133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:58]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hefur verið mjög málefnaleg að mínu mati og í raun mjög jákvæð þar sem mjög margir hv. þingmenn hafa tekið undir áherslur mínar og mál mitt í upphafi umræðunnar og ég er mjög þakklát fyrir það.

Ég vil aðeins halda áfram með öryggisráðið af því að við vorum að ræða það nú í andsvörum. Auðvitað hefði maður viljað að öryggisráðið gæti leyst öll mál en það tekst ekki alltaf og Íraksmálið, sem hefur verið hér til umfjöllunar, er eitt af þeim málum sem má nefna í því sambandi. En íslensk stjórnvöld hafa hins vegar viljað breyta samsetningunni og starfsháttum öryggisráðsins í því augnamiði að gera það skilvirkara. Það hefur verið talað um óskilvirkni, sem er staðreynd t.d. í sambandi við Ísrael síðastliðið sumar þegar átökin voru í Líbanon, að þar skuli ekki hafa verið hægt að grípa fyrr inn í og stöðva það hræðilega stríð.

En talandi um Líbanon þá langar mig til að greina frá því að á fundi með utanríkismálanefnd í gær greindi ég frá því að við erum að velta fyrir okkur og nánast búin að taka ákvörðun um nýtt verkefni í sambandi við Íslensku friðargæsluna sem gæti unnið í samstarfi við sprengjueyðingardeild Landhelgisgæslunnar. Verkefnið felst í að hreinsa svæðið í suðurhluta Líbanon. Það er ætlunin að friðargæslan leggi til tvö þriggja manna teymi og mundu tveir sérfræðingar frá Landhelgisgæslu ásamt einum bráðaliða eða sjúkraflutningamanni fara til Líbanons í um sex vikur hvort teymi. Íslenska friðargæslan mundi starfa í mjög nánu samstarfi við Svía en þarna er neyðaraðstoðarsveit frá sænska ríkinu. Bækistöð yrði í Týros í Suður-Líbanon. Þarna er svo sannarlega verk að vinna og ég er stolt af því ef við getum komið þar að málum.

Í umræðunni í morgun var spurt frekar út í utanríkis- og öryggismálastofnun sem ég hafði nefnt hér í ræðu minni, reyndar þeirri sem var dreift en ekki þeirri sem var flutt. Við erum í raun ekki komin með fastmótaðar hugmyndir um þessa stofnun enn þá en það sem ég sé fyrir mér er stofnun sem tekur á öryggismálum í víðum skilningi og þar með talin eru að sjálfsögðu umhverfismál, þróunarmál, friðargæsla og mannréttindi og þessi stofnun gæti starfað í tengslum við fræðimannasamfélagið. En eins og ég sagði er í rauninni ekki búið að fullmóta allar þessarar tillögur en þetta verður rætt innan tíðar í ríkisstjórninni.

Í sambandi við stefnu í þróunarmálum þá liggur hún í raun fyrir og kom fram á síðasta ári í þeirri stefnumótun og stefnumörkun sem lögð var fyrir Alþingi í sambandi við stefnumótun Íslands í þróunarsamvinnu. Vinnan sem fram undan er og snýst um að gera tillögur um breytingar á 25 ára lögum er mjög mikilvæg og ég óska eftir góðu samstarfi við þingið og þá sérfræðinga sem til mála þekkja vegna þess að um þessi mál verður að nást mikil samstaða. Það hefur verið nokkuð góð samstaða fram til þessa og hún þarf að vera áfram, ekki síst þegar við erum að stórauka framlögin þá verður þjóðin að stíga þetta nokkuð vel í takt og þess vegna verður vel vandað til vinnunnar.

Það var spurt um mengun vegna hersins og hvort á fjárlögum næsta árs væru fjármunir til að takast á við það. Þannig er að samkvæmt úttekt sérfræðinga er ekki talið aðkallandi — eða það er a.m.k. ekki hættuástand í sambandi við mengunarmál. Þetta hefur komið fram í áliti sérfræðinga en hreinsunin verður að miklu leyti útfærð samfara nýtingu lands sem nú er á forræði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. Það er ekki gert ráð fyrir fjármunum í fjárlagafrumvarpinu beinlínis vegna þessarar hreinsunar en það verður kallað eftir þeim eftir því sem Þróunarfélagið vinnur störf sín áfram og einhverjir fjármunir eru hugsaðir til Þróunarfélagsins í fjárlögum.

Síðan var spurning frá hv. þm. Valdimar L. Friðrikssyni í sambandi við ratsjárnar. Það eru viðræður fram undan bæði við Bandaríkjamenn og NATO um þetta hlutverk og kostnaðarhlutdeildina. Ratsjárstofnun og ratsjárstöðvarnar eru fjórar og við höfum lagt áherslu á að þær munu allar starfa til framtíðar. Eins og er eru þær reknar af Bandaríkjamönnum en því tímabili lýkur 15. ágúst og það er mikil áhersla lögð á að starfsemin haldi áfram.

Það er ljóst að það kostar hundruð milljóna á ári og gæti jafnvel verið milljarður, að reka þessar stöðvar til framtíðar. Hins vegar hefur verið gert mjög mikið átak í sambandi við tæknimál þessara stöðva, þær eru orðnar mjög sjálfvirkar og hefur þýtt að það þurfti að segja upp fólki sem hefur ekki verið vel séð á þessum stöðum sem ég skil mjög vel þar sem þær hafa verið með starfsemi á norðaustur- og norðvesturhorninu og svo á suðausturhorninu, ég tala nú ekki um á Miðnesheiðinni þar sem fólk hefur verið að missa störf í hundraðatali. En ég tel að við höfum getu og kunnáttu til að fylgjast með flugumferð og til að stjórna loftvarnaæfingum sem við sjáum fram á að verði stundaðar hér er hægt að hugsa sér að hingað komi þar til bærir aðilar og stjórni loftvarnaæfingunum úr þeirri aðstöðu sem Ísland hefur upp á bjóða. Þá er líka alveg hægt að hugsa sér að leitað verði hófanna hjá Atlantshafsbandalaginu hvað varðar loftvarnaeftirlitið.

Fyrrverandi varnarsvæði er núna þrískipt. Það er utanríkisráðherra sem hefur umsjón með öryggissvæðinu svokallaða og hafa verið tryggðir fjármunir til að reka það. Svo er það flugumferðarstjórn Keflavíkurflugvallar sem heyrir undir utanríkisráðuneytið og á næstu mánuðum verður unnið að yfirfærslu á þeirri stjórnsýslu sem hefur heyrt undir utanríkisráðuneytið því að að einhverju leyti á hún heima í viðkomandi fagráðuneyti til framtíðar. Að ýmsu leyti hefur verið sérstakt ástand hér á meðan varnarliðið var en þetta er bara vinna sem þarf að fara í.

Síðan langar mig til að segja, hæstv. forseti, í lokin að það hefur komið fram eða hefur verið þó nokkuð komið inn á gróðurhúsavandamálið og loftslagsbreytingarnar og þá vil ég taka það fram að við Íslendingar erum í ágætismálum hvað varðar þetta tímabil frá 2008–2012 og það er ekki þannig að við sjáum fram á að fara fram úr heimildum okkar á því tímabili. Hins vegar skal það líka tekið fram að ef af öllum þeim álversframkvæmdum verður sem talað er um í dag þá eigum við ekki kvóta til framtíðar. En það er hins vegar ekki okkar vandamál. Fyrirtækin sem eru með áform uppi um að fjárfesta og fara út í frekari uppbyggingu í álbræðslu hér verða að átta sig á því. Við erum sem sagt ekki, eins og margar aðrar þjóðir í kringum okkur, í vandræðum í sambandi við þetta fyrsta viðmiðunartímabil.

Hvað höfum við svo verið að gera til að reyna að draga úr gróðurhúsalofttegundum? Við höfum t.d. tekið þátt í alþjóðasamstarfi um þróun vetnistækni sem getur stuðlað að sveigjanlegri notkun endurnýjanlegra orkugjafa með það fyrir augum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í flutningum. Notkun endurnýjanlegra orkugjafa Íslendinga í orkufrekum iðnaði er til þess fallin að draga úr losun, þegar horft er hnattrænt. Ég held að við verðum að viðurkenna það, þótt við getum verið algerlega ósammála um hvort við eigum að vera að byggja upp álver á Íslandi, að það eru minni gróðurhúsaáhrif af álveri í rekstri hér en ef það væri einhvers staðar annars staðar þar sem það væri drifið áfram með kolum. En ég ætla að vona að ég sé ekki að vekja upp alla þá umræðu hér í lok umræðunnar því að ég held að hún eigi heima annars staðar og er oft tekin upp á hv. Alþingi en ég vildi að þetta kæmi fram.

Svo má líka nefna að við Íslendingar höfum unnið mjög mikilvægt starf á sviði bindinga gróðurhúsalofttegunda, bæði með skógrækt og landgræðslu og þar tel ég reyndar að við eigum gríðarlega mikil tækifæri til framtíðar og jafnvel í sambandi við þróunarstarf þá eigum við möguleika á því að verða þar á vegum Sameinuðu þjóðanna sem sérfræðingar í þróunarlöndum til að kenna landgræðslu. Það væri mjög áhugavert starf sem ég mundi gjarnan vilja beita mér fyrir meðan ég fer þetta mikilvæga starf utanríkisráðherra.

Ég held, hæstv. forseti, að ég sé búin að koma nokkurn veginn inn á flest sem spurt var um og einhverju svaraði ég í andsvörum, en ef svo er ekki þá vona ég að hv. þingmenn gefi sig fram og ég geti þá komið upp aftur og svarað.