133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:15]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég lýsa vonbrigðum mínum með það ef ekki á að setja fjármuni í að hefja aðgerðir til að hreinsa mengun á yfirgefnum herstöðvarsvæðum. Það er vond byrjun. Maður hefur illan bifur á því að þar með hefjist þrautaganga í þeim efnum og viðfangsefnið verði látið dankast. Satt að segja fannst mér orðalagið ekki lofa góðu í fylgiskjali með niðurstöðunni sem birtist opinberlega þegar þessir samningar voru undirritaðir. Þar var beinlínis látið að því liggja að það lægi kannski ekki mikið á að takast á við þetta viðfangsefni, a.m.k. hluta þess.

Í öðru lagi vil ég spyrja um stjórnsýslumál á vellinum, t.d. varðandi Flugmálastjórn. Hvernig stendur á því að Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli fer ekki strax undir samgönguráðuneytið?

Ég vil einnig nefna málefni Flugstöðvarinnar sem slíkrar. Bandaríkjamenn lögðu fram fé til byggingar flugstöðvarinnar á sínum tíma eins og frægt varð. Til stóð að þeir bæru 40% kostnaðarins ef ég man rétt en þeir komu því svo klókindalega fyrir að þeirra upphæð var föst þannig að allur umframkostnaður lenti á Íslendingum. Þegar upp var staðið var það okkur kannski ekki sérstaklega hagstætt. Það fylgir hins vegar kvöð í samningunum um að Bandaríkjaher geti yfirtekið flugstöðina til sinna nota ef á þarf að halda. Nú spyr ég: Var leyst úr þessu máli og er þessi kvöð niður fallin eða helst hún?

Í þriðja lagi hlýt ég að mótmæla því að við stöndum vel að vígi hvað loftslagsmálin varðar og Kyoto-bókunina, sem vel að merkja átti aðeins að vera upphafið, fyrsta skrefið á langri leið, að miklu harðari aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og bjarga þar með jörðinni, ef maður leyfir sér bara einfaldlega að orða það þannig. Á teikniborðinu eru þrjú, fjögur eða jafnvel fimm ný álversverkefni sem kolsprengja þann ramma út í hafsauga og mundu leiða til þess að Ísland margfaldaði heimsmet sitt, sem við erum þegar að ná, í losun gróðurhúsalofttegunda á íbúa.