta hana og ég fór sem fulltrúi í utanríkismálanefnd fyrir Samfylkinguna, ásamt formanni flokksins, hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og tók á móti sendiherranum. Þar afhentum við henni umorðalaust ályktun þingflokks Samfylkingarinnar um ástandið í Ísrael og Palestínu og álit okkar á framferði Ísraelsstjórnar, Ísraelshers, og þeirri lögleysu sem þar viðgengst alla daga, árum saman og áratugum saman. Það má svo sem segja frá því að ekki var boðið upp á umræður um það mál, enda töldum við ekki að rökræða þyrfti þau mál við sendiherrann þó að sjálfsögðu bærum við virðingu fyrir embætti hennar. Enda fékk téður sendiherra ágætistíma í íslenskum fjölmiðlum til að útskýra stefnu Ísraelsstjórnar og gat vonandi upplýst landsmenn um hana.

Vandamálið, átökin fyrir botni Miðjarðarhafs, sem rekja má alla leið til stofnunar Ísraelsríkis árið 1948 og stríðanna sem þar hafa verið og til hernámsins, sem á 40 ára afmæli í júní á næsta ári, eru að verða einhver langvinnustu átök í heimi. Kasmírdeilan er álíka gömul og af henni hafa líka hlotist stríð, mannfall og ófriður. Það eru líklega fá brýnni mál á alþjóðlegum vettvangi að leysa en þessi tvö, bæði Palestínudeilan og Kasmírdeilan, og við verðum að vona að Ísland geti með einhverjum hætti beitt sér í þeim efnum á næstunni, á næstum árum, og kannski, ef af verður, innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hver veit? Það yrði a.m.k. mjög verðugt verkefni.

Það verður að segjast eins og er að framferði Ísraelsstjórnar og Ísraelshers gegn Palestínumönnum hefur bara versnað á undanförnum árum og áratugum. Allt frá því að fyrsta Intefadan fór af stað árið 1987 höfðu hinir almennu palestínsku borgarar ekki í raun verið að berjast gegn hernáminu á götum úti, ekki með þeim hætti sem síðan hefur gerst. Seinni Intefadan, sem hófst árið 2000 og var að einhverju leyti kölluð fram af landtökustefnu Sharon-stjórnarinnar og öðrum verkum þeirrar stjórnar Ariels Sharons, hefur ekki bara leitt af sér ólöglegar árásir og ólöglegt framferði Ísraelsstjórnar heldur síaukið ofbeldi, enga virðingu fyrir réttindum fólks, enga virðingu fyrir réttindum Palestínumanna á hernumdu svæðunum, og í raun og veru framferði sem er með öllu óskiljanlegt að látið sé að mestu óátalið.

Við vitum öll hvers vegna það er, það er vegna þess að bakhjarl Ísraels er Bandaríkjastjórn og sú Bandaríkjastjórn sem nú situr hefur líklega verið besti bakhjarl þess ríkis, af því að það gerðist þó á árum áður að aðrar ríkisstjórnir í Washington settu Ísraelsstjórn á stundum stólinn fyrir dyrnar þegar þeim þótti of langt gengið. Það gerist ekki lengur og meðan ekkert er aðhaldið, hvorki þaðan né í raun frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, því að þar er stöðugt beitt neitunarvaldi ef þessi mál koma upp á, líðst Ísraelsmönnum framferði sem er í raun og veru ekkert annað en síendurtekin brot á Genfarsáttmálanum og ýmiss konar stríðsglæpir. Líklega er innrásin í Líbanon í sumar, og það stutta stríð sem þar var háð og klasasprengjurnar 100 þúsund sem eftir liggja, gleggsta dæmið um það hvernig sumum ríkjum líðst að fremja stríðsglæpi en öðrum ekki.