133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:51]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er auðvitað aldrei þannig að sökin liggi á einum stað. Hins vegar held ég að ef tala á um sök í deilunni milli Palestínu og Ísraels liggi hún allt eins hjá alþjóðasamfélaginu fyrir að hafa tekið þá ákvörðun árið 1947 að stofna Ísraelsríki ári seinna án tillits til þess í raun hvaða áhrif það hefði á fólkið sem þar var fyrir og án þess að leysa þann vanda sem skapaðist við það að stofna Ísraelsríki árið 1948. Sá vandi er núna að verða 60 ára gamall og hann er verri en nokkru sinni fyrr. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þeir sem tóku þátt í að stofna Ísraelsríki og studdu það — og það gerðu Íslendingar og fleiri ríki — gerðu það af góðum hug og góðum vilja en ég er ekki alveg viss um að menn hafi séð fyrir þær hörmungar sem það leiddi af sér. Það er einfaldlega þannig að þegar þjóð hefur verið haldið fanginni, ef svo má segja, í flóttamannabúðum innan múra við fátækt, vonleysi og örbirgð, ekki bara í nokkur ár heldur áratugum saman, kynslóð fram af kynslóð, verður maður að hafa skilning á því að fólk bregðist við með reiði og jafnvel ofbeldi. En ég ætla ekki að réttlæta ofbeldið, hvorki það sem framið er af Ísraelsher né það sem framið er af sjálfsmorðssprengjuárásarmönnum eða öðrum þeim sem grípa til ofbeldis í Ísrael og Palestínu.